25.03.1929
Neðri deild: 31. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í C-deild Alþingistíðinda. (3055)

65. mál, myntlög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það eru þegar orðnar langar umr. um þetta mál, og jeg ætla því ekki að lengja þær mikið. Jeg geri ráð fyrir, að hv. andstæðingar þessa frv. hafi nú lokið við að tína fram þær ástæður, sem þeim hafa hugkvæmst gegn þessu frv., og þarf víst ekki að búast við neinum nýjum, markverðum röksemdum frá þeirra hlið úr þessu. Með þessu er ekki sagt, að andmælin, sem komið hafa fram við þessa umr. gegn frv., hafi verið svo sjerlega veigamikil eða þung á metunum. Þvert á móti. Það virðist svo, að andstæðingar málsins hafi reynt að halda því of fjarri veruleikanum, og flutt það inn á tilfinningasviðið. Frá þeim sjónarhól hafa þeir svo sett fram fullyrðingar, sem ekki eru á rökum bygðar, um svik við sparifjáreigendur, ríkisgjaldþrot, álitshnekki hjá erlendum þjóðum o. fl. þesskonar. Þetta eru enganveginn nýjar staðhæfingar, þær eru allar margsagðar og marghraktar áður.

Það sem hjer kemur aðallega til greina er það, hvað verður, ef verðfesting fer fram, og hvað gerist, ef krónan er hækkuð. Í fyrra tilfellinu gerist ekki neitt, það verður alveg sama ástand og áður. Enginn verður var neinna missmíða eða byltinga á verðlagi. Núverandi ástand þekkja menn, og þjóðin er farin að byggja sínar framtíðarfyrirætlanir og atvinnuvegi á því. Gengið hefir staðið óhreyft í 3½ ár, og það hefir verið samkvæmt ákvörðun Alþingis, og eftir afskiftum undanfarinna þinga af málinu, má gera ráð fyrir að ætlast sje til þess, að alt sitji við það sama framvegis. Hv. þm. Dal. vildi halda því fram, að afstöðu Alþingis bæri svo að skilja, að ætlast væri til hækkunar. Er það fjarri rjettu lagi, því að miklu fremur má lesa það út úr ákvörðunum þingsins, að ekki eigi að breyta til frá því sem nú er í framtíðinni. Þjóðarbúskapurinn hefir lagað sig eftir verðlaginu, og með því fengist nokkurt samræmi í verðlagið innanlands. Um afstöðuna til skulda ríkisins í útlöndum þarf jeg ekki að tala. Það er búið að margsanna það, að ríkissjóður stendur þar við allar sínar skuldbindingar. Gengismálið er því algert innanríkismál, sem við getum ráðið til lykta eingöngu eftir eigin geðþótta.

Þá er hin spurningin. Hvað gerist, ef ákveðið er að hækka krónuna upp í gullgildi? Það er játað af öllum, að það mundi valda truflunum á öllu verðlagi í viðskifta- og atvinnulífi þjóðarinnar. Framkvæmdafyrirtæki mundu bíða þann hnekki, sem þau gætu ekki rönd við reist, og mörg þeirra falla í rústir. Skuldir frá lággengisárunum og þeim tíma, sem nú er að líða, mundu hækka stórkostlega, þar sem greiða ætti með stærri krónu heldur en út var lánuð. Atvinnuvegirnir kæmust í ný vandræði, og bankarnir ættu ilt með að standa straum af hækkuninni. Allir vita, hvað atvinnuvegirnir og bankarnir hafa liðið við gengishækkunina á síðari árum, og eru þeir alls ekki búnir að ná sjer svo nú, að þeir sjeu færir um að taka á móti nýrri hækkun. Ef hækkunarstefnan væri látin ráða, mundu framkvæmdirnar stöðvast og atvinnuvegirnir lamast um ófyrirsjáanlegan tíma.

Þetta er í rauninni játað af öllum, líka flestum hækkunarmönnum, en þeir reyna að breiða yfir sannleikann aðallega með tvennu móti. Fyrst og fremst með því, að gera sem minst úr þessu, og í öðru lagi með því, að halda því fram, að ef krónuhækkunin sje nógu hægfara, þá verði menn hennar lítt varir. Þessi hægfara hækkun, sem þeir lofa svo mjög, er barnaskapur, því að þegar ákveðið er, að hækkun skuli framkvæmd og krónan er farin að hreyfast, megum við vera þess fullvissir, að við missum tökin á hækkuninni, og krónan getur farið upp í gullgildi á stuttum tíma. Við höfum dæmið fyrir okkur, þar sem hvorki Danir nje Norðmenn gátu haft hemil á hækkuninni hjá sjer, og eru ekki líkur til þess að okkur takist betur, þar sem við erum færri og máttarminni. Afleiðingunum af þessari hraðfara hækkun þarf jeg ekki að lýsa, enda hefi jeg tekið þær fram áður.

Í sambandi við hækkunina hafa hv. andmælendur þessa frv. talað mikið um það rjettlæti, sem felist í hækkuninni, en halda því hinsvegar fram, að með verðfestingu sje framið ranglæti. Sannleikurinn er sá, að hvaða leið, sem farin er í þessu máli, er engu fullkomnu rjettlæti hægt að ná, en rjettlæti og ranglæti getur verið misjafnlega mikið. Fyrir okkur, sem veljum þá leiðina er í frv. felst, vakir, að stöðva það, að ranglætið aukist frá því, sem orðið er nú, og með því gefa rjettlætinu meiri byr í seglin. Ef krónan er hækkuð, er verið að taka frá þeim, sem ekkert eiga, og gefa hinum efnaðri, því að þá hækkar inneign þeirra, sem lögðu inn í bankana þegar krónan var í lægra verði og hafði minni kaupmátt.

Undanfarin ár hefir verið mikill framfarahugur í mönnum, og hafa mörg stór fyrirtæki hlaupið af stokkunum. Lánsstofnanir hafa risið upp til þess að ljetta undir með fólkinu, sem rekur atvinnu í stærri stíl. Þessar lánsstofnanir eru t. d. veðdeildin, Ræktunarsjóðurinn og Byggingar- og landnámssjóður. Þeir menn, sem fengið hafa fje að láni í þessum stofnunum til aukinna framkvæmda, eru sviknir með hækkun krónunnar, þar sem þeir verða að borga aftur með stærri krónum en þeir fengu upphaflega. Ef hækkunarstefnan verður ráðandi má gera ráð fyrir þjóðarböli, og meira böli heldur en því, sem beinlínis snertir gjaldeyrinn sjálfan.

Ef krónan verður hækkuð, má búast við, að við verðum heimsóttir af meira böli en áður, hvað kaupdeilur snertir. Hækkun krónunnar hlýtur óhjákvæmilega að hafa nýjar kaupdeilur í för með sjer. Með þessu er ekki sagt, að kaupdeilur geti ekki komið fyrir, án þess að hækkun eigi sjer stað, en víst er um það, að hækkun yrði til að auka á slíkar deilur og þau vandræði, sem af þeim leiða.

Mjer virðast hækkunarmenn horfa of mikið til baka í þessu máli. Þeir vilja fórna áframhaldandi þróun atvinnu- og viðskiftalífs þjóðarinnar á altari smávægilegs metnaðar um sameiginleg myntlög fyrir okkur og nágrannaþjóðirnar á Norðurlöndum. En fólkið vill horfa fram og sækja fram á sviði atvinnulífs og viðskifta. Þá er krónuhækkunin hættulegur Þrándur í Götu á þeirri leið. Og í mínum augum er framþróun athafnalífs þjóðarinnar stórum veigameira atriði heldur en það, hvort okkar gullkálfur er nákvæmlega eins skapaður og gullkálfur nágrannaþjóðanna, og jeg sje ekki, að miklu máli skifti, þó að rófan á okkar gullkálfi sje ögn styttri en á gullkálfum þeirra.

Jeg sje enga ástæðu til að fara út í sjerstök andmæli, sem komið hafa fram gegn frv. Hv. flm. (ÁÁ) hefir fullkomlega haldið sínum hlut í þeirri viðureign og mun gera það framvegis.

Það er svo að sjá, að íhaldsflokkurinn og jafnaðarmenn, sem aldrei eru sammála um neitt, ætli hjer að blanda blóði til andstöðu. Þó skilst mjer, að hvatirnar sjeu ekki af sömu rótum runnar hjá báðum.

Mjer hefir skilist, að háttv. 1. þm. Reykv. (MJ) hafi haft aðalframsögu af hálfu Íhaldsflokksins í þessu máli: (MJ: Nei, jeg hefi enga framsögu haft, heldur aðeins talað fyrir sjálfan mig.) Aðstaða hans eða Íhaldsflokksins mótast í þessu máli á rótgróinni trú á hið gamla og takmörkuðum skilningi á framsækni lífsins. En fyrir jafnaðarmönnum virðist vaka það eitt, að með hækkun krónunnar hepnist að halda kaupgjaldinu um stund í óeðlilega háu hlutfalli við kaupgetu framleiðslunnar. En af því stafar auðvitað aukin hætta af verkföllum og þeim vandræðum, sem af þeim stafa. En samt geta þessir tveir andstæðingar tekið höndum saman í þessu máli.

Hv. þm. Dala. (SE) sagði, að hækkun krónunnar fylgdi vitanlega áreynsla fyrir atvinnuvegina og lánsstofnanirnar, og hvíld væri nauðsynleg eftir þessa áreynslu. Taldi hann heppilegast, að krónan væri hækkuð í smá stökkum, og þjóðin fengi að hvíla sig á milli. Um þetta er hægt að tala, en slíkt er með öllu óframkvæmanlegt. Mjer heyrðist á hv. þm. Ísaf. (HG) að hann áliti, að hækka hefði átt krónuna meira eða minna síðastliðið ár. En hv. þm. Dal. sagði að hvíldin væri ekki orðin nógu löng enn þá frá síðustu hækkun. Þetta er dálítið erfitt að samríma, og virðist ekki gott að vita, hvenær hv. þm. Dal telur hentugt fyrir atvinnuvegina og bankana að krónan taki að hækka. Hann virðist, satt að segja, kvíða fyrir þeirri stund. Hann er eins og barn, sem viðurkennir, að laxerolía sje góð, en vill þó bíða með inntökuna til morguns. (SE: Barn viðurkennir aldrei, að laxerolía sje góð.) Það getur viðurkent, að hún hafi góðar afleiðingar. Börnunum er sagt það og þau trúa því, og eins fer hv. þm. Dal. í þessu máli. En annars held jeg að hann sje nú á leiðinni að verða festingarmaður. Eftir því sem krónan er lengur búin að vera í föstu gengi, því meiri fjarstæða er að hækka hana. En hv. þm. hefir viðurkent að hækkuninni fylgi svo mikil áreynsla fyrir atvinnulíf og lánsstofnanir, að hún verði þeim ofviða í stórum stíl, og verði því að taka hana með hvíldum. En jeg get sagt hv. þm. Dal. það, að þegar krónan fer að hreyfast á annað borð, þá verður það stökk svo stórt, að hætt er við að sumar stofnanir taki síðustu hvíldina á eftir, og vildi jeg óska, að stofnun sú, er hv. þm. veitir forstöðu, væri svo sterk, að hækkunin legði hana ekki til hinstu hvíldar.

Jeg læt þessi fáu orð nægja í bráðina. Jeg býst við að málið fari að verða fullrætt við þessa umr. og að tækifæri verði til að tala nánar um það við 2. umr. ef þörf gerist.