20.03.1929
Neðri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í C-deild Alþingistíðinda. (3032)

63. mál, hlutafélög

Ólafur Thors:

Hv. þm. Ísaf. (HG) vildi gera einhvern reginmun á hlutafjelögum annars vegar og einstaklingum hins vegar, vegna þess að einstaklingar stæðu í ábyrgð fyrir rekstri sínum með aleigu sinni, en hlutafjelögin aðeins með hlutafje einu saman. Jeg vil nú spyrja hv. þm. (HG) að því, hvernig hann ætlar viðskiftamönnum einstaklings að vita, hver þessi aleiga hans er, því vitaskuld veltur mikið á því fyrir viðskiftamanninn. Sje maðurinn eignalaus, er ábyrgð hans einskisvirði. En með hlutafjelög er það öllum vitanlegt, hvert stofnfje þau hafa, og þótt hlutafjelög geti tapað sínu stofnfje, þá má samt fá nokkurt yfirlit yfir gjaldgetu þeirra, hlutafje og afkomu, af skattskýrslum. Það er því engin ástæða til að hlutafjelög geri opinber reikningsskil sín, en einstaklingar ekki. En eins og jeg hefi leitt athygli hv. þdm. að, þá er svo um búið í lögum, að lánardrottinn og þeir viðskiftamenn, sem eitthvað eiga undir fjelögunum, geta fengið að sjá reikningana, og hver og einn viðskiftamaður, sem setur það að skilyrði fyrir viðskiftum sínum við fjelagið, getur vitanlega fengið að ganga úr skugga um hag þess.

Jeg játa það, að almenning skiftir þetta mál nokkru, en aðeins að vissu marki, þ. e. a. s. um getuna til kaupgjalds. En það er rangt hjá hv. þm. (HG), að þessi hlið málsins verði með engu móti trygð með þeim ákvæðum, sem í vinnudómsfrv. eru. Þau lög mæla svo fyrir, að kaupgjaldið skuli ákveðið af óvilhöllum dómstóli, sem ekki aðeins á að hafa vald, heldur skyldu til að kynna sjer hag fjelaganna. Það er líka rangt, þegar hv. þm. heldur því fram, að almenningur fái enga vitneskju um hag fjelaganna. Vitneskjan felst í dómsúrskurðinum.

Þá bar hv. þm. (HG) kvíðboga fyrir því, að hjer muni spretta upp, eða hafi þegar sprottið upp, málamynda fyrirtæki, til þess eins gerð að hafa fje af fávísum mönnum. Ef þetta ætti að vera ástæðan fyrir þeim lagafyrirmælum, sem hjer er verið að setja, þá væri miklu nær á annan hátt að tryggja, að slíkt geti ekki komið fyrir.

Annars mun það rjett athugað hjá hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), að almenning varðar lítið um afkomu slíkra fjelaga, eins og líka hitt, að allur almenningur mun lítið athuga reikningana, þó að þeir liggi frammi á skrifstofu lögreglustjóra einhvern ákveðinn tíma. Alþýðu manna, svona yfir höfuð, verður eflaust ekki tíðförult á lögreglustjóraskrifstofurnar í þeim tilgangi.

Þá var hv. þm. Ísaf. (HG) að skopast að tilhneigingu hluthafanna um að leyna alþjóð manna afkomu slíkra fjelaga.

Það rifjast nú upp fyrir mjer, að þegar við buðum okkur fram saman í G.-K., hv. þm. Ísaf. (HG) og jeg, að það var á fundi í Hafnarfirði, er við deildum um beinu skattana, að jeg hjelt fram sömu skoðun þá eins og nú; þá upplýstist, að menn fengjust ekki til þess að gefa upp eignir sínar, og voru á fundinum borin fram mörg dæmi þess, að menn, sem stæðu framarlega í Alþýðuflokknum, sýndu mjög mikla tregðu í því að gefa upp tekjur sínar.

Hitt er vitanlegt, að það getur skaðað viðskiftamenn slíkra fjelaga, ef eignir fjelaganna rýrna án þess þeir viti um það. En flestir þeirra hafa þá aðstöðu, að þeir geta auðveldlega kynt sjer afkomu fjelaganna, svo að út frá því sjeð, virðist það með öllu óþarft að setja sjerstaklega löggjöf um þetta efni. Enda er það svo, að hjer í landi fer það sjaldnast leynt, hvort gengið hefir vel eða illa fyrir einhverju fyrirtæki.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að þessi ósk um reikningana á borðið væri eingöngu fyrir þá menn gerð, sem snúa vildu út úr reikningunum og nota þá til árásar á sjerstök fyrirtæki. Þessu neitaði hv. þm. Ísaf., og taldi það rökvillu, því að leggja reikningana fram, væri einmitt trygging fyrir því, að ekki yrði út úr þeim snúið. En þó að hann segi þetta, veit jeg og fleiri, sem þekkja hann, að hann meinar það alls ekki. Ef hann t. d. í blaði sínu byrjar árásir á eitthvert fyrirtæki, sem hann vill koma á knje, þá notar hann vafalaust reikningana eða tölur þeirra á þá leið, er hann telur heppilegasta til að gefa árás sinni frekari stuðning. Hann veit ofur vel, að ekki þarf að gera ráð fyrir að allur þorri lesenda blaðsins fari að ómaka sig niður á skrifstofu lögreglustjóra til þess að sannfæra sig um, að rjett og satt sje frá skýrt í blaðinu. Nei, allur almenningur lætur sjer nægja það, sem hv. þm. með ritstjóra myndugleik sínum segir í blaðinu. Honum verður trúað, hann hefir sjeð reikninga fjelagsins, og þá þarf ekki framar vitnanna við.

Hv. þm. þarf ekki að reiðast mjer fyrir það, að jeg, sem þekki skrif hans í Alþýðublaðinu, fullyrti, að hann mundi ekki verða litlaus í frásögninni, ef hann vildi það við hafa og þættist þurfa á einhvern hátt að ná sjer niðri á fyrirtækinu. Hann er maður, sem er þektur að því í blaðaskrifum sínum, að svífast einskis um að rangfæra málstað andstæðinga sinna, þegar honum býður svo við að horfa.

Þess er skamt að minnast, að jeg hefi nýlega átt orðastað við þennan hv. þm. í blöðunum út af reikningum sjer staks fjelags, sem hann hafði ráðist á í blaði sínu með þeirri venjulegu prúðmensku, sem honum er lagin í rithætti. Og þeim mun meiri vitneskju, sem jeg gaf honum og leiðrjetti rangfærslur hans, því meiri blekkingum beitti hann í útúrsnúningum sínum. Jeg segi þetta hvorki af reiði nje illgirni í garð hv. þm., heldur er þetta óyggjandi sannleikur um hans innræti og það hátterni, sem hann temur sjer í skrifum sínum í blaðsnepli þeim, sem hann stýrir.