05.04.1929
Neðri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Pjetur Ottesen:

Jeg get ekki betur sjeð en að í þessum umr. sje þegar fengin full viðurkenning á rjettmæti brtt. hv. landbn. og að hv. þdm. telji yfirleitt sanngjarnt að veita bændum til sjávar og sveita í fjelagi aðgang að sömu lánsstofnun. Hæstv. forsrh. andmælti alls ekki rjettmæti sjálfrar till. Ræða hans snerist öll um aukaatriði.

Jeg gat ekki skilið hæstv. ráðh. öðruvísi en svo, að hann hefði í hyggju að koma á fót sjerstakri lánsstofnun fyrir bátaútveginn. Tek jeg því að vísu þakksamlega að eiga von á einhverjum till. í þá átt frá honum. En hæstv. ráðh. verður að virða mjer það til vorkunar, þó að jeg sje dálítið tortrygginn um framkvæmdir af hans hendi í þessu efni, eftir allri framkomu hans að dæma í garð útvegsmanna, og algerðu áhugaleysi hans um þeirra mál og skilningsleysi á þörfum þeirra.

En jafnvel þótt gefið sje nú fyrirheit um, að fram komi einhverjar tillögur um lánsstofnun fyrir bátaútveginn þegar á næsta þingi, þá er eigi að síður full ástæða til að gera eitthvað til að bæta úr brýnustu nauðsyninni nú. Þörfin á þessu sviði er svo brýn og aðkallandi, og það er heldur ekki óhugsandi, að nokkur dráttur geti orðið á framkvæmdum, þrátt fyrir góð orð hæstv. forsrh.

Þá sagði hæstv. forsrh., að aðstaða sín í gær hefði að nokkru leyti markast af því, að hann hefði engar takmarkanir fundið í till. nefndarinnar. Það er að því leyti rjett, að ein setning um þetta atriði í till. hafði fallið úr í prentun. En það kom skýrt fram í ræðu frsm. og líka kemur það skýrt fram í nál., hvað fyrir n. vakir. Svo þetta þurfti ekki að valda neinum misskilningi hjá hæstv. ráðh.

Það var alveg ástæðulaust fyrir hæstv. forsrh. að taka sjer það til, þó að jeg talaði um, að hugmyndin, sem fram kemur í frv. um sveitabanka, væri tekin upp úr rekstrarlánafrumvarpi því, sem flutt var af mönnum úr íhaldsfl. á þinginu í fyrra. Mjer fanst hæstv. ráðh. kveinka sjer við það, að jeg mintist á þetta. Þó hæstv. ráðh. vilji nú reyna að komast framhjá því að kannast við þetta, þá vill svo vel til, að í sjálfri grg. frv. um sveitabanka er fullkomin viðurkenning á þessu. Þar er skírskotað til frv. um atvinnurekstrarlán. Það dylst heldur engum, sem ber saman bæði frv., að þetta er svona. Því það er ekki einasta, að hugmyndin sje tekin, heldur eru tekin upp í þetta frv. sum ákvæði hins frv. alveg óbreytt að efni og orðalagi. Jeg skal ekki rengja hæstv. ráðh. um það, að hann hafi heyrt eitthvað um svipað fyrirkomulag í öðrum löndum. En þó svo sje, þá er það jafnframt ómótmælanlegt, að með frv. um atvinnurekstrarlán, sem borið var fram í fyrra af íhaldsmönnum, var í fyrsta sinn reynt að setja lög um þetta efni.

Jeg sje á hæstv. forseta, að honum þykir þessi athugasemd mín orðin nokkuð löng, og jeg skal því brátt ljúka máli mínu.

Það er misskilningur hjá hæstv. ráðh., að jeg hafi sagt að landbúnaðurinn væri taglhnýtingur sjávarútvegsins. Þetta eru hans eigin orð. Jeg sagði aðeins, að ræktunin kringum kauptúnin bygðist eins og nú stæði að miklu leyti á sjávarútveginum, og ætla jeg, að það sje ekki ofmælt. Og öllum er það kunnugt, að sjávarútvegurinn leggur til mikið verðmæti í þjóðarbúið, og það er jafnkunnugt og fullkomlega rjettmætt að kannast við það, að sá opinberi stuðningur, sem veittur er nú til þess að rækta landið, er að allmiklu leyti þaðan runninn.

Hv. frsm. vill fresta atkvgr. um brtt. til 3. umr. Jeg álít, að það geti verið mjög óheppilegt, ef ekki fæst úr því skorið nú, hvort deildin felst á till. n. eða ekki. Það má ganga út frá því, að frv. um Fiskiveiðasjóð Íslands komi til 2. umr. áður en þetta frv. kemur til 3. umr. Væri því mjög æskilegt að fá úr því skorið áður, hver verða afdrif þessara tillagna, og það því fremur sem tillögur sjútvn. um aukning Fiskiveiðasjóðsins eru sýnilega bygðar á því að nokkru leyti, að smábátaútvegsmenn fái aðgang að rekstrarlánum í fjelagi við landbændur.