19.03.1929
Neðri deild: 26. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í C-deild Alþingistíðinda. (3044)

65. mál, myntlög

Magnús Guðmundsson:

Jeg geri ráð fyrir, að margur hafi búist við að sjá fyr framan í stýfingarfrv. en nú. Fyrir kosningarnar 1927 var lýst yfir því af Framsóknarflokknum, að stýfingin væri mál málanna, og kosningarnar snerust um það mál. En hvernig fór? Á þinginu í fyrra bólaði alls ekki á slíku frv., og nú líður meira en mánuður af þessu þingi áður en það sjer dagsins ljós. Og loks þegar það kemur, er það ekki einu sinni flutt af stjórninni. (TrÞ: Formanni gengisnefndar.) Jeg get ekki skilið, hvað stjórninni gengur til að flytja ekki málið sjálf. Jeg gæti trúað, að það stafaði af því, að hún teldi forlög þess óviss. Jeg hafði búist við, að þetta yrði eitthvert fyrsta málið á þinginu í fyrra. Það verður a. m. k. ekki sagt, að vel sje staðið við kosningaloforðin með því, að láta það ekki koma fram fyr en nú. Annað er þó, sem jeg undra mig enn meira á, og það er, hversu seint það kemur fram nú. Jeg held, að það sje af þeirri ástæðu, að ekki sje gert ráð fyrir að leiða málið til lykta nú.

En mín skoðun er sú, og þar er jeg á öðru máli en hv. þm. Dal. (SE), að við eigum að komast til botns í þessu máli á þessu þingi og leiða það til lykta á einhvern hátt. Mjer finst, að eftir góðæri eins og 1928 eigi að hugsa til hækkunar, ef það á að gera á annað borð.

Hv. flm. (ÁÁ) vildi halda því fram, að hjer væri verðfestingarfrv. á ferð. En svo er ekki. Frv. er hreint stýfingarfrv., þar sem það kveður svo á, að minni gullþungi skuli vera í hverri krónu framvegis en nú er. Jeg veit ekki hvort hv. flm. á við, að við höfum aldrei mótað gull sjálfir, og getum því ekki stýft það, sem ekki er til. En myntlögin frá 1873 eru enn í gildi, og þótt við höfum erlenda mynt, ákveða þau lög, hver gullþungi skuli vera í krónunni. Þetta er stýfingarfrv., því að það segir, að verða skuli minni gullþungi í krónunni en nú er ákveðið í íslenskum lögum. Ef um verðfestingu væri að ræða, ætti gullkrónan að vera óhreyfð, en hinsvegar ætti þá að verðfesta seðlana meðan verið væri að skifta um hina verðfestu seðla og nýja gullgilda seðla.

Jeg get ekki gert eins lítið úr myntsambandinu við Norðurlönd eins og hv. flm. gerði. Mjer finst eðlilegt og hagkvæmt, að þær þjóðir, sem mest skifta saman, hafi sameiginlega mynt, ekki síst, ef myntin heitir sama nafni. Jeg held, að þegar þessi litla króna okkar verður borin saman við krónuna í hinum löndunum, verði það til að rýra álit vort erlendis. Mig undrar, að hv. stjórn skyldi ekki fremur taka upp þá stefnu, að verðfesta seðlana. Þá væri líka um verðfestingu að ræða, eins og hv. flm. vildi telja felast í þessu frv., en ekki stýfing, eins og í því felst í raun og veru. Og jeg get ekki látið vera að taka fram, að ef um annaðhvort er að ræða, stýfingu eða verðfestingu, þá yrði mjer ljúfara að fara síðari leiðina. Það á að vera oss metnaður að halda gömlu krónunni.

Jeg viðurkenni, að það sje rjett hjá hv. flm., að því erfiðari verði hækkunin sem lengur líður frá. Jeg býst við, að sú leið sje yfirleitt ekki álitin fær, að hækka krónuna smátt og smátt. En jeg er þó ekki fjarri því, að sú aðferð gæti gefist vel hjer, vegna þess hve smáir við erum. Dönum skeikaði í því, að þeir ákváðu hækkunina fyrir of stutt tímabil í einu, án þess að ákveða, hvað svo tæki við, nema að hækka skyldi krónuna upp í gullgildi. Þetta gaf spákaupmensku byr í seglin, svo að ekki varð ráðið við hækkunina, vegna þess að aðeins var ákveðið að hækka krónuna í gullgildi, en ekki, hve hart skyldi farið

Stýfing á myntinni er stórt spor, sem verður að athugast vel. Og eitt af því, sem færir okkur heim sanninn um það, að slíkt megi ekki gera að óhugsuðu máli, er það, að engin þjóð nema stríðsþjóð hefir stýft mynt sína. Jeg skal að vísu játa, að ef stríð er ástæða til stýfingar, geta verið fleiri ástæður til hennar. En allar þær þjóðir, sem ekki lentu í stríðinu, hafa lagt á sig þær byrðar, sem því eru samfara, að hækka krónuna upp í gullgildi. Það hafa þær því aðeins gert, að þær hafa álitið, að til einhvers væri að vinna.

Jeg skal ekki gera lítið úr erfiðleikunum, sem hækkuninni fylgja. En það er nú oft svo, að erfitt er að uppfylla skuldbindingar sínar. Fátækur maður klífur þrítugan hamarinn til að greiða skuldir sínar. Hjer er um svipað að ræða. Þótt skyldan sje máske ekki jafnrík í þessu tilfelli og um skuld einstaklingsins, er þó um lagaskyldu að ræða. Það eina, sem gæti rjettlætt slíka ráðstöfun, væri það, að hún yki rjettlæti meðal þegnanna. En það verður að líta á eftirköstin af slíkri ráðstöfun, og ástæðan til að stíga slíkt spor, verður að vera veigamikil, ef ríkið á að hlaupast frá skuldbindingum sínum. Jeg skal viðurkenna, að nokkrar ástæður eru fyrir hendi, en það verður að vega, hvort þær eru nógu miklar. Út í þá sálma fer jeg eigi hjer. Jeg álít, að mál þetta eigi að athuga með fullri einlægni í nefnd, en umr. um það hafi lítið að segja. En jeg held, að þótt erfiðleikar við hækkun sjeu miklir, þá sje hægt að bjarga rjettlætinu milli þegnanna innbyrðis á annan hátt en með stýfingu.

Jeg skal ekki um það segja, hver traustspjöll stýfingin kynni að orsaka erlendis, en jeg verð að taka undir það með hv. þm. Dal. (SE), að svar Ryggs bankastjóra um þetta er mjög óákveðið. Hinsvegar verður að viðurkenna, að svör sænsku bankastjóranna eru skýr, og einkum þó Cassels. En það er nú svo um Cassel, að jeg get ekki undrast, þó að svar hans sje ákveðið, því að hann hefir fyrir löngu tekið afstöðu til þessa máls og ráðið þjóð sinni til að stýfa, en enginn viljað fara að ráðum hans. Hjer er því ekki um annað að ræða en framhald af fyrri skoðunum hans í þessu efni.

Eitt atriði er það enn, sem nauðsynlega þarf að koma til athugunar í sambandi við þetta frv. Eigi nú á annað borð að hrófla við gildi krónunnar, er óhjákvæmilegt að spyrja: Hve mikið þarf að þrengja að okkur til þess að við gerum þetta aftur? Það er ómögulegt að segja, að við sjeum aðfram komnir nú sem stendur. Árferðið er eiginlega eins gott og það getur verið, svo að ekki er hægt að halda því fram, að við sjeum nú í slíkri úlfakreppu, að önnur eins geti ekki komið fyrir oftar. Þess vegna liggur einmitt fyrir spurningin: Hversu mikið má þrengja að okkur, án þess við hróflum aftur við gildi peninganna? Það þarf ekki endilega að koma styrjöld til þess að valda kreppu. Hún getur alveg eins orðið af völdum harðæris. En jeg spyr: Til hvaða ráðs verður þá gripið? Á þá aftur að stýfa gullkrónuna?

Jeg hefi tekið eftir því, að í svörum hinna erlendu bankastjóra er talað um, að við þurfum að sjá svo um, að þjóðbankinn ráði yfir nauðsynlegum styrk til að halda genginu föstu. Jeg veit ekki, hvort svo er, en geri ráð fyrir, að stjórn og gengisnefnd hafi athugað þetta atriði. Væri gott að heyra álit hv. flm. um það.

Hv. flm. sagði, að tilgangurinn með þessu frv. væri ekki sá, að svíkjast undan skyldum að neinu leyti. Jeg er heldur ekki þeirrar skoðunar, að það sje borið fram í þeim tilgangi. En afleiðingin verður óneitanlega sú, að við losnum við skyldur, sem á okkur hvíla.

Svo fer t. d. um lán það, er ríkið tók hjá háskólanum árið 1918. Það lán fengum við í verðmeiri krónum en þeim, sem nú gilda. Og þó að frv. sje ekki borið fram til að svíkja neinn, þá losnar ríkið við nokkurn hluta af skyldum sínum í sambandi við þá lántöku.

Að svo komnu skal jeg eigi tefja frv. frekar en orðið er, en tel sjálfsagt, að því verði vísað til nefndar, eins og hv. flm. lagði til.