20.03.1929
Neðri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í C-deild Alþingistíðinda. (3036)

63. mál, hlutafélög

Jón A. Jónsson:

Mjer virðist kenna nokkurs misskilnings hjá hv. flm. Þeir segja, að erlendis sje öllum almenningi heimill aðgangur að reikningum hlutafjelaganna. Þetta er ekki nema að nokkru leyti rjett. Erlendis, þar sem kauphallir eru, er það venja, að þau hlutafjelög, sem þurfa að auka hlutafje sitt eða þvílíkt, láta skrá hlutabrjefin á kauphöllinni. Það er líka oft, að hlutabrjef ganga manna á milli, og er því nauðsyn að fá þau skráð. En slík fjelög eru þó tiltölulega mjög fá. Í Danmörku eru t. d. ekki nema um 60 fjelög, sem hafa hlutabrjefin skráð á kauphöllinni, af öllum þeim þúsundum hlutafjelaga, sem eru til í landinu. Eðlismunurinn er sá, að þessi fjelög, sem eru flest mjög stór, þurfa á fje að halda frá almenningi; þau þurfa að auka hlutafje sitt, til þess að geta fært út kvíarnar. Mörg stærstu fjelögin í Danmörku, svo sem Austur-Asíu-fjelagið og Sameinaða gufuskipafjelagið, hafa á þennan hátt margfaldað hlutafje sitt. Þessi opinberu reikningsskil, sem hv. þm. hafa talað um, ná aðeins til slíkra fjelaga, sem þannig stendur á fyrir, en alls ekki til hlutafjelaga alment. Hvað okkur snertir, þá höfum við enga kauphöll, enda veit jeg ekki af neinu fjelagi hjer á landi, sem þarf að láta skrá hlutabrjef sín, nema Eimskipafjelagið, og það er einmitt eitt slíkt fjelag, sem þarf á almennri þátttöku að halda vegna starfsemi sinnar.