23.03.1929
Neðri deild: 30. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í C-deild Alþingistíðinda. (3052)

65. mál, myntlög

Sigurður Eggers:

Það eru nú nokkrir dagar síðan jeg tók fyrst til máls um þetta frv., og vil jeg nú svara ýmsu, sem komið hefir fram í umr. síðan.

Það voru aðallega ummæli hæstv. forsrh., sem komu mjer til að standa upp. Hann var að tala um aðstöðu þessa máls í þinginu og var auðsætt, að hann taldi óvíst, að krónan yrði formlega stýfð. Þetta sama skildist mjer á hv. flm. Bæði hann og hæstv. ráðherra gera ráð fyrir, að aðstaðan í þinginu sje sú, að óvist sje, að frv. nái fram að ganga. Það er að vísu gott að fá þetta staðfest. Það er í fullu samræmi við það, sem hæstv. ráðherra sagði í útlöndum, að íhaldsflokkurinn og jafnaðarmannaflokkurinn væru á móti því, að krónan yrði stýfð. Hæstv. ráðherra sagði samt í útlöndum, eða að minsta kosti hefir Rygg bankastjóri skilið það svo, að krónan mundi verða fest. Nú er svo að heyra á ummælum eins aðalforingja jafnaðarmanna (HG), að aðstaða þeirra sje óbreytt í þessu máli, og það sama hefir komið í ljós af hálfu íhaldsmanna.

Áður en jeg vík frekar að þessu atriði, verð jeg að taka í sama streng og hv. 1. þm. Reykv. (MJ), um að augljóst sje, að mál þetta er virkilega hjartansmál hæstv. stjórnar. Jafnan, þegar talað hefir verið um þetta mál, hefir hæstv. stjórn lagt svo mikla áherslu á það, að hún virðist hafa skoðað það sem mál málanna. Í þessu sambandi álit jeg rjett að hafa upp þær frumreglur, sem sjálfsagt er að fylgja í stjórnmálum.

Jeg verð að líta svo á, að þar sem aðalmaður stjórnarinnar hefir skrifað aths. við þetta frv. og fylgt því úr hlaði með meðmælum, þá verður stjórnin, þó að hún flytji ekki frv. sjálf, að leggja svo mikla áherslu á, að það nái fram að ganga, að hún fari frá völdum eða leysi þingið upp og spyrji þjóðina, ef frv. kemst ekki í gegnum þingið. Það væri í fullu samræmi við þær parlamentarisku reglur, sem gilda alstaðar um hinn siðaða heim.

Hæstv. forsrh. sagði, að þó að þetta mál næði ekki fram að ganga, mundi samt stjórnin og flokkur hennar hafa það á valdi sínu, að halda krónunni í sama gengi, og hún er í núna, meðan hún sæti að völdum. Jeg efast um, að þetta sje hægt. Ef svo færi, að frv. yrði felt, eða það dagaði uppi, þá er augljóst, að stjórnin hefir ekki getað komið þessu máli fram í þinginu, og þá færi sú hugsun að vakna, að í landinu ríkti hörð hækkunarstefna, og gæti það leitt til spekulationa. Jeg vil minna á atvik, sem gerðist á hækkunarferli þjóðarbankans árið 1925. Það hafði verið keypt svo mikið af sterlingspundum, að Landsbankinn treysti sjer ekki til þess að halda áfram að kaupa. Afleiðingi varð sú, að pundin fjellu í verði og krónan hækkaði. Svo fer, ef stjórnin hefir ekki á valdi sínu að gera þær ráðstafanir, að þjóðbankinn geti haldið áfram að kaupa stertingspund. Þá hefir hún mist tökin á gengisbreytingunni og krónan getur þá farið skyndilega upp í gullgildi. Þetta sýnir það, að ef stjórninni er alvara í þessu máli, þá ætti hún að fara eftir almennum reglum, sem eru þær, að ef málið kemst ekki í gegnum þingið, þá á hún að leysa þingið upp og láta kjósa um málið. Þetta er sú eina rjetta regla. Hæstv. forsrh. og fleiri hafa látið þau ummæli frá sjer fara, að óverjandi væri að hækka krónuna úr þessu, og að nú þegar væri búið að slá því föstu, að hún yrði ekki hækkuð. En jeg vil spyrja: Hvar eru þau ákvæði að finna, að Alþingi hafi ákveðið að krónan skuli stöðvuð þar sem hún er nú? Á Alþingi 1926 kom fram till., að mig minnir frá hv. þm. Borgf., er fór fram á það, að halda krónunni fastri það ár. Ástæðan til þess var sú, að menn voru skelkaðir eftir hækkunina, sem gerð var á árunum 1924–1925. 1927 kom svo fram festingarfrv., sem ekki gekk fram. Og á þingi 1928 var samþ. till. um að stjórnin ljeti fara fram rannsókn á endanlegri lausn gengismálsins fyrir næsta þing. Enda gert ráð fyrir því að gengið hjeldist óbreytt á meðan. En í þessu er engin bending fólgin um endanlega skipun myntarinnar, hvort hækka skal eða festa. Þá sagði hæstv. forsrh., að þegar krónan væri svona lengi búin að haldast föst í þessu lága gildi, þá kæmi ekki til mála að fara að hækka hana. Fleiri hafa tekið í þann streng. Mjer er það vel ljóst, að hækkuninni síðustu fylgdu miklir erfiðleikar, sem einkum stöfuðu af því, hve krónan hækkaði fljótt. Var því viturlegt að stöðva hækkunina um tíma, meðan bankarnir og atvinnuvegirnir voru að ná sjer og safna kröftum. Og ef litið er yfir sögu okkar krónu, þá er síst að furða sig á því, þó örðugleikarnir yrðu miklir í bili, því samfara krónuhækkuninni voru lagðir svo gífurlegir skattar á þjóðina, að borgaðar voru miljónir af ríkisskuldum. Var því ekki að undra, þó þetta samanlagt ylli erfiðleikum. Það er viðurkent, að reynslan er ólygnust. Og jeg vil spyrja: Hvar stöndum vjer nú eftir þennan reynslutíma? Hvernig er hagur þjóðarinnar nú? — Það er talið, að í stríðsbyrjun hafi sparisjóðsfje þjóðarinnar verið um 9 milj. kr. en nú er það um 47 milj. Ef litið er til atvinnurekendanna, sem þó hafa orðið fyrir þyngstum búsifjum, þá sjest, að hagur þeirra margra er með meiri blóma en áður. (ÓTh: Það ættu bankastjórarnir best að vita, því í bönkunum er samnefnari hags almennings!). Jeg hefi ekki gefið neinar upplýsingar úr bankanum. Það er víðar en þar hægt að fá upplýsingar um atvinnuvegina. — Jeg get máske sagt svo mikið, að sá maður, sem greip fram í fyrir mjer, virðist ekki þurfa að kvarta eftir því sem hagur hans virðist standa nú eftir öllum sólarmerkjum að dæma. (HG: Hann barði sjer um daginn út af kaupgjaldinu!) Jeg er ekki að tala hjer sem bankastjóri, en sem þingmaður, og ummæli mín verða að skoðast í því ljósi, en jeg sný ekki aftur með það, að margt standi nú með miklum blóma í augnablikinu. Það er eðlilegt, að þeir sem skulda til hægri og vinstri og sjá ekki fram á, að þeir komist frá skuldunum, fari til sinna lánardrotna og fari fram á að fá eftirgefin 20% af skuldinni í þeirri von, að þeir þá vinni sig upp og geti staðið í skilum með það, sem eftir er. Slík eftirgjöf getur trygt hag beggja aðilja. En ef skuldunautur á 20–30 þúsundir í banka og leynir því, þá hefir hann farið fram á sviksamlega eftirgjöf. En hver munur verður þá á aðstöðu einstaklings og þjóða í þessu efni. Nú hefir verið hið mesta góðæri. Útfluttar afurðir síðastliðið ár munu hafa numið um 70 milj. kr. En þó þykir sumum sjálfsagt að gefast upp. Er ekki þetta að minsta kosti vottur um, að siðferðisþroskinn sje ekki á nógu háu stigi? — Hjer hefir nokkuð verið um það deilt, hvort heldur bæri að kalla þetta verðfesting eða stýfing krónunnar. Hv. flm. vill kalla það verðfesting. Jeg lít svo á, að þetta skifti ekki miklu máli og skal því ekki deila um það. En jeg sje þó ekki betur, en að stýfing sje rjettnefni, þar sem frv. fer fram á, að gullgildi kr. minki. Aftur á móti hefir komið fram önnur til., sem frekar má kalla verðfesting. Jeg get þó tekið undir með hv. þm. Ísaf., að ekki er stór munur á þessu tvennu. Hvortveggja leiðin er stýfingarleið. — Jeg hefi líka skilið þann hv. þm., sem þá till. bar fram, svo, að hann sje sjálfur á móti henni, en aðeins telji þá leið betri, ef stýft er hvort sem er. Það er formaður Íhaldsflokksins, hv. 3. landsk., sem varpað hefir þessari hugmynd fram. En jeg hefi skilið hann sjálfan svo, að hann sje ákveðinn hækkunarmaður og því móti þeirri till., þótt hann hafi varpað henni fram, af því hann taldi hana betri en þá stýfing, sem felst í þessu frv. — Eftir því, sem jeg kemst næst, þá hefir engin stefnubreyting um þetta mál átt sjer stað hjá íhaldsmönnum eða jafnaðarmönnum. Þótt hv. 2. þm. G.-K. sje festingarmaður, þá er engin stefnubreyting í því fólgin, því að hann hefir altaf verið það.

Jeg hefi hlýtt með athygli á ræður hv. flm. Og mjer hefir skilist svo á hans ræðum, og skal fúslega leiðrjetta, ef jeg fer rangt með, að hann teldi að öllu leyti sjálfsagt að festa krónuna og sæi enga galla er fylgdu því. En það mætti nú samt merkilegt heita, ef mál þetta er eins afar auðvelt og einfalt sem hv. þm. virtist halda fram að það væri, þar sem nágrannaþjóðir okkar og svo að segja allur heimurinn, hefir deilt svo mjög mikið um það. Þetta hefir allsstaðar verið talið mjög örðugt mál. En eftir því sem hv. þm. farast orð, þá er málið svo afar einfalt. Hv. flm. sagði, að skoðanirnar væru breyttar og viðhorf annað. En hvar sjest sú stefnubreyting? Um þetta mál er hætt að tala hjá nágrannaþjóðunum. Þar er búið að hækka og því ekki ástæða til að ræða málið lengur. Og jeg hefi ekki í neinum erlendum blöðum sjeð votta fyrir stefnubreyting á þessu máli.

Hv. flm. spurði á þessa leið: Ef svíkja á atvinnurekendur þessa lands, því þá ekki að gera það strax. En jeg vil spyrja: Á hvern hátt verða atvinnurekendur sviknir og á hvern hátt svíkur Alþingi þá, þótt krónan verði hækkuð í gullgildi? Jeg skýrði áðan frá þeim samþyktum, sem um þetta mál hafa verið gerðar á þingunum 1926–’28. Jeg get ekki sjeð, að í þeim felist neitt loforð um stýfingu. Jeg get því ekki sjeð í hverju þessi svik eru fólgin. Hv. þm. benti á hið mikla ranglæti, er af hækkun leiddi. Jeg benti á í fyrri ræðu minni, að hið sama ranglæti hefði þá hlotið að eiga sjer stað, þegar krónan var hækkuð úr 47 upp í 81½ gulleyri. Og ekki sje neitt meira ranglæti að hækka hana nú í 100 gullaura en var þá að hækka hana úr 47. Þessu getur enginn mótmælt. Það er eins og hv. þm. Ísaf. sagði, að ef slá skal fastri þessari reglu, að stýfa, þá stöndum við höllum fæti. Ef nú er stýft og pappírskrónan breyttist aftur og fjelli, þá ættum, við eftir þeirri reglu að stýfa hana þar sem hún fjelli lengst niður. Með þessu er tekin öll stöðvun af krónunni, ef jafnan er stýft, þegar illa fer og þeir, sem skulda hærri krónuna sjá sjer færi á því, að borga þær skuldir með lægri kr. Ef þeir geta það, þá er það líka ranglæti. Það verður því nokkuð örðugt að komast fram hjá öllu ranglæti í þessu máli.

Hv. flm talaði um, að ef tekin væri hægfara hækkun, þá myndi það kosta svæsna baráttu milli verkamanna og atvinnurekenda. Jeg vil nú minna hv. þm. á það, að gengið hefir staðið fast í 3 ár. Og þó dundi yfir nú fyrir skemstu eitt hið harðvítugasta verkfall, sem átt hefir sjer stað hjer á landi. Og til þess að jafna það, varð að verja 4–5 hundruð þús. kr. frá ríkissjóði.

Jeg var mjög hissa á ummælum hv. flm. í sambandi við það, er jeg sagði, að þrátt fyrir þá örðugleika, sem leiddu af hækkun þeirri, sem orðin er, þá væru þó allir ánægðir með hana. En mjer skildist á orðum hv. flm., að hann væri ekki í tölu hinna ánægðu, og virtist í því felast, að hann hefði gjarnan viljað stýfa niður í 47. En jeg held þó, að þeir menn sjeu fáir hjer á landi, sem halda því fram, að aðstaðan væri eins góð, ef stýft hefði verið niður í 47. Jeg er hræddur um, að við ættum þá við rýrt álit að búa. — Og jeg er viss um, að þótt nú megi telja þjóðina á stýfingu, með því að vinna þrekminni hluta hennar, sem hygst að losna við skuldir í bili, til fylgis við málið, og það hefðist gegnum þingið nú, þá yrði ekki langt þangað til þjóðin yrði óánægð með að hafa stýft. Það er hægt í bili að telja menn á að fara heldur niður brekkuna, heldur en að sækja upp á brekkubrúnina, „þar sem viðsýnið skin.“ — Mjer hefir heyrst af umræðum stýfingarmanna um málið, að í raun og veru sje þeim stýfingin trúaratriði. Og þótt hv. flm sje skýr og glöggur maður, þá hefir þó rannsókn hans á þessu efni verið einhliða, af því að hann gekk að þeirri raunsókn með fyrirfram ákveðinni skoðun á málinu. Hann var búinn að taka sína afstöðu og hefir því aðeins hlustað eftir hverri ástæðu, sem var stýfingunni í vil, en lokað eyrunum fyrir því, sem mælti á móti stýfingu. En svo fer ávalt, þegar gengið er að einhverri rannsókn með fyrirfram ákveðinni skoðun, að hún kemur ekki að fullum notum.

Jeg hjelt því fram, þegar jeg talaði um hina erlendu menn, sem getið er um í grg. við frv., að einn þeirra, Cassel, hefði ráðið öllum Norðurlandaþjóðunum til að stýfa, þótt engin þeirra hefði viljað fara að ráðum hans. Hv. flm. sagði að þetta stafaði af almennri tregðu, og vantað hefði bakhjarl, ríkissjóðinn, fyrir þessu, og ákveðna stefnu í gengismálinu. En af hverju vantaði þennan bakhjarl? — Af því að þar þótti heiður að koma genginu upp. Hv. flm. sagði, að almenningur hefði verið ófræddur um þetta mál. En jeg vil spyrja: Hefir almenningur hjer fengið slíka fræðslu? Undanfarið hafa blöðin rætt þetta mál lítið. Það hefir verið þögn um þetta mál, bæði á himni og jörðu. Almenningur hefir því ekki fengið um það neina almenna fræðslu. Það hafa aðeins heyrst einhliða prédikanir um það, að hinn eini sanni sáluhjálparvegur væri það að gefast upp. Og hafi þessum prédikunum ekki verið trúað, þá hefir það verið talið til stórsyndar. (MT: Er þá Jón Þorláksson bara orðinn núll?) Jeg ákveð ekki, hverjir eru núll í þessu þjóðfjelagi, það gera aðrir. Jeg verð að segja það, að mjer þykir undarlegt að heyra, að nú sje komið alt annað hljóð í menn á Norðurlöndum, þar sem hækkað var. Jeg veit ekki á hverju það er bygt. Það er að minsta kosti stutt síðan ákveðið hækkunarhljóð var í mönnum í Noregi. Og nýlega talaði jeg við mann í Danmörku, sem sagði, að þrátt fyrir erfiðleika, sem fylgt hefðu hækkuninni, þá sæi þó enginn eftir því, að það var gert. Jeg hefi ekki heldur sjeð þess getið, að mótstöðumenn gengishækkunarinnar hafi eftir á gert nokkuð úr illum afleiðingum hennar. Ef til vill ber það gleggstan vott um, að þar er um enga stefnubreyting að ræða, að þeir menn, sem voru á móti, hafa eigi gert sjer neinn pólitískan mat úr því, að gengishækkunin hafi haft illar afleiðingar.

Og það er venjan, að ef einhver flokkur hefir haft gott mál að flytja, sem unnið hefir alþjóðar fylgi, þá sætir hann hverju tækifæri til að hampa því framan í kjósendur. En jeg hefi ekki orðið þess var, að þeir hafi álitið sig græða neitt á því að prjedika gegn því, að hækkunarákvörðunin var tekin. — Hjer á landi eru röksemdir og kenningar andstæðinga gengishækkunarinnar prjedikaðar eins og um trúarbrögð væri að ræða. Og þegar hv. flm. er að prédika um þetta mál hjer í hv. deild, þá minnir hann helst á áhugasaman trúboða. Hv. flm. sagði, að gleðin yfir því að hækka krónuna upp í sitt gamla gullverð, mundi verða dauf, sjerstaklega hjá bönkunum. Jeg hefi ekki farið neitt í felur með, að það mundi verða erfitt fyrir bankana, af krónan yrði hækkuð. Sambandið á milli bankanna og atvinnuveganna er svo náið. Þessir erfiðleikar eru öllum ljósir, og þess vegna hefi jeg talið rjett að hægt væri farið í hækkuninni, til þess að ofbjóða ekki atvinnuvegunum nje bönkunum. Að halda því fram, að ekki megi hækka krónuna úr þessu, þó að hún hafi nú verið stöðvuð um nokkurt árabil, eru aðeins fáránlegar trúarsetningar í þessu máli. Ef litið er til þess, sem erlendir fræðimenn segja um það atriði, þá hefir t. d. Rygg, bankastjóri ríkisbankans norska, komist þannig að orði: „Sje það nú talið ókleift að ná aftur gamla gullgildinu, og heil þrjú ár eru liðin með föstu gengi, þá er rjett að tryggja sjer, að gjaldeyririnn fari ekki út af sporinu aftur.“ En það liggur í orðum bankastjórans, að hann byggir ummæli sín á því, að ástæður hjer sjeu svo, að ekki sje hægt að ná gullgildinu. Í orðum hans felst aftur ekkert um það, að ekki megi ná gullgildinu fyrir því að 3 ár sjeu liðin. Þvert á móti. Það má ráða alt annað af þessum orðum hans. Að því er snertir ummæli hinna erlendu fræðimanna, þá hefi jeg bent á, að þar sem þeirra eigin bjóðir hafa ekkert tillit tekið til sjerfræði þeirra, og ekki viljað fara að ráðum þeirra í þessu efni, þá má marka af því, að þjóðirnar hafi farið meira eftir mönnum, sem reynsluna höfðu í fjármálunum, og að þjóðarmetnaður hafi miklu ráðið í þessum málum. En háttv. flm. vildi ekki gera mikið úr þeim metnaði.

Það hefir hvað eftir annað sýnt sig í hinu praktiska lífi að taka verður kenningum fræðimannanna með nokkurri varúð. Það er öllum vitanlegt um Rygg, bankastjóra Noregsbanka, að hann barðist fyrir því, að norska krónan var hækkuð upp í gullgildi; jeg held að sænsku bankastjórarnir hafi beitt sjer fyrir hinu sama í sínu landi; og jeg veit ekki annað, en að bankastjórar í Danmörku hafi yfirleitt verið fylgjandi hækkun dönsku krónunnar; með öðrum orðum, þeir menn, sem starfa í því praktiska lífi, hafa viljað hækka krónuna upp í gullmark. Og jeg verð að segja það, að jeg tek meira mark á þeim en kenningum hinna stofulærðu manna, þó að þeir geti túlkað þær fallega, þá reka þær sig á í lífinu. Jeg trúi erlenda fjármálamanninum betur, þegar hann er að ráðleggja sinni eigin þjóð í þessu vandamáli, heldur en þeim bendingum, sem hann gefur okkur. — Og við erum sannarlega búnir að fá nóg af að hlusta á erlend ráð í fjármálum. Vil jeg í því sambandi einkum minna á ráð þau, sem okkur voru gefin í bankamálinu, þegar við spurðumst fyrir um, hvort eigi væri heppilegast að stofna hjer sjerstakan seðlabanka, sem yrði bankanna banki eins og annarsstaðar. Ráðin, sem okkur voru gefin voru þau, að við færum alt aðra leið í þessum málum heldur en mennirnir, sem ráðin gáfu, höfðu ráðlagt sinni eigin þjóð. Afleiðingin varð sú, að skipun okkar bankamála var reist á rammskökkum grundvelli. Það sjálfsagða var að stofna sjerstakan seðlabanka, sem væri í persónusambandi við fasteignabankann. En eins og kunnugt er var vikið frá þessari braut og Landsbankinn var gerður að seðlabanka, en fasteignalánum skift niður á ótal hendur, og enginn veit hvað margir fasteignabankar verða hjer áður en lýkur. — Það er áreiðanlega betra að hlusta varlega eftir hinum erlendu ráðleggingum.

Háttv. flm. sagði, að jeg gæti með afstöðu minni í gengisnefndinni ráðið því, að íslenska krónan yrði ekki hækkuð, þó að Alþingi setti engin lagaákvæði um það. Þetta leyfi jeg mjer að efast um. Það er ekki nóg að skrá gengið í einhverju verði. Ef það vantar kaupanda að erlendum gjaldeyri með því skráða verði, þá hækkar krónan í verði og skráningin ein dugar þá ekki til að stöðva breytingarnar á gjaldeyrinum. Þetta kom í ljós árið 1925, þegar hin mikla gengishækkun átti sjer stað. Landsbankinn treysti sjer ekki til að halda áfram að kaupa pundin með hinu skráða verði, og afleiðingin varð auðvitað hækkun krónunnar. Þetta getur enn komið fyrir. Ef það kemur í ljós, að stjórnin hefir ekki nægilegt fylgi í þinginu til þess að koma stýfingarfrv. í gegn, þá er alls ekki víst að hún hafi kraft til þess að halda föstu gengi krónunnar og sporna við því, að hún hækki. Ef mjög mikið berst að af pundum og Landsbankinn treystir sjer ekki til að kaupa pund með því verði, sem nú er — hvað skeður þá?

Háttv. flm. vjek að því, er jeg sagði í minni ræðu, að jeg byggist varla við, að Íhaldsflokkurinn hefði svo mikla ást á stjórninni, að hann mundi þess vegna styðja þetta frv. og með því vildi hv. þm. gefa í skyn, að jeg áliti, að Íhaldsflokkurinn ætti að vera á móti málinu af stjórnarandstöðu, af því að það væri komið frá stjórninni. En jeg miðaði umsögn mína auðvitað við skoðanir íhaldsflokksins á málinu og bjóst við, að þær væru óbreyttar. En hafi flokkurinn skift um skoðun, þá má hann ekki láta afstöðu sína til stjórnarinnar ráða framkomu sinni í málinu. Það verður hver að fylgja stefnu sinni í því, hvaða stjórn sem er við völd í landinu.

Jeg hefi ekki dregið dul á það nú, nje í fyrri ræðu minni, að það væru miklir örðugleikar á því að hækka krónuna upp í sitt fyrra gullverð. Allir, sem fylgst hafa með því, sem skeð hefir, vita það. En jeg álít hinsvegar, að þeir örðugleikar sjeu ekki svo miklir, að sú þjóð, sem er eins vel á vegi stödd og Íslendingar eru nú, og á svo mikla möguleika fólgna í skauti landsins, hún hafi nokkra ástæðu til að gefast upp á hækkunarbrautinni.

Háttv. flm. sagði, að við mættum ekki altaf vera að hugsa um það eitt, hvað aðrar þjóðir segðu um gerðir okkar í þessu máli á eftir. En í svona máli er ómögulegt að komast hjá því að hlusta á, hvernig þær dæma um ákvarðanir okkar. Sjerstaklega vegna þess, að lánstraust þjóðarinnar út á við er svo mikið komið undir áliti erlendra fjármálamanna á okkur. Jeg er í engum vafa um það, að svo framarlega sem við höldum ekki áfram að hækka krónuna, þá verður það álitinn vottur um innri veiklun, eða að þjóðina skorti siðferðislegt þrek til að standa við skuldbindingar sínar.

Hv. flm. sagði, að jeg hefði verið að tala um þjóðarmetnað í þessu máli, og ljet þess getið, að þjóðarmetnaður minn væri hægfara, þar sem jeg hefði eigi framfylgt örari hækkun krónunnar. En ástæða mín fyrir því er sú, að jeg vildi að við ljetum okkur víti annara þjóða til varnaðar verða. Jeg hefi álitið, að viturlegasta lausnin á þessu máli væri sú, að ná því marki, sem þjóðarmetnaður okkar krefst, með gætilegri, hægfara hækkun. Þá mundu atvinnuvegirnir og þjóðin yfirleitt, verða minst vör við gengishækkunina. Jeg geri ráð fyrir, að frv. fari til nefndar, og jeg set mig alls ekki á móti því, að svo stórt mál sem þetta sje rannsakað í nefnd. En jeg þykist vita, að ef nógu ítarleg rannsókn fengist á þessu máli, og fjöldinn fengi að kynna sjer það betur en kostur hefir verið á, þá yrðu skoðanir manna nokkuð á annan veg en þær eru nú. Þekking manna á málinu er of lítil, enda hefir það, því miður, ekki verið rætt eins og skyldi.

Þó að hv. flm. vildi ekki gera mikið úr þeim þjóðarmetnaði, er jeg nefndi, þá er jeg viss um, að ekki er hægt að neita því, að þegar allar Norðurlandaþjóðirnar hafa náð gullmarki, þá verðum við taldir eftirbátar þeirra, ef við náum ekki sama marki. Það er full ástæða til þess fyrir okkur að hafa þetta hugfast. — Þó að hv. þm. geri lítið úr þjóðarmetnaði okkar, þá er það einmitt hann, sem oftast hefir reynst Íslendingum drýgstur; við höfum haft næma tilfinningu fyrir því, hvað heiður þjóðarinnar heimtar, og það er mjög mikils vert. Og ef þetta mál verður nógu rækilega rætt og skýrt, þá er jeg viss um, að metnaður þjóðarinnar verður vakinn í málinu, svo að hann bjargar henni frá að gefast upp að ástæðulausu.