24.04.1929
Efri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í C-deild Alþingistíðinda. (3010)

59. mál, ófriðun sels í Ölfusá

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg ætla aðeins að skýra nánar, hvað fyrir mjer vakti með aths. mínum. Því er svo háttað með Ölfusá, að það eru ýms missmíði á veiðiaðferðinni, eins og víðar við laxár. Til dæmis er búið að setja niður veiðivjel við ósana, sem er þannig gerð, að jeg geri ráð fyrir, að hún bráðum verði bönnuð. Ennfremur er þar mikið drepið af laxi ofan til í þveránum, þegar komið er fram á vetur, og er það vitaskuld til stórhnekkis fyrir laxgengdina í ána.

Þetta frv. er framtíðarmál. Það er enginn vafi á því, að það er hægt að fá miklu meiri lax í ána, ef því væri betur sint. Það á að ýta undir bændurna til að fara að rækta lax. Jeg held, að það yrði sannarlega til að styðja gott mál, að leggja ekki of þungar byrðar á þessa tiltölulega fáu menn, sem hafa laxveiðina.

Þó að það sje hugsunarrjett, að eftir næstu prestaskifti í Arnarbæli verði greiddar bætur þangað, er það of mikið rjettlæti. Landið hefir litið meira upp úr jörðunni með laxi en án hans.