25.03.1929
Neðri deild: 31. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í C-deild Alþingistíðinda. (3056)

65. mál, myntlög

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg tel rjett, að jeg taki nú til máls, þar sem flestir andmælendur frv. hafa þegar flutt mótbárur sínar.

Það er sameiginlegt með öllum andmælendum mínum, að þeir hafa byrjað á afstöðu stjórnarinnar til frv. Það er rjett, eins og ræða hæstv. fjmrh. (EÁ) sýndi, að stjórnin stendur á bak við frv., eða öllu heldur Framsóknarflokkurinn. Það er og rjett, að óvíst er um örlög þessa máls. En hitt er ekki rjett, sem hv. þm. Dal. hlakkaði yfir og kveið fyrir á víxl, að óvíst væri um áframhaldandi skráning núverandi gengis, ef frv. yrði felt. Hv. þm. Ísaf. (HG) tók rjettilega fram, að stjórnin hefir skráning gengisins í hendi sjer. Stjórnin hefir skráninguna í hendi sjer og mun hafa, meðan hún situr. En Framsóknarflokkurinn vill með þessu frv. lögfesta núverandi gengi svo að aðrir fái ekki síðar aðstöðu til að breyta því gengi, sem stjórn hans hefir borið gæfu til að halda föstu til þessa.

Í gengisnefnd eiga nú sæti: einn fulltrúi fyrir landsstjórnina og fulltrúar fyrir sinn hvorn bankann. Nú vill landsstjórnin halda genginu föstu, og meiri hluti bankastjórna beggja bankanna er á sömu skoðun. Mætti því ætla, að trygt væri, að núverandi gengi yrði haldið föstu, hvort sem frv. verður afgreitt eða ekki.

En þó svo færi sem vart er hugsanlegt, að meiri hluti gengisnefndar skyldi bregðast, þá er landsstjórninni opin sú leið, að taka ábyrgð á gjaldeyrisversluninni, eins og hv. 3. landsk. (JÞ) gerði 1925 og með sömu heimild. Með því er trygður öruggur kaupandi að erlendum gjaldeyri og ríkissjóði engin hætta búin, nema sú, er honum kann síðar að verða sköpuð af hækkunarmönnum er þeir komast til valda, en þeim er í sjálfsvald sett, hvort þeir láta ríkissjóð verða skaðlausan eða baka honum tjón.

Allur þingheimur veit, að þannig stendur gengismálið hjá þeim aðiljum, sem þingið hefir falið umráð skráningarinnar. Ef þingið er ósamþykt þeirri stefnu, sem nú er fylgt af þessum aðiljum, verður það að taka jákvæða ákvörðun um það á þessu þingi, annaðhvort skifta um stjórn eða taka af henni ábyrgðarheimildina og skifta um gengisnefnd. (SE: Hvar er sú heimild?) Hún er í gengisnefndarlögunum, og ætti hv. þm. að vera kunnugt um hana, því að hann var í gengisnefnd, er henni var beitt í fyrsta skifti, og áfeldist þá ekki þá ráðstöfun. En hvort sem frv. verður samþykt eða ekki, kemur ekki fram jákvæður hækkunarvilji hjá þinginu, ef ekkert er að gert til að koma í veg fyrir festingarráðstafanir núverandi stjórnarvalda.

Hv. þm. Dal. þarf því engan kvíðboga að bera fyrir stjórninni eða gengisbreytingum, meðan hún situr, þótt frv. verði ekki samþykt. Og þar sem stefna Framsóknarflokksins í gengismálinu er þannig trygð, a. m. k. til næstu kosninga, þá er engin ástæða til að flýta kosningum vegna þessa máls — síst þar sem stefna Framsóknarflokksins stendur því betur að vígi sem lengra líður frá síðustu gengisbreytingum.

Þá skal jeg víkja að hinum almennu mótbárum — eða viðbárum — hækkunarmanna.

Hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Dal. sögðu, að jeg legði minni áherslu nú en áður á að verkföll og atvinnuleysi leiði óhjákvæmilega af gengishækkun. Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að verkföll hefðu átt sjer stað bæði fyr og síðar, og hv. þm. Dal. sagði, að nú hefði eitt hið harðvítugasta verkfall. staðið í 3 mánuði, þrátt fyrir þriggja ára fast gengi.

Mjer hefir aldrei dottið í hug að halda því fram, að gengisbreytingar væru hin eina orsök verkfalla og kaupdeilna. Jeg hefi sagt að þær væru eina af orsökunum. Það afsannar alls ekki, að hiti fylgi lungnabólgu, þó að hiti sje algengur í sambandi við aðra sjúkdóma. Spyrjið hv. þm. Ísaf., hvað hann segi um verkföll í sambandi við hækkun krónunnar. Var hann ekki að tala um „viðspyrnu verkalýðsins gegn kauplækkunartilraunum“ og ætlaðist hann ekki til, að verkalýðurinn græddi á hækkun krónunnar með því að halda óbreyttu nafnverði kaupsins, þó kaupmáttur þess færi vaxandi? Þessir hv. þm., þm. Dal., þm. Ísaf. og 1. þm. Reykv., geta nú allir verið í sömu kröfugöngu gegn verðfestingunni, enda þótt þeir fari í hár saman undir eins og búið væri að hækka.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að jeg hefði ekki talið þá röksemd gegn hækkun krónunnar, að Norðmenn stæðu betur að vígi á fiskmarkaðinum, ef hækkun yrði hjá okkur, vegna þess að þeir hefðu orðið á undan okkur að hækka krónu sína upp í hið gamla gullgildi, og framleiðslukostnaður okkar yrði því hærri. Jeg get sagt hv. þm. það, að það er svo margt sem mælir með festingu krónunnar, að jeg hefi ekki komist yfir að telja nema höfuðástæðurnar. En hvers vegna mundi hækkunin valda örðugleikum í samkepni við Norðmenn og hækka framleiðslukostnað okkar móts við tilkostnað þeirra? Ætli það sje ekki vegna „viðspyrnu“ hv. þm. Ísaf.? Er ekki hv. 1. þm. Reykv. með þessu að sanna, að verkföll, verkbönn og atvinnuleysi muni sigla í kjölfar gengishækkunar? Ummæli eins og þau annars vegar, að verkföll komi hvort sem er, og stafi aldrei al gjaldeyristruflunum, og að við hinsvegar stöndum höllum fæti vegna aukins framleiðslukostnaðar, minna mann á andatrúarfund, þar sem sama röddin hljómar úr öllum áttum.

Gengishækkun þýðir það, að um leið og krónan hækkar, verður vöruverð og kaupgjald að lækka að sama skapi, ef hækkun gengisins á að verða varanleg. Af þessu leiðir ávalt verkföll, verkbönn, kreppu og atvinnuleysi. Þessu má enginn leyfa sjer að neita. En háum framleiðslukostnaði, atvinnuleysi og minkandi framleiðslu fylgir það, að mörg fyrirtæki verða að hætta með öllu, eða draga stórum saman seglin. Og við hækkun gengis er sá ávalt hygnastur, sem dregur seglin sem mest saman, uns óveðrinu er slotað.

Hv. þm. Ísaf. kallaði það „hreinsun“, að fyrirtæki yrðu að gefast upp sökum hækkunarinnar. Jeg geri ekki ráð fyrir, að þeir, sem missa atvinnu sína af þessum orsökum, taki undir með honum. Þau fyrirtæki, sem falla fyrir sigð hækkunarinnar, falla ekki fyrir sverði rjettlætisins. Þau, sem svo eru stödd, að þau eigi að velta, þurfa ekki gengishækkunar með til þess að safnast til feðra sinna.

Það er hægt um vik að kalla þá „braskara“, sem hníga undir skuldabyrðinni af völdum krónuhækkunarinnar, atvinnurekendur og bændur, sem ekki hafa annað unnið til saka en að reka atvinnu sína undir ranglátri stjórn peningamálanna. Það er eins og einhver sagði um þessa menn. Þeir eru kallaðir „smart“, þegar vel gengur, en „braskarar“, þegar illa lætur í ári. En það bætir ekki atvinnuleysið, að klína „braskara“-nafni á píslarvotta hækkunarstefnunnar.

Með þeirri hækkun, sem eftir er að framkvæma, ef sú leið er farin, færist 10 milj. skuldabyrði yfir á herðar útgerðar og landbúnaðar, til hækkunar á sparifje, sem engan rjett hefir til hækkunar, og þaðan af meira til hækkunar á öðru lánsfje sem þessir atvinnuvegir starfa með. Þessi byrði lendir á atvinnurekendum til lands og sjávar og verkalýð, sem missir atvinnu sína vegna kreppunnar. Það má auðvitað segja um þessa menn, að þeir sjeu „braskaralýður“ sem engan rjett eigi á sjer. En það er lítil huggun, nema þá fyrir þá, sem valdir eru að hækkuninni. Þeir verða orðnir margir „braskararnir“ áður en lýkur.

Ástandið batnar ekki við það, að bankarnir verða að halda háum vöxtum, meðan á hækkuninni stendur. Í fyrsta lagi verða þeir að gera það til þess að fá eitthvað upp í töp þeirra fyrirtækja, er falla í valinn, og í öðru lagi til að halda seðlaútgáfunni innan þröngra takmarka. Aðra vaxtapólitík geta bankarnir ekki haft. Þeir verða að hlaða háum vöxtum ofan á aukna skuldabyrði atvinnurekenda.

Jeg tala um ranglæti í þessu sambandi, enda þó að hv. 1. þm. Reykv. segði í sinni ræðu, að ranglæti eða rjettlæti kæmi þessu máli ekki við. Hv. þm. talaði um, hve mikið ranglæti hefði átt sjer stað í fortíðinni vegna gengisbreytinga. Var ekki hægt að skilja hann öðruvísi en svo, að hann ætti við, að úr því að svo mikið ranglæti, sem ekki væri hægt að bæta úr, hefði átt sjer stað í sambandi við eldri gengisbreytingar, færist engum að tala um rjettlæti í sambandi við gengismál. Hjelt jeg þó að nógu skýrt væri tekið fram í greinargerð frv., að enda þótt ekki verði bætt alt það ranglæti, sem liðið er, sje ætlunin sú, að koma í veg fyrir ranglætið í framtíðinni. Hv. 1. þm. Reykv. fullyrðir, að í fyrsta lagi komi rjettlæti þessu máli ekki við, og í öðru lagi hafi gífurlegt ranglæti átt sjer stað vegna gengisbreytinga, og í þriðja lagi sje það „honesty“ — eða rjettlæti — að hækka nú krónuna upp í sitt gamla gildi.

Þessar þrjár forsendur hv. þm. minna á manninn, sem ákærður var fyrir að hafa brotið ílát, er hann fjekk að láni, og afsakanir þær, er hann hafði fram að færa, en þær voru þessar: „í fyrsta lagi fjekk jeg ílátið aldrei lánað, í öðru lagi var það brotið, er jeg tók við því, og í þriðja lagi var það heilt þegar jeg skilaði því aftur.“

Jeg leyfi mjer að sannfærast ekki um, að hjer sje óviðeigandi að tala um rjettlæti vegna þess, hve mikið ranglæti sje áður búið að fremja með gengishækkunum. Yfirleitt er hækkunarmönnum óheimilt að nota orðtækið „Honesty is the best policy“, sem hv. 1. þm. Reykv. vildi gera að einkunnarorðum hækkunarstefnunnar. Það er sá, sem hefir fengið 80 kr. að láni og á það á hættu að vera krafinn um 100 kr. sem einn hefir rjett á að taka sjer þau orð í munn. Hann hefir ástæðu til þess að koma til ríkisvaldsins með þessa setningu á vörunum og heimta, að ríkisvaldið sjái um, að hann sje ekki beittur ranglæti, svo að hann sjálfur geti verið heiðarlegur.

Hv. 1. þm. Reykv. hafði enn einn pistil til þess að lesa yfir þessum aumingja manni, sem á að borga 100 kr. fyrir hverjar 80. Hann segir, að það verði allir atvinnuvegir að ganga í gegnum örðugleika, það væri t. d. æskilegt, að það væri heitara hjer á landi en raun er á, en kuldinn skapi þrótt o. s. frv. Hv. þm. hefir í þessu sambandi lagt út af guðspjallinu um „The Survival of the fittest“. Alt sje þetta til þess að þroska vesæla menn — þeir eigi að sækja á brattann, og megi ekki gefast upp. Þetta hljómar ekki óáheyrilega og kann að virðast nógu hreystilega mælt. En einhvern veginn er það þannig, að menn leggja ekki á sig örðugleika nema til einhvers sje að vinna, og fæstum mun finnast ástæða til þess að búa til örðugleika ofan á þá, sem móðir náttúra leggur á götu vora. Hjer við bætist svo, að það sækja ekki allir á brattann fylktu liði, undir göfugu merki. Nei, þannig er ekki fylking sú, er sækist eftir gullkrónunni. Skuldunautarnir, hið starfandi afl í landinu, verða að draga lánardrotnana, hið dauða fjármagn, á eftir sjer upp á fjallið. Slík er sú skrúðganga! Þegar upp er komið hampar hið dauða fjármagn sinni „stóru gullkrónu“, eins og hv. þm. Dal. kemst að orði, framan í framleiðsluna, sem sest aðgerðarlaus og blæs af mæði.

Væri nú ekki kristilegra fyrir hv. 1. þm. Reykv. að segja nokkur vel valin orð við þá, sem í vagninum sitja, um það, hvað það sje holt að ganga, þó ekki væri nema á jafnsljettu og undir sjálfum sjer, en að eyða mælsku sinni í það, að lesa yfir hinum, sem Vagninn draga, hvílík guðsblessun það sje, að mega sækja á brattann með sem mest í eftirdragi!

Þá hjelt hv. þm. Ísaf. því fram, að verkamenn og aðrir launamenn, sem urðu fyrir halla af minkandi kaupmætti krónunnar, geti náð aftur ógoldnu kaupi sínu með hækkun krónunnar, og þá helst, ef hækkunin tæki jafnlangan tíma og lækkunin. Gengis- og verðlagstruflanir væru þá einfalt mál, ef hægt væri að snúa öllu aftur á bak, eins og þegar fata, sem sökt hefir verið í brunn, er undin upp aftur full af svalandi vatni. Ef þetta væri svona einfalt mál, þá skyldi jeg ekki deila á hækkunarstefnuna. Hins vegar fæ jeg þá ekki skilið, hvers vegna hinir miklu verkamannaforkólfar, bolsevíkar Rússlands, sem tóku við gjaldeyri sínum í því ástandi, að 100 pappírsrúblur svöruðu til einnar gullrúblu, festu hann 1923, þegar 100 miljónir pappírsrúbla þurfti til að jafngilda 1 gullrúblu, í stað þess að vinda hjól lífsins aftur á bak, svo að verkalýðurinn fengi rjettlátlega útmælt hið ógoldna kaup. (HG: Þetta er ekki sambærilegt.) Jú, það er sambærilegt, því þó bolsevikar greiði máske nú sæmilegt kaup, þá vantar þó alveg endurgreiðslu ógoldna kaupsins, þar sem þeir höfðu ekki ráð hv. þm. Ísaf. í meðferð hins rússneska gengismáls. Nei, gengisbreytingar eru ekki svona einfalt mál. Sannleikurinn er sá, að hækkun og lækkun kaupmáttar, eða gengis, skapar hvorttveggja ranglæti — þó óskiljanlegt megi virðast þeim, sem óvanir eru að hugsa um þessi efni — og ranglæti verður aldrei bætt með ranglæti!

Tímakaup mun lengst af frá 1914 hafa fylgt verðlaginu nokkurn veginn, þótt það um skeið yrði dálítið aftur úr. Nú er það fyrir ofan verðlagið. Tímakaup er nú þrefalt á við það sem var 1914, en verðlagið ekki nema rúmlega tvöfalt. Eitthvað af „ógoldna“ kaupinu hlýtur því að vera þegar endurgreitt, ef hægt er að tala um endurgreiðslu í þessu sambandi.

Raunveruleg gengishækkun þýðir það, að kaupið verður að lækka með öllu öðru verðlagi. Ef krónan á að fá aukinn kaupmátt, verður hún að geta keypt meiri vinnu eins og meiri vörur. Við þá baráttu, sem nauðsynleg er til að breyta hækkun á skráðu gengi í aukinn kaupmátt krónunnar, jetst mismunurinn, ef einhver er, fljótlega upp af húsaleigu og sköttum, sem fellur enn tregara en verkakaupið — að ógleymdu atvinnuleysinu. Hugsum okkur tjónið af atvinnuleysinu og kaupdeilunum, alt það verðmæti, sem látið er ógert að skapa, en framleitt hefði verið, ef verkamenn og atvinnurekendur hefðu búið við öruggan gjaldeyri! Afleiðing gengishækkunar er, að þjóðin í heild sinni verður fátækari en hún hefði getað verið á verðföstum tímum.

Gengislækkun og gengishækkun er ekki sama og að ganga inn um dyr og svo út um þær aftur. Kaupið hlýtur að lækka fyrir gengishækkun, ef hún á að verða varanleg. En jeg skal benda hv. þm. Ísaf. á annað, sem ekki lækkar. Það er fjármagnið, sparifjeð, sem hefir hækkað um 22%, „kapitalið“, sem jafnaðarmenn hafa hingað til ekki talið sinn aldavin, lækkar ekki aftur. Það er staðreynd, að gengishækkunin gerir þá ríku ríkari, og þá fátæku fátækari, — hið dauða fjármagn hækkar í gildi, en hverjir borga? Atvinnulífið í landinu!

Þetta skildu jafnaðarmenn í Noregi. Í áliti þeirra frá því í fyrra, þar sem þeir mótmæltu hinni „stóru gullkrónu þjóðarmetnaðarins“, stendur meðal annars: „Það segir sig sjálft, að hin mikla hækkun gjaldeyrisins hefir sett fjárhagsástandið úr jafnvægi og haft í för með sjer hinar mestu truflanir: fjárhagskreppu, stórfelt atvinnuleysi, sem lítur út fyrir að verða varanlegt, gífurlega aukningu á skuldum og skattabyrðum hins vinnandi fólks.“ Þeir segja ennfremur: „Arðskröfur fjármagnsins hafa aukist stórum og hluttaka hins starfandi fólks í arðinum af framleiðslunni hefir minkað að sama skapi.“

En þótt sýnt sje skýrum stöfum fram á það, að með verðfestingu gjaldeyris verði mestu rjettlæti náð í framtíðinni meðal þegnanna, og bestum arði fyrir alla, sem nálægt framleiðslu koma, jafnt verkamenn og atvinnurekendur, vegna þess öryggis, er fastur gjaldmælir skapar, þá eru formælendur hækkunar hjer í deildinni eigi af baki dottnir. Þá úthella þeir tárum sínum yfir þann álitshnekki og lánstraustsspjöll, sem „þessi litla þjóð“ úti á hala veraldar verður fyrir erlendis. Og sýni menn svo álit erlendra sjerfræðinga í þessu efni, þá segir hv. þm. Dal. og hv. 1. þm. Reykv. að það sje ekkert að marka, hvað þessir erlendu sjerfræðingar segja. Nei, það er „dómur útlendinga um þessa litlu þjóð, sem hafi orðið að gefast upp við að sækja á brekkuna sem við viljum hlusta á,“ segja þeir. Mjer er ekki fullljóst, hvernig jeg á að skilja þetta. Það hlýtur að vera ágallinn, að hjer er um sjerfræðinga að ræða. Jeg játa það, að jeg gætti þess ekki, að leita til fáfræðinga, en það er mála sannast, að þeir hrópa hæst og kyrja gullkrónugloríur — einnig erlendis.

En áður en jeg vík nánar að álitum þessara sjerfræðinga vil jeg segja hv. þm. Dal., að hjer er ekki um að ræða að gefast upp við neitt. Það er sannarlega ekki fyrst og fremst vegna örðugleikanna á að sækja á brattann, að lagt er til að krónan verði verðfest með lögum. Framsóknarflokkurinn hefir aldrei ætlað sjer að lyfta krónunni upp í sitt gamla gildi og gefst því ekki upp við neitt slíkt. Þjóðin hefir heldur ekki gefist upp, því að hún hefir aldrei ákveðið að koma krónunni upp í gullgildi. Hitt kemur manni minna við, þótt hv. þm. Dal. hafi haft aðra stefnu, en ekki heldur hann gefst upp, meðan hann spyrnir á móti broddunum. Við teljum ekki æskilegt að hækka krónuna, enda þótt það væri auðveldara en það er, vegna alls þess misrjettis, sem slíkt hefir í för með sjer. Það eru ekki örðugleikarnir út af fyrir sig, sem valda okkar stefnu, heldur hitt að við viljum ekki að þjóðin leggi á sig örðugleika til að skapa misrjetti meðal þegnanna. Það er sannarlega nóg fyrir. Og við hv. 1. þm. Reykv. vil jeg segja það, að hjer er ekki að ræða um neinn skort á vilja til þess að standa við skuldbindingar. Íslenska ríkið svíkst ekki um neitt, þótt krónan verði verðfest, það græðir ekkert og tapar engu. — Hækkunarmenn, t. d. hv. 3. landsk., mæla bót ríkjum, sem þurftu að festa gjaldeyri sinn, meðal annars vegna þess, að þau gátu ekki greitt ríkisskuldir sínar ef gjaldeyririnn hækkaði, eins og t. d. Frakkland. Um þau ríki er alt öðru máli að gegna. Þau eru ekki ámælisverð, að þeirra dómi. En um okkur, sem viljum festa án nauðsynjar ríkissjóðs vegna þegnanna, segja þeir, að við „sýnum ekki nægan vilja til þess að standa við gerðar skuldbindingar“ og að hjer sje um „sviksamlegt gjaldþrot ríkisins“ að ræða. Þessi orðatiltæki hækkunarmanna styðjast við engin rök. Sá, sem í þessu sambandi talar um „skort á vilja til þess að standa við gerðar skuldbindingar“, getur ekki staðið við orð sín, sem eru ein tegund skuldbindinga. Og sá, sem talar um „sviksamlegt gjaldþrot“ þjóðar sinnar í þessu sambandi, er kominn í sviksamleg rökþrot.

Hvarvetna sem þess er getið í erlendum blöðum, að eitthvert ríki hafi fest gjaldeyri sinn, er það talið meðal gleðifregna. Það er hvergi nema hjer, að menn nota þessi sterku orð eins og grýlur til að hræða fólk, sem lítið vit hefir á þessum málum og litla möguleika til að kynnast áliti erlendra þjóða. — Og þeir, sem elska þjóð sína heitt og innilega, ættu síst að tala í þessum dúr.

Þegar svo þeir Moll, Adolf av Jochnich, Wallenberg og Krusenstjerna segja: Lánstraust ykkar er ekkert háð því, hvar þið festið krónuna, heldur möguleikum til endurgreiðslu og ávaxta, þá kemur hv. 1. þm. Reykv. og segir, að þetta sje bara vitleysa, hann þurfi ekki að láta þess útlendinga segja sjer neitt um það. Lánskjörin fari eftir því, hver leggi skjölin á borðið, og hjer sje um ríki að ræða, sem hafi ekki viljað standa við gefnar „skuldbindingar“, það hafi „gefist upp fjárhagslega“ o. s. frv., og það geti því ekki notið óskerts lánstraust. Þessum ágætu sjerfræðingum, sem auðvitað hafa fult vit á þessu máli, mun aldrei hafa komið til hugar, að um nein svik eða pretti sje að ræða í þessu sambandi. Og þeim hefði áreiðanlega ekki skotist yfir það, ef um nokkuð slíkt hefði getað verið að ræða. Þegar menn segja um svör þessara manna, að það sje ekkert annað en vitleysa, sem þeir segja, þá gera hv. þm. sjer varla ljóst um hverja þeir eru að tala, nje við hverja. — Þeir halda sennilega, að þeir sjeu að tala við kjósendur, sem eigi að heyra bergmálið af orðum þeirra, og varðveita þau. En hverjir eru mennirnir, sem þannig er talað um? Það eru nokkrir merkustu fjármálamenn Norðurlanda. Einn þeirra er eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum í Svíþjóð, annar forseti bankaráðsins, þriðji ríkisbankastjóri, fjórði auðugasti og mest metni einkabankastjóri á Norðurlöndum. Þetta eru mennirnir, sem hv. 1. þm. Reykv. segir um, að viti ekkert um lánsskilyrði og lánstraust.

Til samanburðar við þessi ummæli hv. þm., get jeg getið þess, að jeg kom í Englandsbanka og átti þar viðtal við Sir Ernst Harvey, head controller of the Bank of England, — en það er regla Englandsbanka, að láta ekki skriflegar umsagnir í tje, þegar erlendir stjórnmálamenn leita ráða hjá þeim um fjármál þjóðar sinnar. Er jeg sagði honum frá umsögnum Svíanna, varð honum að orði: „Það, sem Moll og Wallenberg segja ykkur að gera, getið þið örugt treyst að sje rjett.“ Það er eitthvað annað, hljóðið í Englandsbanka en ummælum hv. 1. þm. Reykv. um þessa sjerfræðinga.

Svo kemur hv. þm. Dal. Hann varðar ekki heldur um þektustu fjármálamenn þroskuðustu fjármálaþjóðar á Norðurlöndum. Og hvers vegna? Jú, vegna þess, að hann vill fara eftir því, sem „útlendingar“ segja um okkur á eftir, — en varðar þar af leiðandi ekkert um, hvað þeir ráðleggja okkur fyrirfram!

Þeir fá útreiðina hjer, þessir Svíar sem hafa ekkert unnið til saka, annað en að verða við þeim tilmælum, að láta álit sitt í ljós um gengismál okkar. En það mun þó varla vera ástæða fyrir þá að hryggjast, þótt jeg hryggist hins vegar yfir þessum ummælum. Því eins og sólin kemur upp, þótt enginn hani gali, þá munu þeir ekki eiga orðstír sinn undir árgölum gullkrónunnar hjer í deildinni.

Hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Dal. eiga bágt með að skilja það, að þessir sænsku bankamenn ráða okkur nú til að festa, en sjálfir fóru Svíar upp með sína krónu fyrir 5 árum. Þetta virðast þeir ekki skilja, og er það þó auðskilið. Í því felst engin mótsögn. Hin rjetta aðferð í gengismálum er ekki ein og hin sama, undir öllum kringumstæðum, heldur fer það eftir ástæðum, hvað er rjett að gera. Það er engin mótsögn í því, að það er heitt í dag, þó að það væri kalt í gær, eða að hann sje á sunnan í dag, þótt hann bljesi á norðan í gær! En hitt vilja þeir ekki skilja, að það er eins eðlilegt að breyting verði á aðstöðu manna til gengistruflana með tímanum. Það sem mestu ræður um rjetta aðferð, er tíminn, sem líður, og þær breytingar, sem hann hefir í för með sjer á gildi skuldbindinga, innstæðum og verðlagi. Fram að Genúafundinum, árið 1922, voru stefnur vart skýrar í gengismálinu. Fæstir stjórnmálamenn höfðu þá glöggar hugmyndir um eðli hins nýja viðfangsefnis. Næstu árin fer að rofa til. En þó vanst ekki nægur tími fyrir hinn rjetta skilning að ryðja sjer braut, fyr en eftir að margar þjóðir höfðu leyst málið með ýmsum hætti, heppilegum og óheppilegum. Það má vera okkur Íslendingum ljósast, að hinn rjetti skilningur var lengi á leiðinni, því hjer á landi var ekki talað um gengismálið með ljósum rökum, fyr en á þinginu 1925, og þó öllu heldur þinginu 1926. Líkt var það í Noregi; þar komst hinn rjetti skilningur ekki að, fyr en krónan var undir það komin í fult gullgildi. En hvað sem þessu líður, þá sýndu þó flestir hinir bestu menn Svía glöggan skilning á gengismálinu á undan öðrum þjóðum. Þeir hækkuðu sína krónu eingöngu af því, hvað skamt var um liðið frá því að hún fjell. Og þó hikuðu þeir. Ef lengur hefði dregist, nokkur ár eða svo, þá hefðu þeir orðið manna fyrstir til að fylla hóp þeirra þjóða, sem festu sinn gjaldeyri. Nú eru allar ástæður og þá um leið álit manna víða um lönd, gerbreytt frá því sem var fyrir 1926. Það er fagnað hverju nýju ríki, sem festir gjaldeyri sinn, án tillits til þess, hvar hann er festur. Þær þjóðir einar, er allra fyrstar voru til að hækka, Svíar, Bretar, Hollendingar og Svisslendingar, geta talist að hafa heiður af að fara upp í gullgildi, — hjá þeim voru fæstar skuldbindingar miðaðar við lágt gengi, — allar aðrar vanheiður.

Það er sama, hvaða mikilsháttar fjármálamaður í Svíþjóð væri spurður að því, hvað Svíar mundu nú gera, ef þeir hefðu ennþá 22% fallna krónu, svarið mundi alstaðar verða hið sama: „Við mundum festa hana þar“. Og það sem þeir mundu gera núna sjálfir, það ráðleggja þeir okkur að gera.

Jeg sje, að hv. þm. Dal. hristir höfuðið. Er það vegna þess, hve hækkunarviljinn er ofarlega í hug manna og gullkrónugleðin sterk í nærliggjandi löndum? Jeg skal bregða upp mynd af skrúðgöngu Norðmanna, segja nokkuð nánar frá norska þinginu, þegar hin „stóra króna“ þjóðarmetnaðarins hafði verið gerð innleysanleg.

Um það leyti, sem norska krónan hafði verið verðfest í sínu forna gengi í ½ ár, fóru nýjar kosningar fram í Noregi. Hvernig fór þá? Þá urðu þeir menn í meiri hluta, er voru eindregið fylgjandi verðfestingu og myndu hafa fylgt henni fram, ef sú leið hefði enn verið opin. Hægri menn — en þeir höfðu barist fyrir hækkuninni, — hríðfjellu. Sósíalistar, er voru eindregnir festingarmenn, og bændaflokkurinn, er þá var að komast á rjetta skoðun í málinu, náðu stórum meiri hluta. Þá var ekki sunginn neinn sigursöngur í norska þinginu. Nei, þá braust út rjettlát reiði og gnístran tanna yfir því ranglæti, er framið hafði verið. Framsögumaður bændaflokksins norska segir þá svo í þingræðu:

„Jeg geri að vísu ráð fyrir, að þjóðin sje svo heilbrigð og þróttmikil, að henni takist að yfirstíga þá örðugleika, sem Mowinkel-stjórnin hefir lagt í götu hennar. (SE: Hver er nú forsætisráðherra í Noregi? Mowinkel!). En það mun taka langan tíma, mannsaldur eða meira. Neyð, sorg og söknuður mun ríkja á þúsundum heimila um alt landið, og aðstaða vor í samkepni þjóðanna er stórum veikari en áður, — bæði frá þjóðhagslegu og menningarlegu sjónarmiði. Þegar jeg lít á alt þetta, vaknar spurningin: Er það verjandi, er það rjettlátt, eða var það nauðsynlegt, að dæma þjóðina til þessarar eyðimerkurfarar, e. t. v. í fleiri ættliði, fyrir það eitt, að ríkisvaldið hefir á þessari ófriðar- og krepputíð hlaðið einni vitleysunni ofan á aðra.“

Þetta er fyrsta erindið í gullkrónusöngnuni norska.

Foringi jafnaðarmannaflokksins, en það var þá stærsti þingflokkurinn, komst svo að orði:

„Raunin er sú, að „pari-krónan“ þýðir festingu á kreppunni, festingu á hóflausu vaxtaráni, — framundan er niðurskurður á launum, niðurskurður á fjárveitingum til fjelags- og menningarþarfa, nauðungaruppboð, gjaldþrot, bankahrun og óþor og kjarkleysi mikils hluta hins vinnandi fólks!“

Þetta er annað versið úr gullkrónugloriu þessa lands.

Nú hefi jeg lesið upp það, sem sagt var um hækkunina í Noregi, þessu landi, sem á að verða okkur til fyrirmyndar. Það er tæplega sá gleðisöngur, sem hv. þm. Dal. hefir gert sjer í hugarlund. „í þessu máli er margföld ástæða til að hugsa um, hvernig aðrar þjóðir dæma á eftir,“ segir þessi hv. þm. Nú hefir hann fengið að heyra það. Það er enginn efi á því, hvernig þessir menn mundu dæma hækkunina hjá okkur. Aðalmaður hækkunarinnar norsku, Rygg bankastjóri, áfellir okkur heldur ekki, þó við viljum verðfesta. Það kemur nægilega skýrt fram í áliti hans. Þannig eru allir flokkar í því landi, er vera á okkur til fyrirmyndar, nú á einu máli.

Þá hefir hv. þm. Dal. fundið að því, að hinir erlendu sjerfræðingar, er leitað hefir verið til, sjeu of lærðir! „Það er ekki hægt fyrir hið praktiska líf að fara að ráðum hinna stofulærðu,“ segir hann. Sleppum því, að þetta eru stærstu bankamenn á Norðurlöndum. Er ekki hæpið að telja álit sjerfræðinganna aðalhættuna? Jeg veit ekki hvaða „líf“ hv. þm. á við. Það er eitthvert undirlíf, sem ekki er gott að koma auga á! Á hverju eru kenningar hinna vitrustu manna í þessum efnum bygðar öðru en rökum lífsins sjálfs. Þær eru raunvísindi. Og hvað eru sjerfræðingar í þessum efnum annað en þeir menn, er hlustað hafa með mestri athygli á rödd lífsins og skilið hana best? Er ekki öll okkar ógæfa í því fólgin, að við höfum ekki nógu snemma farið eftir rjettum kenningum hinna lærðustu manna? Þótt sannindi þeirra næðu ekki nógu fljótri útbreiðslu, þá verða þeir ekki áfeldir fyrir það, heldur lýðurinn, sem er lengi að átta sig. Nei, það hjálpar síst að fara að eins og Hákon jarl, að skjóta öllum lærðum mönnum á land og sigla svo út á haf „lífsins“. Við skulum heldur kalla þá um borð og láta þá skýra okkur stefnu „lífsins“. Kenningar þeirra eru safinn úr reynslu þjóðanna. Þess vegna fór jeg til Cassels og bað hann að greiða sundur rök okkar gengismáls.

Það er ekki þar fyrir, að hækkunarmenn hafi ekki sínar „teoriur“. En sá er munurinn, að sumar þeirra eru gamlar, og gátu aðeins átt við fyrir stríð, en eiga ekki við nú, undir gerbreyttum kringumstæðum, en aðrar eru rangar og hafa aldrei annað verið. Það sem er undarlegast, er að heyra skorpnaðar kenningar kallaðar „lífið“! Það er ekkert fjarskyldara lífi hinnar líðandi stundar. Það má virða hækkunarmönnum það til ágætis, að þeir eru stöðugt að kasta fleiri og fleiri af þessum kenningum sínum fyrir borð.

Í upphafi gengismálsins var það á hvers manns vörum, að það mætti til að hækka krónuna, til þess að ljettara yrði að greiða erlendar skuldir. Þá þyrfti færri krónur upp í greiðslurnar. Gjaldeyrisfræði eftirstríðsáranna, — sem er raunar uppvakin hagfræði Ricardo’s og tímabilsins eftir Napóleonsstyrjaldirnar, — sem hafði gleymst um stund, af því það var ekki brúk fyrir hana — hefir nú algerlega rutt þessum misskilningi burt. Þessi fávíslega kenning hefir heldur ekki heyrst undir þessum umr.

Önnur kenningin var sú, að hækkun krónunnar yrði til að minka dýrtíðina í landinu. Jeg hefi heldur ekki heyrt neinn koma með þessa fullyrðingu undir þessum umr. Enda er það alrangt, því auðvitað verður hlutfallsleg kauplækkun að fylgja verðlækkuninni, og þá verður engin breyting á dýrtíðinni. Þarna er búið að kasta öðrum höfuðlærdómnum fyrir borð.

Hinn þriðji lifði lengst. Því var haldið fram, að það væri rjettlætiskrafa sparifjáreigenda að láta krónuna hækka. Þetta hefir klingt við til skamms tíma, en nú er því snúið upp í það, að ekki eigi við að tala um rjettlæti í þessu sambandi. En þótt hækkunarmenn hafi nú kastað þessum „dogmum“ sínum fyrir borð, þá hafa þeir samt ekki boðið hinni nýrri gjaldeyrisfræði far. Þeir kjósa heldur að sigla sjerfræðingalausir.

Nú er einungis tvent eftir af því, sem hækkunarmenn hafa fyrir sig að bera. Annað er það, að lánstrausti þjóðarinnar sje hætta búin af festingu. Hv. 1. þm. Reykv. var svo óheppinn að nefna Belga þessu til sönnunar. Athugum Belga. Þeir urðu að taka dýrt lán til að koma á hjá sjer verðfestingu gjaldeyrisins. Þeir fengu útborgaða 94 af 100, en nú standa hin sömu skuldabref í 107. Vextir ríkisbankans voru þá 7%, nú eru þeir 4–4½%. Þetta er hegningin, er sökudólgurinn hefir fengið fyrir að „svíkjast undan gefnum skuldbindingum“! Belgar eru einmitt ágætt dæmi til að afsanna lánstraustsspjöllin. Þeir áttu við ill lánskjör að búa, því fjárhagsástand þeirra var ilt. Nú njóta þeir góðra kjara, því ástand þeirra hefir batnað í skjóli hins verðfasta gjaldeyris. Nei, þessi „höfuðlærdómur“ fer sömu leiðina og hinir. Á næsta þingi verður varast að nefna þessa ástæðu, þó svo færi, að þessi mál yrðu þá til umræðu.

Það sem jeg geri ráð fyrir að lengst verði tönglast á, þegar allar aðrar hlífar eru klofnar, er þetta, að hin gamla og góða gullkróna sje sá helgi dómur, að það gangi guðlasti næst að hreyfa við henni, og svo reyna andstæðingar frv. að koma því inn hjá fólki, að við stuðningsmenn þess ætlum að skera sneið úr hinni heilögu gullkrónu, rjett eins og þegar skorin er sneið úr osti. Þeir segja, að við gerum okkur seka í myntfölsun samskonar og þjóðhöfðingjarnir fornu, sem blönduðu myntina með ódýrum málmi og sviku hana svo út meðal almennings að honum óvörum. Til þess vilja andstæðingarnir endilega halda í „stýfingar“-heitið, að auðveldara sje að koma þeim skilningi inn hjá almenningi, að verið sje að skera sneið úr núgildandi krónu.

Jeg vona nú, að hv. 1. þm. Reykv. skilji, hvers vegna jeg vil halda í verðfestingarheitið, sem er rjettnefni. Hjer er um það að ræða, að verðfesta núgildandi krónu, en ekki hitt, að stýfa hana. Er þar ólíku saman að jafna. Það að draga vísvitandi úr gildi gjaldeyris er áfellisvert — hitt að verðfesta gildandi gjaldaura er þjóðnytjaverk. (MJ: Er ekki búið að blanda krónuna?) Alveg rjett! Það eru flokksmenn hv. þm., íhaldsmenn og hv. þm. Dal, sem hafa átt mestan þátt í því, að blanda hana með seðla flóði því, er þeir hleyptu yfir landið. Með seðlaútgáfu var krónan stýfð eða blönduð. Nú er um það eitt að ræða, að festa hennar raunverulega gildi. Annars skal jeg ekki í þessu sambandi áfella neinn. Jeg geri ekki ráð fyrir að einn hafi þar haft vit fyrir öðrum þegar þetta var að gerast. En óneitanlega hefði verið skemtilegt, ef einhver hefði þá haft vit hinna „stofulærðu“, þó ekki hefði nú verið á flóknara máli en því, að seðlaflóð hlýtur óhjákvæmilega að draga úr gildi gjaldeyrisins. Sá „stofulærdómur“ hefði óneitanlega getað forðað þjóðinni frá stórtjóni.

En annars er nú málið svo vaxið, að þessi gullkróna, sem verið er að guma af, og sem svo mikið ríður á að vernda, er alls ekki til raunverulega. Það getur verið, að hún hangi einhversstaðar uppi í himinhvelfingunni, en hún sjest hvorki í búðum nje bönkum. (MJ: Hefir þm. ekki sjeð ríkissjóðinn). Jú, við höfum báðir sjeð hann og fáum okkar skerf af honum mánaðarlega. En jeg geri kröfu til þess, ef einhver mynteining er svo heilög, að öllu öðru beri að offra hennar vegna, að fá þó að minsta kosti að sjá kjörgripinn. En það er nú svo, að íslensk gullmynt hefir aldrei verið til. Það er líklegt, að hv. þm. Dal. hafi einhverntíma sjeð danskan gullpening, en íslenskan hefir hann áreiðanlega aldrei sjeð.

Hið eina, sem almenning varðar, er það, hvað við gerum við þá pappírspeninga, sem nú eru okkar eini gjaldeyrir — og hinn eini tilgangur gjaldeyrisins er að vera verðmælir og gjaldmiðill. Engum dettur í hug að falla fram og tilbiðja aðra mælikvarða eins og t. d. hina gömlu „tommu“, hún er alt of fátækleg til þess að nokkur maður gerði hana að skurðgoði. Og engum dettur í hug, að „tomman“ hafi verið „stýfð“ þegar centimetrinn var tekinn upp. Nei, það sem mest er undir komið er það, að hver mælikvarði, og þá ekki síst gjaldeyririnn, sje fastur, svo að það sje ekki heimt inn eftir stórum mælikvarða, sem lánað var eftir litlum. Það sem blekkir menn og í þessu efni, er hinn guli litur hins þjetta leirs, eins og meistari Jón nefnir gullið. Það er þessi gullglýja, sem villir menn og kemur þeim til að halda, að hjer sje um sjerstakan og sjálfstæðan verðmæli að ræða, þó enginn hafi hann handa á milli eða sjái hann nú orðið. Afstaða gullsins til gjaldeyrisins, seðlanna, er alt önnur nú en áður. Fyrir stríðið var frjálst verð á gullinu og hjelst þá sama verðið langan tíma, því að framboð var furðanlega jafnt. En nú dettur jafnvel Englendingum ekki í hug að setja gull í umferð, heldur er það einungis notað sem stjóri fyrir kaupmátt seðlanna. Gjaldeyrismálum þjóðanna er nú stjórnað svo, að það er bæði forneskjulegt og spaugilegt að sjá menn dansa í kringum þennan gullkálf, sem á að vera þjónn mannanna, en ekki húsbóndi. Gullið getur verið góður þjónn, en gullkálfurinn er illur húsbóndi.

Jeg skal ekki hafa þetta öllu lengra. Það er þegar orðið bert, að ýmsir vilja hvorki nje geta, vegna gullglýjunnar, sjeð þarfir þjóðarinnar í þessu máli nje þarfir bæði verkamanna og framleiðenda til lands og sjávar. Það getur verið, að þeir sjeu ekki margir, sem tárfella yfir því, þó að verkamenn sjeu atvinnulausir, og ef til vill ennþá færri, er gráta tap útgerðarmannsins, en jeg skil þó ekki í öðru en að fulltrúar bænda sjeu viðkvæmir fyrir því, að bændum sje svo íþyngt með gengishækkun, að þeir geti varla undir risið. Bóndi, sem byrjað hefir búskap síðustu 10 árin, þarf við margt að berjast og á við marga erfiðleika að stríða. Fyrst þarf bóndinn að fá sjer jarðnæði og bústofn. Hann eignast konu og börn. Það sem hann aflar sjer af sínum búskap kemur seint, og hann þolir því allra atvinnurekenda verst snöggar verðbreytingar og hækkun á skuldabyrði sinni. Hins vegar getur hann, ef verðlag er sæmilega stöðugt og skuldir verðfastar, staðið við allar skuldbindingar sínar, þó að það útheimti oft og einatt mikinn dugnað og festu. Því er það, að þeir sem finna til með bændum, en helmingur þeirra hefir byrjað búskap síðan verðlagstruflanirnar hófust, fylgja þessu frv.

Hv. 1. þm. Reykv. var nú svo góður að benda bændum meðal annars á það, að þeir væru í raun og veru gengisbraskarar með því að vera að leggja út í búskap, en bætti svo við, og það með rjettu, að þeir væru neyddir til þess að vera það, þar til krónan væri verðfest. Það er nú nokkuð til í þessu. En hver veldur? Er það bóndinn, sem giftist og setur bú á rjettum aldri? Er það rjettmætt að heimta af honum að bíða þar til hækkun er að fullu framkvæmd? Nei, sá sem veldur eru þeir, er vilja halda lausgenginu um óákveðinn tíma og sjá ekki skyldu ríkisvaldsins til að skapa festu og öryggi fyrir þegna sína hið allra bráðasta. Sökin verður þeirra, er tekið hafa trú á heilaga gullkrónu, — sem hvergi er til nema í lögum, sem ekki eru í gildi — og loka augunum fyrir nauðsyn landsfólksins. Sú króna er fitnar af erfiði annars en þess, er á hana, yrði aldrei annað fyrir framleiðslu- og viðskiftalíf þjóðarinnar en sannkölluð þyrnikróna.