30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í C-deild Alþingistíðinda. (3018)

59. mál, ófriðun sels í Ölfusá

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Landbn. þessarar hv. deildar hefir leyft sjer að bera fram brtt. við frv., eins og það kom frá hv. Ed. Brtt. ganga út á það, að færa frv. í sama horf og það var, þegar það fór hjeðan.

Hv. Ed. hafði felt burtu 3. gr. frv., sem laut að því, að landið greiddi prestinum bætur fyrir nytjamissi af selveiði, á meðan hans nyti við, en bætur væru svo látnar niður falla þegar prestaskifti

yrðu. Þessar tekjur munu metnar á 50 kr. í framtíðinni er því um þessar 50 kr. að ræða á ári, sem gera má ráð fyrir að landið þurfi að greiða prestinum árlega. Það má segja að vissu leyti, að ekki sje um mikla upphæð að ræða, en þar sem nú þeir menn, sem laxveiði stunda, eiga að greiða öllum þeim mönnum á öðrum jörðum fullar bætur, sem selveiði stunda, fyrir þann tekjumissi, sem þeir bíða, þá virðist ekki nema sanngjarnt, að landið taki að þessu leyti þátt í bótunum, þar sem um opinbera eign er að ræða.

Hjer er um nauðsynjamál að ræða að því leyti, að laxveiði hlýtur að aukast mjög í ánni við þessar umbætur. Víðsvegar upp um hjeraðið hafa menn reist klakhús, þar sem klakið er út lax- og silungshrognum. Í einu klakhúsi við Þverá, sem fellur í Ölfusá, hefir á undanförnum árum verið sum árin klakið út einni miljón seiða, sem slept hefir verið í ána. Þessari starfsemi verður gefið svo utan undir, ef selurinn verður látinn óáreittur áfram í ósum Ölfusár, að jeg býst við að hún verði látin niður falla. Hin síðari ár hafa á hverju ári haldist við undir tvö þúsund selir í ármynninu, og það sætir furðu, hve seint er ráðin bót á þessu, en vegsummerki má sjá, því að víðsvegar upp um þverárnar, þar sem laxgengdin var mjög mikil til skamms tíma, sjest varla branda nú, hjálpast þar sennilega að þau fullkomnari veiðitæki, sem þeir hafa nú, er neðar búa við ána, og selahjörð sú hin mikla í árósunum. Manni þætti því vel til fallið, að Alþingi brigðist vel við því, að útrýma selnum. Það þýðir ekki að halda því fram að þeir menn, sem stundi útrýmingu selsins, hafi tekjur af þessu, því að þeir ná varla selnum, hann verður skotinn í straumvatni og allir, sem til þekkja vita, að selurinn sekkur, þegar hann er skotinn í straumvatni. Það er ekki hægt að svifta þá menn, sem selveiðina hafa, þeim tekjum sínum, án þess að fullar bætur komi fyrir, en þær bætur verða þeir að greiða, sem laxveiðina stunda, samkvæmt mati virðingarmanna þar til hagur af laxveiði er orðinn til jafns við það, sem áður var af selveiðinni hjá þeim er selveiðinytjar hafa nú.

Nú hagar svo til við Arnarbæli, að það er erfitt að stunda laxveiði þar, vegna þess að þar eru grynningar upp við landið, svo að erfitt mun að koma laxalögnum þar fyrir, verða bætur því að standa lengur. En hepnist laxveiði fyrir landi þeirrar jarðar, þá verður það á sínum tíma til tekna fyrir prestinn. Það má því gera ráð fyrir, að einhverntíma síðar meir fái landið aftur þessar tekjur, svo að það þurfi ekki að fella niður þann 50 kr. tekjumissi, sem hjer er um að ræða.

Jeg ætla, að það hafi verið á mjög miklum misskilningi bygt hjá hv. Ed., þegar hún breytti þessu frv. eins og hún gerði. Ber jeg það traust til þessarar háttv. deildar, að hún nú leiðrjetti frv. og þar næst til háttv. Ed., að þegar hún þekkir málavexti, þá verði hún fús til að fallast á slíka leiðrjettingu.

Það, sem hermt var um flutning málsins á síðasta þingi, var rangt að því leyti, að það var ekki ætlast til að landið bætti að öllu leyti þeim, sem hefðu orðið fyrir tekjumissi við útrýming selsins. Það var ekki ætlast til þess á síðasta þingi, og alls ekki nú, nema fyrir þessa einu jörð, sem landið á.

Jeg hefi litið á þetta sem eina tegund þeirrar viðleitni, sem Alþingi á að sýna til að auka hlunnindi til lands og sjávar. Jeg teldi þess vegna mjög vel fara á því, að Alþingi sýndi þann skilning á þessu máli, að það leiðrjetti þann misskilning, sem varð hjá hv. Ed. — Og fullvíst er það, að ef við komum okkar laxveiðalöggjöf í það horf, sem ætti að vera, þá má margfalda þau hlunnindi, sem landið hefir af þeirri veiði haft nú um stund, og þetta er einn þátturinn, sem hið háa Alþingi á að stuðla að.