04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í C-deild Alþingistíðinda. (2968)

52. mál, útsvör

Bernharð Stefánsson:

Þótt jeg búist ekki við að jeg ljái þessu frv. óbreyttu fylgi mitt, verð jeg þó að láta í ljós ánægju mína yfir því, að komið er fram frv. til breytinga á útsvarslögunum frá 1926, því að jeg vona, að úr því að frv. er komið fram til breytinga á lögunum á annað borð, verði einnig fleiri ákvæði laganna tekin til athugunar.

Þegar útsvarslögin frá 1926 gengu í gildi, varð mikil breyting á fyrirkomulaginu í þessu efni og um mikla stefnubreytingu að ræða. Áður hafði ákvæðunum um útsvarsskyldu verið hvað eftir annað breytt í þá átt, að færa út rjett sveitarfjelaganna til að leggja útsvar á atvinnu. En eftir lögunum frá 1926 var heimilisfang að mestu látið ráða um útsvarsskyldu, og sum hjeruð voru á þennan hátt svift miklum tekjum.

Það er mitt álit, að löggjöf þessi hafi ekki verið nægilega undirbúin og athuguð. Jeg vil því benda þeirri hv. nefnd, sem kemur til með að hafa þetta mál til meðferðar á, að binda sig ekki við þær breytingar, er frv. fer fram á, heldur taka galla laganna til athugunar yfirleitt og leitast við að ráða bót á þeim; þeir hafa komið fleiri og fleiri í ljós með tímanum. T. d. hefir það komið á daginn, eins og spáð var hjer, er lögin voru til umræðu, að skifting útsvars á milli heimilissveitar og atvinnusveitar hefir verið miklum örðugleikum bundin. Einnig hefir það og komið í ljós, eins og líka var spáð hjer, að sumir óreiðumenn hafa með öllu sloppið við að greiða útsvar. Jeg býst við, að jeg komi fram með ýmsar breytingar á útsvarslögunum er þetta frv. kemur aftur frá nefnd, ef nefndin ekki kemur sjálf fram með þær breytingar, sem jeg tel æskilegar.