20.03.1929
Neðri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í C-deild Alþingistíðinda. (3034)

63. mál, hlutafélög

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg er hissa á þeirri miklu andstöðu, sem þetta litla frv. mætir, eins og breytingarnar virðast þó vera sjálfsagðar, sem farið er fram á, að gerðar sjeu á hlutafjelagalögunum. Á síðasta þingi bar jeg fram frv. í þessu efni, sem fann þó ekki náð fyrir augum hv. þdm., enda fór það dálítið lengra; vildi jeg því ekki taka það óbreytt upp aftur, með því líka að ætla mætti, að þetta frv. hefði fremur fylgi meðal hv. þdm.

Annars skil jeg ekki hræðslu hv. andstæðinga frv. við það, að öllum almenningi verði fyllilega ljós afkoma fyrirtækja þeirra, er fjelögin reka, og jeg get ekki heldur sjeð, að rjett sje, ef eitthvað er, sem þeir þykjast þurfa að fela í rekstri atvinnufyrirtækjanna, að því sje haldið leyndu fyrir allri alþýðu manna, þó þeir jafnhliða haldi því fram, að hagur hlutafjelaganna sje öllum lýðum ljós, sem er algerlega rangt. Það hefir því skinið í gegnum ræður andstæðinga frv. sú skoðun, að í raun og veru varðaði almenning ekkert um fjárhagslega afkomu þeirra atvinnufyrirtækja, sem rekin eru með hlutafjelagssniði, og því síður einstakra manna fyrirtæki. Þetta er skiljanlegt frá sjónarmiði hluthafanna sjálfra og þeirra einstaklinga, sem fyrirtækin reka eða hafa með höndum. Þeir líta svo á, að engan varði um öll skakkaföllin, er þeir gera, engan varði um þann gróða, sem þeim kann að hlotnast, þótt alt sje rekið fyrir lánsfje frá þjóðfjelaginu og óhepnin lendi á því, þegar illa gengur. En frá mínu brjósti horfir málið öðruvísi við. Jeg lít svo á, að allur sá mikli fjöldi verkalýðs, sem á afkomu sína undir atvinnurekstri hlutafjelaganna, eigi heimtingu á að vita um, hvernig hag fyrirtækjanna er varið. Svo er það ekki alveg þýðingarlaust fyrir þann aðiljann, sem lánar fjeð til fyrirtækjanna, hvernig með það er farið. Það er ekki hægt að treysta því skilyrðislaust, sem fjelögin gefa út um hag sinn, þar eð engri gagnrýni er hægt að koma við frá þeim, sem utan við standa. Verkamönnum og öðrum þeim, sem vinna hjá sumum þessum hlutafjelögum, sem tíðast eru stórútgerðarfjelögin, er atvinnurekstur hafa með höndum, er sagt aðeins undan og ofan af um fjárhagslega afkomu þeirra, og oftast nær látið í veðri vaka, að hagur fjelaganna sje svo slæmur, að þau geti ekki greitt hærra kaup en stjórnendum fjelaganna þóknast að bjóða á hverjum tíma, án tillits til brýnustu þarfa verkamanna. Það má vel vera, að hagur ýmsra þessara fjelaga sje ekki altaf jafn glæsilegur og margir álíta. En allur vafi í því efni mundi hverfa, þegar hver og einn gæti sannfærst um það af sjálfum reikningum atvinnufyrirtækjanna á hvaða tíma sem er. Báðum aðiljum ætti að koma vel slík opinber birting reikninganna. Tortrygni í garð hlutafjelaganna mundi minka frá öllum almenningi, sem utan við þau stendur. Hluthafarnir mundu öruggari með fje sitt, og þau fyrirtæki, er sæmilega eru rekin, mundu afla sjer almenns trausts. Það mundi einnig hafa þau áhrif, að fjöldi manna legði fje sitt í fyrirtæki frekar en nú er. Eins og nú er ástatt, þá munu þess mörg dæmi, að hluthafarnir fylgjast ekki með hag og rekstri allmargra atvinnufyrirtækja. Þá fyrst er knýja þarf á buddu þeirra, eru þeir vaktir til vitundar um fjelag það, er þeir eru hluthafar í.

Í þessu sambandi vil jeg benda á það, að mjer hafa sagt bankafróðir menn, sem gerst mega vita um slíka hluti, að í löndunum í kringum okkur væri þeirri reglu fylgt undantekningarlaust, að hlutafjelög birtu reikninga sína opinberlega. Og sumstaðar er svo langt gengið, að blaðamönnum hinna ýmsu stjórnmálaflokka landanna er heimilað að sitja á fundum hlutafjelaga, til þess að geta enn þá betur aflað sjer vitneskju um hag þeirra, er blöðin flytja svo aftur öllum almenningi. Í þessum löndum þykir þetta ekki nema sjálfsagt, svo að auðveldara sje fyrir almenning að fylgjast með rekstri og hag fjelaganna. Sömu reglu mun fylgt í Stóra-Bretlandi um fiskveiðafjelög að minsta kosti, og þar er ekki látið nægja að reikningarnir liggi fyrir í árslok, heldur er þar sú venja, að birta reikningana í lok hvers ársfjórðungs. Á þennan hátt hefir verkalýðurinn og allir aðrir, sem vilja fylgjast með atvinnurekstrinum og afkomu hans á hvaða tíma sem er, eitthvað ábyggilegt til þess að byggja á kröfur sínar og aðrar ályktanir, sem oft og einatt standa í sambandi við, hvernig hag fyrirtækjanna er varið, að minsta kosti hefir það verið svo á voru landi í sambandi við allar kaupdeilur, að því hefir verið óspart hampað, að hagur fjelaganna þyldi ekki það kaupgjald, sem krafist væri. Enda hygg jeg að hjer mundi koma í ljós, ef allur almenningur vissi með sannindum um rekstur og hag stórútgerðarinnar, þá mundi ljettara að jafna ágreining þann er nú á sjer stað í kaupdeilumálunum, og um leið fundin opnari leið til þess að benda á, hvernig kaupgreiðslufyrirkomulagið skuli vera, sem tvímælalaust er hægt að hafa á annan veg en nú er, svo báðir mættu vel við una.

Hv. 3. þm. Reykv. var eitthvað að minnast á hlutafjelag, sem jeg væri við riðinn. Jeg skal nú upplýsa hann um það, að jeg stend ekki að neinu hlutafjelagi og svo mun einnig vera um flokksbróður minn hv. þm. Ísaf. (HG). Sami hv. þm. var að vitna í hlutafjelag hjer í bæ, sem sje Alþýðubrauðgerðina, og vil jeg þá leiðrjetta þau ummæli hans. Alþýðubrauðgerðin er ekki hlutafjelag heldur sameignarfjelag, á sama hátt og stofnanir ríkisins, landsbanki, sími, póstur, verslanir, skipaútgerð o. s. frv. eru eign þjóðarinnar. Á sama hátt er Alþýðubrauðgerðin eign verkalýðsfjelaganna hjer í bænum. Hver einstakur meðlimur þeirra á sinn litla skerf í því fyrirtæki. Þar með er jeg ekki að segja, að jeg sje á móti því, að slík samvinnufjelög birti reikninga sína, enda er það nú svo um Alþýðubrauðgerðina, að reikningar hennar eru ekkert pukursverk. Þeir eru til gagnrýningar og úrskurðar hjá öllum fjelagsskapnum og kjörnum fulltrúum, eins og reikningar ríkisfyrirtækjanna eru gagnrýndir og samþ. af Alþingi. Jeg vildi með þessum orðum aðeins leiðrjetta þessi vitlausu ummæli hv. 3. þm. Reykv., sem vitanlega hafa verið sögð gegn betri vitund. Því að honum er vel kunnugt um, hverskonar skipulag er á umræddu fyrirtæki.

Hv. 2. þm. G.-K. sagði ennþá einu sinni, að engin leynd hvíldi yfir reikningum stórútgerðarinnar. Við höfum oftar þráttað um þetta, enda veit hv. þm., að svona staðhæfingar eru ekkert annað en blekkingar, því þó að skattstofan fái eitthvað að vita um það, hvernig fjelögin standa sig, þá er það hulinn leyndardómur öllum almenningi. Samskonar blekking var og sú staðhæfing hans, að allar upplýsingar lægju frammi, ef frv. um vinnudóm yrði að lögum. Þetta var nú marghrakið á dögunum og rekið jafnóðum ofan í meðmælendur frv. þá, því eins og frv. er orðað, þá eru það aðeins dómendurnir, sem geta fengið þetta að vita, en þó jafnhliða tekið fram, að þeir sjeu bundnir þagnarskyldu um alt það, er fram kemur, og einstök fjelög varðar. Hjer ber því að sama brunni, að allur almenningur fær ekkert að vita um rekstur og hag þessara atvinnufyrirtækja.

Ef þessi regla kæmist á, að almenningur hefði greiðan aðgang að reikningum fjelaganna, þá mundi jafnframt skapast heilbrigð gagnrýni á starfsemi þeirra. Og jeg verð að líta svo á, að hlutafjelög, sem hafa að láni sparifje landsmanna, megi gjarnan vera undir gagnrýni almennings, ekki síður en þau fyrirtæki, sem rekin eru af hinu opinbera. En um heilbrigða gagnrýni á rekstri hlutafjelaga getur ekki verið að ræða fyr en reikningarnir eru lagðir á borðið og birtir fyrir alþjóð. Og að því miðar þetta litla frv., sem mjer mundi þykja mjög undarlegt, ef ekki næði samþ. hv. deildar. Með því er ekki farið fram á annað nje meira en það, sem segja mætti um, að öll heilbrigð hugsun og rjettlætismeðvitund mæli með.

Að lokum vildi jeg segja hv. 2. þm. G.-K. það, að jeg varð satt að segja meira en hissa, þegar hann fór að vitna í útreikning, sem hann hafði í vetur gefið um rekstur eins af skipum sínum. Hafi hv. þm. nokkurn tíma mistekist í rökfærslunum, þá var það að minsta kosti þá, enda fór hann svo illa út úr þessari ritdeilu sinni, að það mun lengi í minnum haft. Blekkingarnar lágu svo í augum uppi, að fáum eða engum kom til hugar að festa hinn minsta trúnað á skrifum hans. Það eru ekki þvílíkir útreikningar, tilbúningur einn, sem frv. það, er hjer um ræðir, fer fram á að birtir verði, heldur reikningar, sem styðjast við veruleikann.