20.03.1929
Neðri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í C-deild Alþingistíðinda. (3030)

63. mál, hlutafélög

Ólafur Thors:

Jeg lít ekki á þetta mál sem neitt stórmál. Jeg viðurkenni, að það sje rjett að krefjast þess, að reikningar hlutafjelaga sjeu aðgengilegir þeim, sem um þá þurfa að vita, en jeg álít, að það sje trygt með gildandi lögum, að þeir, sem fyrst og fremst þurfa að vita um hag og afkomu þessara fyrirtækja, eigi tryggan aðgang að reikningunum. Auk þess liggur hjer fyrir þinginu frv. til 1., sem tryggir mönnum nokkra þekkingu á hag hlutafjelaga, þ. e. a. s. frv. til 1. um vinnudóm, ef samþykt verður. Bankar og lánardrotnar geta auðvitað trygt sjer alla nauðsynlega vitneskju, og einstakir viðskiftamenn fjelaganna hafa líka aðstöðu til þess. Þeir geta, ef þeim sýnist, heimtað þessa reikninga af fjelögunum, að minsta kosti ef fjelögin eiga eitthvað undir högg að sækja.

Hjer er farið fram á það, að almenningur eigi aðgang að reikningum þessara fyrirtækja. Jeg sje ástæðu til að beita mjer á móti því, enda vita það allir, að það er hverjum manni hvimleitt að láta alla vita um efnahag sinn, og því ekki rjett að setja slík lagafyrirmæli, ef það er ekki nauðsynlegt. Það vita allir að það, sem mest gerir það að verkum, að menn eru andvígir tekju- og eignaskatti, er sú kvöð, sem þeim skatti fylgir, að gefa upp fjárhagslega afkomu sína. Það er öllum sameiginleg tillhneiging, ef mönnum gengur illa, að láta ekki mikið á því bera, og eins er það, ef vel gengur, og jeg hygg að það sje alveg eins með hv. aðalflm. þessa frv. (HV). En frv. er ein viðleitni jafnaðarmanna til þess að gera einstaklinginn sem allra leiðastan á að sinna sínum atvinnurekstri. Þeir fara margar leiðir, fyrst og fremst með beinu sköttunum, og svo með ýmsum síður beittum vopnum, eins og t. d. þeim, sem felast í þessu frv.

Jeg vil auk þess leyfa mjer að benda á það, að það getur vel skaðað hlutafjelög, að hver og einn geti hnýst í þeirra reikninga, mönnum þarf ekki að vera það meinalaust að keppinautar þeirra geti gengið að reikningunum og skoðað þá, það geta falist mörg einkamál í þeim.

Að lokum vil jeg benda á það, að ef svo á að vera um hlutafjelög, þá sje jeg ekki annað en að sömu kröfu megi gera til hvers einstaklings, sem atvinnu rekur. Það má lengi deila um það, að hve miklu leyti fjárhagur slíks einstaklings á að vera opinber, og jeg sje ekki, að það sje ljett að setja takmörkin, ef menn vilja fara inn á þá braut, sem hv. þm. (HV) leggur til. — Jeg verð því að segja það, að þótt jeg líti ekki á þetta frv. eins og neitt stórmál, þá álít jeg það óþarfa málaleitun, flestum heldur hvimleitt og engum til gagns, og mun jeg því greiða atkvæði á móti því.