13.03.1929
Neðri deild: 21. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í C-deild Alþingistíðinda. (2985)

55. mál, fátækralög

Hákon Kristófersson:

Það er ekki meining mín að mæla móti því, að málinu verði vísað til nefndar. En jeg sje ekki, að það eigi nokkurt erindi þangað. Allshn. hefir þegar tekið afstöðu til fátækralaganna; hún hefir afgreitt nefndarálit viðkomandi frv. um breytingu á 21. gr. laganna, og mjer sem einum nefndarmanni er kunnugt um, að n. treystir sjer ekki til að mæla með víðtækari breytingum á fátækramálunum en felast í fyrnefndu frv., sem n. hefir skilað umsögn um og bráðum verður tekið til umr. hjer í hv. deild.

Jeg ætla ekki að fara út í breytingar þær er frv. það, sem hjer er um að ræða, gerir á núgildandi lögum. Þær eru svo miklar og margvíslegar, að það þarf sjerstök gögn til að fara út í það. Þó býst jeg við, að ekki muni þorri þjóðarinnar aðhyllast þá skipun, að gera land alt að einu framfærsluhjeraði. Jeg hygg, að núverandi skipulag verði ólíkt ódýrara. Ef um víðtæka breytingu væri að ræða frá því, sem nú er, mundi engu síður geta komið til mála, að hvert sýslufjelag yrði sameiginlegt framfærsluhjerað, í staðinn fyrir að hugsa sjer landið alt sem slíkt.

Hv. flm. hjelt því fram, að fátækraflutningar væru sumstaðar ómannúðlega framkvæmdir. Jeg leyfi mjer að mótmæla, að svo sje. Hann benti heldur ekki á neitt dæmi um slíkt. Hitt vitum við báðir, að ýmsir, er þurfa á fátækrastyrk að halda, vilja gjarnan vera á þessum og þessum stað og einkanlega í bæjunum. En styrkþegar, sem búa í bæjunum, ætla að sliga sumar sveitir. Jeg skal benda á tvo hreppa, sem alveg eru að sligast undir slíku fátækraframfæri: Auðkúluhrepp í Ísafjarðarsýslu og Gufudalshrepp í Barðastrandarsýslu. Auk þess hafa aðrir hreppar í þeirri sýslu fengið mismunandi þunga skelli af því. Og þetta er ekkert óeðlilegt. Í bæjunum þarf ekki annað en fá fátækrafulltrúa til að skrifa á seðil vottorð um, að þessi eða þessi þurfi styrk; svo verða hrepparnir að borga. En ekki er nema eðlilegt, ef sannað er, að ódýrara verði að ala ómagann heima heldur en í fjarlægð, að hann sje þá fluttur á sína sveit.

Eins og jeg benti á, þá hefir allshn. tekið afstöðu til breytinga á fátækralögunum, og er því tilgangslaust að vísa frv. til hennar. Sjálfur hefði jeg komið með ýmsar frekari brtt. við fátækralögin, ef jeg hefði ekki vitað, að hún vildi ekki hreyfa frekar við þeim en hitt frv. fer fram á.