20.03.1929
Neðri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í C-deild Alþingistíðinda. (3033)

63. mál, hlutafélög

Haraldur Guðmundsson:

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) vjek nokkrum orðum til mín í lok ræðu sinnar, og þó að það liggi utan við það mál, sem hjer er til umr., þá kemst jeg ekki hjá því að svara honum fáeinum orðum.

Hann staðhæfði, að því meiri vitneskju, sem jeg fengi, því betur notaði jeg hana til þess að blekkja og snúa út úr. Jeg ætla ekki hjer að fara að rifja upp það, sem við skrifuðumst á í blöðunum í vetur. Hv. þdm. sumum mun það í fersku minni. En jeg ætla aðeins að benda hv. 2. þm. G.-K. á það, að ef frammi hefðu legið endurskoðaðir reikningar skipsins fyrir umliðið ár, þá var ekki hægt að rangfæra tölurnar nje að snúa út úr þeim. En hitt er auðsætt öllum, er til þekkja, að þær tölur, sem hv. þm. bjó til og taldi óyggjandi, þær voru hrein og bein blekking frá upphafi til enda. Þetta veit þm. sjálfur og því óþarft að vera að rifja það upp hjer á þingbekkjunum.

Hv. þm. ætti að vera það ljóst, að það eitt er almenningi trygging fyrir því, að nokkurn veginn rjett sje frá skýrt, að endurskoðaðir og samþyktir reikningar liggi frammi. En hitt er engin trygging um rjetta frásögn, þó að hv. 2. þm. G.-K. skrifi í blað, að t. d. Kveldúlfur tapi svona og svona miklu á þessu skipi, þegar líka sannast, að þessar „óyggjandi tölur“ þm. eru ekkert annað en tómur tilbúningur og ágiskanir, eins og það, sem hann kallaði aflaskýrslur. Allur almenningur hlær að slíkum staðhæfingum og ekki síst þegar tölur þær, sem þm. slær fram, stangast innbyrðis eins og verstu íhaldshrútar.

Þá hjelt hv. þm. því fram, að ef reikningarnir lægju frammi, þá gæti eitthvert blað, með myndugleik ritstjórans, eins og hann orðaði það, notað sjer tölurnar, rangfært þær, og lesendur blaðsins mundu ekki fara til lögreglustjóra til að ganga úr skugga um, að rjett væri frá skýrt, heldur taka blaðið trúanlegt.

Hv. þm. virðist hafa næsta náin kynni af einhverjum ritstjórum, sem hann þekkir að því, að falsa tölur og rangfæra. En ritstjóri Alþýðublaðsins er ekki svo heimskur, að honum dytti nokkru sinni í hug að falsa tölur úr slíkum reikningum, þar sem auðvelt væri að fá hinar rjettu tölur staðfestar hjá lögreglustjóra. Hinsvegar er og mun ritstjóri Alþýðublaðsins alls ófeiminn við að vefengja tölur þær, sem hv. 2. þm. G.-K. kann að bera fram órökstuddar og langoftast eru ekki annað en rakalausar fullyrðingar.

Þá sagði þessi sami hv. þm., að ef fyrirtæki gengi illa eitthvert skeið, þá væri engin leynd yfir því, heldur fengi almenningur vitneskju þar um. Þetta er ekki rjett hjá hv. þm. Margir hafa tapað fje á því að halda efnahag fjelags betri en hann var. — En einmitt svona ætti það að vera, og því þá ekki að láta alla vita hið sanna og rjetta um afkomu fyrirtækisins og taka af öll tvímæli þar um, með því að láta reikningana liggja frammi?

Það kann líka að vera rjett, að sumir viðskiftamenn slíkra fyrirtækja gangi eftir upplýsingum um afkomu fjelaganna, en þó er það ekki algengara en svo, að allur fjöldinn viðskiftamannanna, þ. e. a. s. verkalýðurinn, fær enga vitneskju um hinn raunverulega hag slíkra fjelaga. Margur verkamaður og sjómaður hefir orðið af kaupinu sínu af þeim sökum.

Það er þarfleysa að hefja að nýju umr. um vinnudómsfrv. Það hefir hvílst um hríð hjá hv. allshn., og vonandi er, að ró þess verði ekki raskað það sem eftir er þingsins, Að vísu játar hv. 2. þm. G.-K., að þó að vinnudómsfrv. verði að lögum, þá fáist aldrei í gegnum þau neinar upplýsingar um fjárhagslega afkomu fyrirtækjanna. Og þetta er vitanlega hverju orði sannara. Þessvegna þótti mjer dálítið undarlegt, er hann svo að segja í sömu andrá kastar fram þeirri staðhæfingu, að almenningur fái vitneskju um hag fyrirtækjanna í þeim úrskurði, er dómurinn fellir um, hvað kaupgjaldið skuli vera — og um annað varðar almenning alls ekki neitt — bætir þm. við. — Hv. þm. var ekki eins myrkur í máli nú og á dögunum, þegar frv. um vinnudóm var til umr. Þá skortu ekki blíðmælin, er hann var að reyna að færa rök fyrir því, að með frv. yrðu reikningarnir lagðir á borðið og að almenningur fengi alt að vita um rekstur og hag togarafjelaganna. Enn hefir hv. þm. tekist að sanna, hversu heill hann er í garð alls almennings, að alt sem hann hugsar og talar snýst um sjálfan hann og hans eigin hagsmuni. En úrskurður vinnudóms um kaupgjald gæti vitaskuld ekkert sagt um hag fjelaganna. Vitanlega eru ísl. togarafjelögin mismunandi vel stæð, en jeg geri ekki ráð fyrir, þótt vinnudómshugmyndin sje vitlaus, að hún sje svo snarvitlaus í huga þingmannsins, að hann ætlist til, að sjómenn og verkamenn sjeu dæmdir til að vinna fyrir lægra kaup hjá fátæku fjelögunum en þeim ríku, og fyrir ekkert hjá þeim, sem eru á hausnum. Nei, vitaskuld yrði kaupið ákveðið jafnt fyrir alla sjómenn á togurum. Og hvernig er þá hægt að fá vitneskju gegn um þann úrskurð um hag hvers fjelags?

Þá fór hv. þm. að rifja upp gamlar endurminningar frá framboðsfundum okkar í Hafnarfirði. Hann sagði, að þar hefði verið upplýst, að einhverjir „alþýðuleiðtogar“ þar, sem hann svo nefndi, hefðu verið tregir á að telja fram eignir sínar til skatts. Það má vel vera, að slíkar upplýsingar hafi komið fram á fundinum, þó að jeg muni ekki eftir því. Jeg veit ekkert um þetta nje við hvað hann á. En það þarf ekki suður í Hafnarfjörð til þess að fá vitneskju um skattsvik. Það er áreiðanlega meira en nóg til af slíku hjer í Reykjavík, fyrst og fremst meðal flokksbræðra hv. þm. (ÓTh). Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að uppvíst hefir orðið um stórkostlega misbresti á framtölum manna. Enn þann dag í dag má nefna ekki svo fá dæmi þess, að menn hafa þrjóskast við eða látið undir höfuð leggjast að telja fram eignir sínar og tekjur. En þetta smá lagast og færist í rjetta átt. Hjer í Reykjavík veit jeg, að gengið er röggsamlega eftir því nú, að framtölin sjeu rjett og þau sannprófuð eftir því, sem föng eru á.

Eitt vil jeg taka fram í þessu sambandi. Jeg veit, að út um land tíðkast það, að leggja fram sundurliðaðar skattskrár, þar sem ekki einasta er tilfærð skuldarupphæðin heldur líka upphæð skattskyldra eigna og tekna. Hjer í Reykjavík hefir skoðanabræðrum hv. 2. þm. G.-K. lánast til þessa að hindra að þetta yrði gert hjer. Skattskráin hjer sýnir aðeins skattupphæðina í einu lagi, þ. e. samanlagðan tekju- og eignaskattinn. Þetta er alveg ótækt. Sjálfsagt er, að sama gildi hjer og annarsstaðar.

Vona jeg að hæstv. stjórn sjái um, að þetta verði lagfært tafarlaust.

Eins og áður segir, get jeg ekki sjeð að breytingar þær, er frv. þetta fer fram á, geti á nokkurn hátt gert hlutafjelögunum hið minsta ógagn, en fyrir allan almenning, alla viðskiftamenn fjelaganna, er þetta aukin trygging. Jafnframt er þá útilokað, að hægt sje að setja upp hrein braskfjelög til fjárpretta, og útilokað að hægt sje að gera efnahag fjelaga tortryggilegan að ástæðulausu. Breytingarnar eru því til bóta bæði fyrir fjelögin, sem eiga að lifa, og almenning.