24.04.1929
Efri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í C-deild Alþingistíðinda. (3008)

59. mál, ófriðun sels í Ölfusá

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það er ánægjulegt fyrir mig, að þetta frv. skuli vera komið svona langt nú, því á fyrsta þinginu, er jeg sat, flutti jeg frv., sem var mjög svipað þessu. Síðan hefir þetta mál af og til verið til umr. hjer í þinginu og virðist nú vera að því komið að fá endanlega afgreiðslu.

Jeg játa það, að hv. þm. Snæf. (HSteins) hefir mikið til síns máls, er hann segir, að rjettast væri að þeir, er laxveiðarjettinn hafa, bættu þeim, er skaða hljóta af því, að selur verður ófriðaður. En það stendur nú svo á þarna, að það eru ekki mjög margir, sem hljóta skaða af því, þó þetta frv. verði að lögum, og auk þess vita þeir, er kunnugir eru þar eystra, að vafasamt er að fult samkomulag náist um bætur fyrir selveiðimissi, meðan hann veiðist nokkuð að ráði.

Þar sem nú að ætlast er til þess, að þessar bætur til Arnarbælis falli niður, er prestaskifti verða þar næst, sje jeg ekki ástæðu til þess að hafa á móti því, að bótunum verði svo fyrirkomið, sem gert er ráð fyrir í frv. En svo væri það í raun og veru hugsunarrjett að gera ráð fyrir því, að eftir prestaskiftin, þá greiði laxveiðendur líka bætur til Arnarbælis. En ekki er gert ráð fyrir því.

Þó jeg nú þannig játi, að hv. þm. Snæf. hafi mikið til síns máls, þá þori jeg samt ekki annað en að vera á móti brtt. hans, því að jeg óttast að svo kynni að fara, ef þær yrðu samþ., að síður næðist samkomulag um þessar bætur. En jeg lít svo á, að þetta sje svo þarft mál, að það sje tilvinnandi þó ríkið verði að kosta nokkru til. Annars er jeg alveg sammála hv. þm. Snæf. um það, að selurinn á að víkja fyrir laxinum, og að það er hin mesta fásinna að ala bæði þessi dýr í sama vatnsfalli. Jeg held því að það hyggilegasta sje að samþ. frv. eins og það liggur nú fyrir.