15.04.1929
Efri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í C-deild Alþingistíðinda. (3004)

59. mál, ófriðun sels í Ölfusá

Frsm. (Jónas Kristjánsson):

Eins og jeg gat um áðan, þá var frv. upphaflega fram borið í þeirri mynd, að greiðslur fyrir mist hlunnindi af selveiði kæmu eingöngu frá ríkinu. En í þessu frv. er farið bil beggja, þannig að ríkið greiði ábúendum þeirra jarða, er það á sjálft, fyrir það, sem þær missa við að selveiðin minkar eða hverfur, en aftur sje jafnað gjaldi niður á þá, er laxveiðihlunnindi hafa, til þess að bæta upp þeim, er selveiði missa og eru sjálfseignarbændur. Þarna mun nú um mjög lítið að ræða, eða vegna einnar hjáleigu frá Arnarbæli. (GÓ: Líklega of lítið fyrir aðra en ríkissjóð að greiða það!) Já, þetta er nú ekki mikil upphæð, og það munar ekki um einn lítinn kepp í sláturtíðinni nú. Annars var nú enginn nefndarmanna þessu máli verulega kunnugur. En þetta kom nú svona frá hv. Nd., þar sem frv. var til álita af kunnugum mönnum. Jeg geri helst ráð fyrir því, að þarna hafi verið um málamiðlun að ræða, enda er þetta sennilega lítil upphæð og aðeins til bráðabirgða.