13.03.1929
Neðri deild: 21. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í C-deild Alþingistíðinda. (2984)

55. mál, fátækralög

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Fátækramálin hafa verið svo mikið rædd á síðustu þingum, að jeg tel ekki þörf á langri framsögu.

Með nýju fátækralögunum frá 1927 var ekki ráðin bót á ýmsum göllum skipulagsins. Því höfum við, flm. þessa frv., hugsað okkur að reyna, hvort hinir nýju þingmenn mundu ekki líta öðruvísi á það mál en þá var gert.

Frv. þetta fer fram á, að ríkið alt verði gert að einu framfærsluhjeraði, að hver maður hafi rjett til framfærslu í dvalarsveit sinni. Sveitarfjelögin halda áfram að hafa úthlutun styrksins á hendi og eftirlit með styrkþegum. En reipdráttur hreppanna um framfærsluskylduna hættir. Hjer hefir komið fram annað frv. um breytingu á fátækralögunum, um að stytta sveitfestistímann niður í 2 ár. En þetta frv. fer það lengra, að það gerir dvalarsveit að framfærslusveit. Kostnaði hreppsfjelaganna af framfærslu þurfamanna ræður ekki nein eðlileg skifting, heldur hending. Sveitarþyngslin á sumum hreppum eru mjög ranglát. Hjer er samábyrgðin gerð víðtækari, þannig að ríkið alt er gert að einu framfærsluhjeraði. Sveitarstjórnirnar reikna út kostnaðinn og senda stjórnarráðinu skýrslu um, en ráðuneytið skiftir síðan kostnaðinum niður eftir efnum hreppanna og ástæðum. Með frv. er því verið að reyna að koma á meiri jöfnuði milli hreppanna en verið hefir og afnema sveitarflutning. Það má telja upp ýms dæmi um ómannúðlegan fátækraflutning. Slík dæmi hafa verið birt í blöðunum. En þau hafa verið varin með því, að sveitunum væri ekki á annan hátt unt að fá ódýra fátækraframfærslu. Með frv. þessu er reynt að koma á jöfnuði á kostnað sveitarfjelaganna. Svipuð hugmynd hefir verið uppi áður, og ætla jeg að hv. þm. Borgf. (PO) hafi fyrstur bent á þá leið.

Að öðru leyti felur frv. litlar breytingar í sjer, nema á 43. gr. Þar eru talin upp þau tilfelli er sveitarstyrkur er ekki afturkræfur, en ekki, eins og í núgildandi lögum, lögð á vald sveitarstjórna ákvörðun í þessum efnum.

Vænti jeg að frv. verði vísað til allshn.umr. lokinni.