19.03.1929
Neðri deild: 26. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í C-deild Alþingistíðinda. (3043)

65. mál, myntlög

Sigurður Eggers:

Jeg vil í fáum orðum leyfa mjer að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa merkilega máls. Mjer skilst það svo, að hv. þm. V.-Ísf. sje eini maðurinn, sem framkvæmt hefir verulega rannsókn í þessu máli. Höfuðástæða hans gegn því, að við megum hækka krónuna er sú, að hann telur það svo mikið ranglæti. En jeg fyrir mitt leyti er hræddur um, að ef við ætlum að taka afleiðingunum af þeirri kenningu, þá yrðu þær dálítið einkennilegar. Jeg tel hjer um hreina stýfingu að ræða, þar sem ætlast er til, að minna gull verði í hinni nýju krónu en var í hinni gömlu. (ÁÁ: Það er jafnmikið gull í henni og þeirri, sem nú gildir). Og verði nú horfið að því ráði, að samþykkja þessa nýju krónu, og gera seðlana innleysanlega, þá getur farið svo, að eftir nokkurn tíma verði seðlarnir gerðir óinnleysanlegir aftur, en þá fellur pappírskrónan og getur vel farið svo, að hún fari þá aftur niður í 47 aura. Á þá samkvæmt kenningu háttv. þm. V.-Ísf., að festa hana þar sem hún stoppar, af því að alt annað væri ranglæti. Annars hljóta allir að sjá, að ef það er ranglæti að hækka krónuna úr 81½ sem hún er nú í, upp í gullgengi, þá hefir það ekki síður verið ranglæti að hækka hana úr þeim 47 gullaurum, sem hún stóð í þegar hún komst lægst, upp í það gildi, sem hún hefir nú. En hver ætli óski þess, að hún stæði enn í 47 aurum. Jeg býst við að það sjeu fáir.

Þá vitnaði háttv. þm. til þess, sem erlendir sjerfræðingar hefðu látið til sín heyra um þessi mál, og taldi álit þeirra mjög miklu skifta. En ef maður les grandgæfilega álit þeirra, einkum þó brjef bankastjóra Ryggs, þá finst mjer að fá megi út úr því, að hann sje ekki mjög meðmæltur því, að við stýfum gjaldeyri okkar. Enda væri annað mjög óeðlilegt, því að hann barðist manna mest fyrir því, að hækka norsku krónuna. Í svari sínu við spurningum þeim, sem lagðar voru fyrir hann af flm. frv. þessa, gengur hann út frá því, að þegar hafi verið ákveðið að krónan skuli stýfð, og byggist svar hans því mikið á því. Í svarinu við fyrri spurningunni, þar sem hann er spurður að því, hvort hann telji ráðlegt að verðfesta krónuna í 80–82% af gamla gullgildinu, segir hann meðal annars: „Sje það nú talið ókleift að ná aftur gamla gullgildinu og heil þrjú ár eru liðin með föstu gengi, þá sje rjett o. s. frv.“ Og þegar hann er spurður að því, hvort hann telji, að það muni valda álitsspjöllum fyrir landið að festa krónuna í því gildi, sem hún hefir nú, segir hann: „.... Þá á jeg bágt með að trúa því, að þetta valdi nokkrum álitsspjöllum til lengdar.“

Þá er einn sjerfræðingurinn, sem hv. þm. vitnar til, próf. Cassel. Hann er eins og kunnugt er mjög merkur fjármálafræðingur, sem rjeð sinni eigin þjóð til þess að stýfa gjaldeyri sinn, og sömuleiðis Norðmönnum og Dönum, en engin þessara þjóða gerði það samt. Sjerfræðingarnir eru því að ráða okkur til að gera það, sem þeirra eigin þjóðir vildu ekki gera. Jeg vil því spyrja: Af hverju halda menn, að þessar norrænu þjóðir hafi lagt út í það, að koma gjaldeyri sínum í sitt fyrra gildi með öllum þeim erfiðleikum, sem því fylgdi? Svarið er auðsætt. Það var einungis sökum þess, að þær litu svo á, að það mundi rýra álit þeirra hjá heiminum, ef þær legðu ekki þá erfiðleika á sig. — Sannleikurinn er því sá, að sje gripið til þess úrræðis að stýfa gjaldeyrinn þegar örðugleikarnir blása á móti, er það aðeins til þess að skapa óstöðvun í fjármálaheiminum, því þegar galdeyririnn hefir ekkert fast að miðast við, er eitt í dag og annað á morgun, skapast raunverulegur óstöðugleiki í öllum viðskiftum. Ef við t. d. lítum á hækkun íslensku krónunnar úr 47 gullaurum upp í það, sem hún er nú, vita allir, að sú hækkun var miklum örðugleikum bundin, og það meiri örðugleikum en beinlínis hefði verið þörf á, af því að margir eru nú sammála um það, að hún hefði ekki þurft að vera eins ör og hún var. En hin öra hækkun varð aðallega til þess að skapa örðugleikana, því að hinu sama marki mátti ná, þó að hún hefði farið hægara. En þrátt fyrir alla þá örðugleika, sem hækkunin kostaði okkur, býst jeg ekki við, að þeir sjeu margir í þessu landi, sem sjá eftir að hafa lagt þá erfiðleika á sig eða óski þess, að krónan stæði lægra en hún stendur nú. Og þannig mun einnig fara, þó að við höldum áfram á hækkunarleiðinni þangað til við náum hinu gamla gullgildi. Við mundum, þegar því marki væri náð, verða glaðir yfir sigrinum.

Jeg var einn þeirra manna, sem vildi fara hægt í hækkuninni, því að mjer voru og eru enn fullkomlega ljósir þeir örðugleikar, sem fylgja hinni öru hækkun fyrir atvinnuvegina. Jeg sje ekki betur en að einmitt vegna þess, að atvinnuvegirnir fengu tíma til að hvíla sig og safna kröftum, ættum við að vera færari um að halda áfram að koma krónunni upp í gullgengi. Jeg get hinsvegar fallist á það, að ef til vill væri rjettara að geyma hækkunarmöguleikana nokkuð enn. Síðastl. ár námu útfluttar vörur 70 milj . kr., en innfluttar ekki nema 50 milj. Ef mörg ár slík koma, skil jeg ekki i, að nokkrum lifandi manni detti í hug, að þjóðinni sje ofvaxið að ná gullmarkinu. Mjer finst hið ágæta ár, sem leið, og framtíðarhorfurnar ekki benda til þess, að þjóðin sje að gefast upp. Jeg skal auðvitað ekki neita því, að slík hækkun hljóti að þyngja skuldabyrðirnar nokkuð. En krónan hefir áður hækkað úr 47 aurum upp í 81½ eyri, og þá þyngdust skuldabyrðirnar auðvitað ekki síður. En menn verða líka að muna, að um leið og krónan hækkar, er ýtt undir hina sparandi krafta í þjóðfjelaginu, en það eru þeir, sem leggja atvinnuvegunum fjeð til framkvæmda

Hv. flm. (ÁÁ) sagði, að það væri sama og að gera byltingu að halda lengra áfram á hækkunarbrautinni. Hvað segir hann þá um hækkunina úr 47 aurum upp í 81½? Var hún ekki bylting líka? Þar er enginn „principiell“ munur á. Þvert á móti er full ástæða til að ætla, að seinni parturinn af áfanganum yrði ljettari, ef ekki eru tekin því stærri stökk.

Jeg hefði satt að segja talið hyggilegt, að þetta frv. hefði ekki verið látið koma fram hjer á þinginu. Jeg skal að vísu játa, að jeg þekki ekki hjörtu og nýru hv. þingmanna, en ef jeg lít inn í nánustu fortíð, þykist jeg hjer um bil geta sagt fyrir um fylgi þess. Jeg held, að ennþá sje Íhaldsflokkurinn næstum óskiftur og allir Jafnaðarmenn andstæðir verðfestingu eða stýfingu krónunnar og kjósi að fara hækkunarleiðina. Framsóknarflokkurinn mun hinsvegar standa öndverður hækkuninni. Þannig hefir afstaðan verið og jeg hefi ekki ástæðu til að ætla annað en að hún sje óbreytt. Það er að vísu kunnugt, að einn hv. þm. í Íhaldsfl., hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) er fylgjandi stýfingu, en það vissu menn áður, svo að þar er ekki um neina breytingu að ræða. Ef frv. þetta verður felt, og það verður felt, að þessari afstöðu óbreyttri — því þótt ást Íhaldsins á Framsóknarflokknum sje mikil, nægir hún varla til þess að frv. verði samþ. — þá tel jeg gengismálið horfa miklu ver við en áður. Frv. þetta, sem hv. flm. ber fram með hæstv. forsrh. á horninu, er í rauninni ekki annað en stjórnarfrv. Stjórnin hefir lýst yfir því erlendis, að krónan verði stýfð. Ef nú frv. verður felt, verður litið svo á erlendis, að stjórnin hafi ekki getað komið þessu áhugamáli sínu fram, vegna þess að hjer sje svo ákveðin hækkunarstefna ríkjandi. Afleiðingin af þessari skoðun gæti orðið sú, að erlendir stór „spekúlantar“ færu að „spekúlera“ í krónunni, og að hún hækkaði á svo stuttum tíma upp í fullgildi, að tap atvinnuveganna yrði tilfinnanlegt. Jeg verð því að telja það mjög vafasama aðferð hjá hæstv. stjórn, að láta þetta frv. koma fram að þessu sinni, nema hún hafi fengið einhverja þá vitneskju um aukið fylgi þm. við málið, sem oss öðrum dauðlegum mönnum er hulin. Því að jeg tel, að hæstv. stjórn beri þetta frv. fram, þar sem hæstv. forsrh. hefir skrifað aths. við frv.

Jeg hefi nú sjeð meira um þetta mál rætt í erlendum blöðum en íslenskum. Og þótt hinir erlendu fjármálamenn þykist, sumir hverjir, ekki hafa neitt að athuga við það, að við stýfum krónuna, þá finst mjer alt af meðaumkunin skína út úr ummælum þeirra, — að þeir kenni í brjósti um litlu þjóðina, sem ekki hefir mátt til að lyfta þeirri byrði, sem engri nágrannaþjóðinni hefir reynst ofviða.

Það hefir verið sagt, að stýfingin hefði ekki áhrif á lánstraust þjóðarinnar út á við, því að hver fengi sitt. Jeg held að enginn vafi sje á því, að hvarvetna yrði litið á slíka ráðstöfun sem merki um fjárhagslega veiklun. Þetta virðist mjer líka mega lesa út úr þeim orðum Ryggs bankastjóra, er hann segir, að stýfingin muni ekki valda álitsspjöllum til lengdar. Þetta verður eigi skilið öðruvísi en þannig, að hún valdi álitsspjöllum nú.

Það vita allir, sem nálægt viðskiftamálefnum hafa komið, hvers virði það er fyrir hvern einstakling, að hafa óskert lánstraust. En ef svo er, hvers virði er það þá ekki fyrir litlu þjóðina okkar, sem er nývöknuð til lífsins og á svo margt ógert? Ef þessi ráðstöfun verður til að veikja lánstraust hennar, verkar það böl á hvern einstakling, og þá auðvitað allra mest á viðskiftalíf þjóðarinnar sem heildar.

Jeg skal ekki segja um það, hvort jeg hefi dæmt rjett afstöðu manna á þingi til þessa máls. Margt getur breyst, og svo gæti líka hafa orðið í þessu máli. En hvað sem um það er, er jeg viss um, að þegar þjóðin vaknar og veit, hvað gert hefir verið, þá munu falla þung ámælisorð í garð þeirra manna, sem dregið hafa lánstraust þjóðarinnar niður, með því að víkja af þeirri braut, sem nágrannaþjóðirnar hafa talið sjer bera skyldu og þjóðarmetnað til að fara í þessu máli — að koma krónunni upp í gullgengi.