19.03.1929
Neðri deild: 26. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í C-deild Alþingistíðinda. (3046)

65. mál, myntlög

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 1. þm. Skagf. flutti mjög sanngjarna ræðu um þetta mál, og þarf jeg aðeins að svara fáum atriðum í ræðu hans. Það er alveg rjett, að Framsóknarflokkurinn hefir skuldbundið sig til að festa gengi peninganna jafnskjótt og hann hefir bolmagn til þess. En — „ultra posse nemo obligatur“. — Og það, sem stjórnin hefir getað, er að halda genginu föstu, það hefir hún gert. En úr því að hún hefir getað það og hefir tryggingu fyrir því, að geta gert það áfram meðan hún fer með völd, þá skiftir í raun og veru litlu máli, hvenær í sinni stjórnartíð flokkurinn leggur myntlagafrumvarp fyrir þingið. Okkur flm. er það ljóst, að úrslit frv. í þinginu nú eru engan veginn vís. Hitt tel jeg líklegt, að það eigi meira fylgi nú en áður. En þó að frv. hefði verið eins líklegt til samþykkis á síðasta þingi og nú á þessu þingi, þá efast jeg um, að ráðlegt hefði þótt að bera það fram þá. Munurinn á skráðu gengi og sanngengi var þá meiri en nú. Árferðið var einnig lakara. Líkurnar til þess að hægt væri að halda genginu föstu voru því ekki eins miklar þá og þær eru nú.

Það er alveg rjett, að Framsóknarflokkurinn á það undir öðrum flokkum, hvort þetta frv. nær samþykki eða ekki. Og jeg geri ráð fyrir, að hinar pólitísku „konstellationir“ í þinginu muni hafa einhver áhrif á fylgi við málið. Mjer er næst að ætla, að einstaka þingmenn, sem í hjarta sínu eru festingarmenn, muni skirrast við að greiða frv. atkvæði, af því að þeir gætu með því bjargað andstæðingastjórn út úr þeim örðugleikum sem því fylgja að hafa gengismálið óútkljáð. Þessi aðstaða hefir efalaust sín áhrif. En þegar íhaldsflokkurinn kemur til valda næst, þá mun það koma í ljós hvort þenslan innan þess flokks er svo mikil að hún þoli, að haldið sje áfram á hækkunarbrautinni ef ekki á alt að klofna. Jeg veit nú, að það mun engum íhaldsráðherra líðast að breyta genginu. Og jeg er einmitt rólegri í þessu máli, af því að jeg er sannfærður um það, að næsti stjórnarflokkur muni ekki eiga hægra með að koma fram hækkunarstefnu sinni en við eigum með að fá gengið fest að lögum, eins og það nú er.

Það er eins og stendur einkennilega erfitt að leiða í ljós þingviljann í þessu máli. En jeg er viss um það, að ef nú mistekst að fá formlega samþykt fyrir festingu, þá mistekst eigi síður að fá formlega samþykt til hækkunar. Þingið virðist vera í sjálfheldu í þessu máli. En úrslitum gengisskráningarinnar hefir það hingað til ráðið, hver með völdin fór í hvert sinn og svo mun enn verða, þar til lausn málsins fæst með löggjöf.

Jeg skal ekki deila lengi um, hvort orðið beri fremur að nota, festing eða stýfing. En mjer sýnist ástæðulaust að nota orð, sem felur í sjer áfellisdóm yfir þeirri ráðstöfun, sem hjer er um að ræða. Krafa mín er a. m. k. sú, að ekki sjeu notuð tvö ólík heiti um sama verknað. Verðfesting er nákvæm þýðing á „Stabilisering“, sem erlendir fræðimenn nota um þá ráðstöfun, sem ætlast er til að verði gerð í þessu frv.

Það skiftir ekki miklu máli, hvort við er átt verðfesting seðlanna eða myntarinnar. Hjer á landi er engin mynt í umferð að skiftimynt undanskilinni og hefir ekki verið um mörg undanfarin ár. Það sem hjer er um að ræða, er að festa íslenskan gjaldeyri, og gjaldeyrir okkar er nú eingöngu seðlar.

Jeg er ósammála hv. 1. þm. Skagf. um það, að myntsamband við Norðurlönd komi okkur að nokkru verulegu gagni. Viðskifti okkar við þau lönd eru tiltölulega lítil. Ef við viljum sækjast eftir gjaldeyriseiningu, sjerstaklega hentugri í viðskiftum út á við, ættum við helst að taka upp sterlingspund og „shillings“. Það er og algengt, að gjaldaurar heiti sama nafni, þó að verðgildi þeirra sje ólíkt. (MG: Þeir hafa þá einhverntíma haft sama gildi.) Já, en það gildi hefir þá ruglast, eins og hjer á sjer stað. Mjer virðist menn stundum hugsa svo, að fastur gjaldeyrir sje eitt af hinum eilífu hlunnindum mannkynsins. En sannleikurinn er sá, að fastur gjaldeyrir um langan tíma hefir ekki þekst. Truflanir á kaupmætti gjaldauranna eiga sjer ávalt stað, meiri eða minni, þegar til lengdar lætur. En þessu hættir mönnum til að gleyma og líta á gjaldaurana eins og þeir sjeu óbreytanlegir.

Sem dæmi þess, hversu myntir breyta hlutföllum hver við aðra, skal jeg nefna það, að franki og sterlingspund voru einu sinni jafn verðmikil. Og ekki sannast þar kenning hækkunarmanna, að sú þjóðin, sem stærri myntina hefir, sje sparsamari. Ef stærð myntarinnar út af fyrir sig hefði nokkra þýðingu fyrir afkomu þjóðanna, þá liggur í augum uppi, að við ættum alls ekki að láta okkur nægja gömlu Norðurlandakrónuna. Við ættum þá að taka upp einhverja himinháa gjaldaura, sem sköruðu fram úr því, sem þekkist í nokkru öðru landi. En þessi kenning hefir enga stoð í veruleikanum. Það er enginn heiður að nota þumlunga fremur en sentimetra, þó að þumlungarnir sjeu stærri. Það hefir heldur engin áhrif á álit þjóðar út á við, hvort hún notar stóra mynteiningu eða litla. Því stærri sem einingin er, því færri fara í ákveðna gullþyngd, því minni sem hún er, því fleiri. En hvorttveggja kemur í sama stað niður.

Það er rjett, að með því að verðfesta peningana er stórt spor stigið. En með hækkun væri stigið miklu alvarlegra spor, svo alvarlegt, að þjóðin verður að hugsa sig um oftar en tvisvar áður en það er stigið. Yfirleitt gildir alt það, sem sagt hefir verið verðfestingu til ámælis, í enn ríkara mæli um hækkunina. Þeim, sem hækkuninni fylgja, er títt að nota orðatiltæki, sem þeir hafa engan rjett til að nota. Hv. 1. þm. Skagf. talaði um skyldur ríkisins og skuldbindingar, sem ætti að standa við. Hv. þm. getur auðvitað haft þessi orð yfir, ef honum sýnist svo, en þau koma ekkert við því máli, sem hjer er verið að ræða um. Ríkið losnar ekki við neinar skyldur, þó að gjaldeyririnn sje festur. Það gerir þá ráðstöfun vegna þegnanna, en ekki vegna sjálfs sín. Hv. þm. (MG) tók háskólalánið sem dæmi og gaf í skyn, að ríkið sviki háskólann, ef það greiddi lánið eftir núverandi gengi. En úr því að það er ekki rjett, að ríkið sviki fje út úr lánardrotnum sínum, þá er ekki heldur rjett að það greiði meira fje en þeim ber. Það, sem máli skiftir í þessu sambandi, er kaupmáttur peninganna og ekkert annað. Og kaupmáttur sáttmálasjóðs er meiri nú en þegar hann var lánaður. (MJ: Hvor helmingurinn hefir meiri kaupmátt, sá danski eða íslenski?) Það kemur þessu máli ekkert við, þó að Danir hafi hækkað sinn hluta um 200 þús. kr. fram yfir það, sem rjettur stóð til, og með því valdið tilsvarandi ranglæti gagnvart þeim, sem skulduðu þessa upphæð. Aðalatriðið er það, að háskólinn á engan rjett á meira fje en hann fær, ef gengið er fest nú. Jeg vil gefa hv. 1. þm. Reykv. (MJ) og öðrum háskólamönnum það ráð, að bera ekki sáttmálasjóð fram eins og einhverja sáttmálsörk í þessari gengisbaráttu, svo að þeir eigi það ekki á hættu, að sú sáttmálsörk verði frá þeim tekin eins og Gyðingum forðum. Jeg vil minna á það, að skuldir stúdenta og hin erfiðu kjör háskólamentaðra manna í landinu, sem ítarleg grein er gerð fyrir í frv., sem hv. 1. þm. Reykv. flytur nú í þinginu, eru miklu stærra atriði í þessu máli en viðskifti ríkisins og sáttmálasjóðs. Þær staðreyndir, sem koma fram í frv. 1. þm. Reykv., eiga miklu meiri rjett á því, að tillit sje tekið til þeirra en sáttmálasjóðs. Það getur raunar verið fallegt af háskólamönnum að gleyma sjálfum sjer vegna umhyggju fyrir þessari sáttmálsörk sinni, en jeg verð að segja, að í því komi þó fram meiri fáviska en óeigingirni.

Jeg skal ekki vera á móti því, að Alþingi gefi sjóðnum einhverja fjárupphæð, ef það sjer ástæðu til. Raunar tel jeg enga brýna þörf á því, en get sætt mig við að láta það afskiftalaust, ef aðrir telja það nauðsynlegt. En þá ber að gera það með sjerstöku framlagi en ekki á þann hátt, að valda um leið stórkostlegu ranglæti.

Hv. 1. þm. Skagf. talaði um, hverjar mundu verða afleiðingar festingarinnar og að finna þyrfti leið til að bæta tjón þeirra manna, sem yrðu fyrir ranglæti, þegar hún yrði leidd í lög. Jeg skal síst amast við því, að þessi hlið málsins sje tekin til athugunar. En hv. þm. (MG) og öðrum þeim, sem tala um ranglæti í sambandi við festingu, ber skylda til að tala líka um það ranglæti, sem hækkun mundi hafa í för með sjer, og benda á leiðir til að bæta úr því ranglæti, ef þeir ætla að halda fram þeirri stefnu. Ella eru þeir ekki heilir í þessu máli. Dettur nokkrum í hug, að síður sje ástæða til að bæta úr því 98% ranglæti, sem hækkunarmennirnir vilja skapa en því 2% ranglæti, sem ef til vill mundi eiga sjer stað, ef horfið yrði að því, að festa peningana í núverandi gengi?

Mjer þótti vænt um, að þetta skyldi koma fram hjá hv. 1. þm. Skagf. Það er sanngjarnt að ræða þetta mál á þeim grundvelli, hvað skapi rjettlæti og hvað ranglæti, því að það er hinn rjetti vettvangur þessa máls. Og ef hv. andstæðingar þessa frv. fást til að standa á þessum grundvelli, þurfa þeir ekki að vera í vafa um, hvað þeir eigi að gera viðvíkjandi myntlögunum.

Hv. þm. Dal. byrjaði ræðu sína með því að segja, að jeg væri sá eini maður, sem framið hefði rannsókn á þessu efni. Þetta er oflof. Það er fjöldi manna, sem framið hafa slíka rannsókn. En sjerlega nákvæmrar rannsóknar þurfti ekki með. Höfuðdrættir þessa máls eru skírir, og það er eftir þeim, sem menn eiga að ákveða sig, en ekki eftir smávægilegum tölum, hvort eitthvað sje ógreitt frá 1914, eða hvort Sáttmála- og Söfnunarsjóðir hafi einhverjar smákröfur, miðað við þær stórfeldu kröfur, sem allir aðrir hafa. En hv. þm. Dal. hlýtur sjálfur sem bankastjóri að hafa framið rannsókn á þessu efni, því að hann vill ekki halda genginu föstu, og á bak við þá skoðun hlýtur að liggja rannsókn, sem rjettlætir það. Þó hefir hv. þm. Dal. ekki gert sem gengisnefndarmaður hina minstu tilraun til að hækka gengið frá því, sem nú er. Hinsvegar hefir hann lýst yfir því, að hann sje fylgjandi hægfara hækkun gengisins, og segist vera það af þjóðarmetnaði. Hann er ekki bráðlátur fyrir hönd þjóðar sinnar, þessi hv. þm. Þjóðarmetnaður hans er hægfara, og það sjest ekki berlega í hverju hann er fólginn. Hann svífur í lausu lofti, eins og eitthvert undraljós, sem enginn veit hvað er. Ef þjóðarmetnaður hans er miðaður við eitthvert sjerstakt rjettlæti, þá hefði hann átt að segja þjóðinni, að hún gæti ekki beðið, og hefði meira að segja átt að vera búinn að hækka krónuna til fulls fyrir þrem árum. Því að því lengur sem líður, því meira breytist þjóðarmetnaðurinn í að festa sem fljótast. En það eru ýmsir, sem hugsa, að hægt sje að komast hjá öllu ranglæti og erfiðleikum, ef orðið hægfara er sett framan við stefnuheitið. Hvers eðlis slíkt er, sjest best á því, ef þetta orð er sett framan við orðin: rjettlæti og þjóðarmetnaður. Hægfara rjettlæti og hægfara þjóðarmetnaður — þau hugtök eru hvorki fugl nje fiskur.

Jeg vil segja hv. þm. Dal. það, að hann hefði ekki þurft að leita til mín um það, að hægfara hækkun væri óráðleg. Hann hefði alveg eins getað leitað til hv. 3. landsk. þm. (JÞ). Jeg er sammála hv. 3. landsk. um það, að ef eigi að fremja þetta ranglæti, þá sje best að gera það strax — eins og einhversstaðar stendur. Ef það á að svíkja atvinnurekendur og alla þá, sem hafa umráð yfir rekstrarfje — jeg nota ekki sterkari orð en hækkunarmenn, þegar þeir gersópa orðabókina að orðum eins og skilamaður, svikari, gjaldþrot o. s. frv. — ef á að svíkja alla þá, sem hafa nýjar skuldbindingar, þá er best að það sje gert strax í einni svipan, bæði vegna þjóðarinnar og atvinnurekendanna sjálfra. Því að ef það er gert strax, kemur sú kreppa, að verðlag á vinnu og vörum verður að láta undan. Sje aftur á móti framkvæmd hægfara hækkun, verður afleiðingin sú, að enginn seljandi sjer nauðsyn á að lækka vöruverðið fyr en seint um síðir, og jeg býst ekki við, að hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) sjái ástæðu til, að sjómennirnir fari að lækka kaup sitt, fyrir svo litlar breytingar, sem þessu yrðu samfara. Hægfara hækkun er ráðið til þess að skapa svæsna og langvarandi baráttu á milli útgerðarmanna og verkamanna, af því að þá verður um svo lítið að berjast í hvert skifti, og af því leiðir svo langvarandi hnignun, kyrstaða og deyfð. Þetta hægfara „rjettlæti“ er það versta ranglæti, sem hægt er að fremja í þessum efnum, ekki einungis gagnvart þeim, sem með þessu móti fá hækkaðar skuldir, heldur og líka gagnvart hinum, sem halda áfram atvinnurekstri sínum. (SE: Hv. þm. notar of mikið slagorð.) Jeg heyri, að hv. þm. Dal. skoðar þetta, sem jeg er að segja, sem „slag“ fyrir sína stefnu.

Hv. þm. Dal. spurði sem svo: Hvað á að gera næst, ef krónan er fest nú?

Ef það er rjett nú, þá er það nákvæmlega eins rjett næst, þegar eins stendur á, og þó að nú væri hægt að hindra, að það yrði gert, sem rjett er að gera í þessu máli, er það engin sönnun þess, að þessi rjettlætiskrafa sigri ekki seinna meir, þegar eins stendur á, þegar hv. þm. Dal., t. d., er úr sögunni.

Hv. þm. Dal. sagði, að það hefði verið stór sigur fyrir þjóðina, að krónan hefði hækkað úr 47 aurum upp í 82, og af því að hægt hefði verið að framkvæma þessa hækkun, væri rjett að halda áfram. En það var ekki rjett að hækka krónuna svona mikið. (SE: Hún átti að vera í 87.) Þetta sýnir, að hv. þm. Dal. (SE) hefir ekkert vit á þessu máli. Það átti að stöðva hækkun krónunnar, þegar jafnvægi var komið á milli verðlags og gengis, og hún átti aldrei að komast svona hátt, ekki einu sinni upp í 81. Það er tvent, sem ræður mestu í þessu efni: Hvort verðlagsbreytingarnar eru í samræmi við gengisbreytingarnar, og hversu lengi breytingarnar hafa staðið. Hvenær sem þetta tvent vegur salt, verður krafan um verðfestingu jafn rík og hún er nú. Jeg veit, að hv. þm. Dal. notar það sem „slagorð“, að „næst“ eigi að stýfa á hverju ári. En stýfing er ekki framkvæmd nema örsjaldan, og það er sjaldgæft, að kröfur komi fram um slíkar aðfarir.

En eftir allar þær breytingar, sem heimsstyrjöldin olli, þarf engan að undra, þó að verðfestingarkrafan komi fram, til að skapa rjettlæti í peningamálunum. Þegar miklar breytingar verða í lífi þjóðanna og langvarandi verðlækkun gjaldeyrisins á sjer stað, kemur þessi sama krafa alt af fram. Þó að verðlagið breytist við það, að hallæri kemur á eftir góðæri, kemur það þessu ekki við vegna þess, að þó að einhverjar gengisbreytingar kunni að orsakast af því, þá eru þær yfirleitt ekki svo miklar, að krafan um verðfesting nýs gengis komi fram. Það fer enginn að „stýfa“, nema gengið hafi raskast allverulega og alllangt sje um liðið. Það mega menn vita, að núverandi stýfing er ekki eingöngu miðuð við nútíðina, heldur líka við framtíðina, og hvenær sem þarf að taka til þess að slíta sambandið á milli gulls og pappírspeninga, á mönnum að vera ljóst, að það getur endað með „stýfingu“. Ef það hefði verið ljóst 1914, hefðu hjer verið gerðar ráðstafanir til þess að okkar peningar hefðu ekki fjarlægst það verð, sem þeir áttu að hafa, svo mjög sem raun varð á. (MJ: Peningarnir hefðu flúið.) Hver veit, hvenær verðfesting kann að skella á? Jeg held, að flóttahugsunin hefði ekki komið upp í mönnum, fyrr en breytingarnar voru um garð gengnar og þá um seinan. Við skulum taka t. d. Þýskaland, sem gerði sína peninga svo að segja að engu, og tók upp nýja mynt, og innleysti þá gömlu með svo miklum gengismismun, að mönnum þótti ekki tilvinnandi að hafa fyrir að innleysa þá. Auðvitað skyldi maður halda, að í svona landi sparaði enginn neitt, og að allir keptust um að eyða sem mestu og njóta lífsins eða forða fje sínu út úr landinu. En hvað segir reynslan ? Hver flúði þar? Jeg las nýlega grein eftir Lloyd George um þetta efni. Hann segir þar meðal annars, að spörunartilhneiging þýsku þjóðarinnar sje nú meiri en hún var áður, að sparifjeð sitji heima og uppfylli sínar skyldur, og þjóðin yfirleitt hafi orðið sterkari við hörmungarnar.

Að ætla sjer að fæla menn með þessum spádómum er bara grýla. Sparsamur maður hugsar ekki um peningagildi, heldur um að spara. Ef þetta væri svo hættulegt og látið er, mundu menn hafa flúið, þegar við ljetum peningana falla. En því flúði enginn þá? Nei, þetta er bara grýla. Það eru allir sannfærðir um, að þjóðfjelagið geri í framtíðinni alt, sem það getur, til að halda gjaldeyrinum í föstu verði, alveg á sama hátt og það hindrar hækkun gjaldeyrisins, þegar það telur það rjettlátt. Þessi viðleitni þjóðfjelagsins kemur líka fram í því, að stöðva fall gjaldeyrisins, þegar svo ber undir. (MJ: Hvenær var rjettlátt að festa?) Það er rjettlátt á þessu augnabliki að festa krónuna í því gildi, sem hún er nú í, og það verður ekki heimtað meira af hv. 1. þm. Reykv. (MJ) en að hann veiti þeirri rjettlætiskröfu sitt fylgi.

Hv. þm. Dal. mintist á N. Rygg bankastjóra. Hann hefði ekki átt að vitna í hann, heldur hina, sem láta álit sitt skýrara í ljós. En þó er álit Ryggs svo skýrt, að það er ljóst, að ráð hans er þetta: „Þið skuluð rólegir verðfesta ykkar gjaldeyri.“ — En fortíð Ryggs hindrar hann í að skýra frá áliti sínu á þessu máli skýrar en hann gerir. Jeg fór til Ryggs og bað hann um álit sitt, svo að hækkunarmenn skyldu ekki geta sagt, að við engan hefði verið talað úr þeirra hóp. En þegar álit hans kemur, setja þeir bara „kruss“ við setningu og setningu á stangli í áliti hans — og búið.

Hv. þm. Dal. þykir það undarlegt, að sænsku fjármálamennirnir skuli ráða okkur gagnstætt því, sem þeir ráðlögðu sinni eigin þjóð á sínum tíma. Svo er aðeins um suma þeirra. Þetta kann að virðast svo í fljótu bragði. En það stóð alt öðru vísi á hjá Svíum, þegar þeir hækkuðu. Það, sem rjettlætir hækkun sænsku krónunnar, er meðal annars það, að þar var hækkunin framkvæmd fyrst. Auk þess áttu Svíar stysta leið að fara; þeir höfðu ekki orðið fyrir verulegum slysum af völdum ófriðarins og bjuggu við það ástand, sem gerði þeim hægara að framkvæma hækkunina en öðrum.

Jeg sje, að það er komið fram yfir venjulegan fundartíma, svo það mun best, að láta hjer staðar numið að sinni.