25.03.1929
Neðri deild: 31. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1464 í C-deild Alþingistíðinda. (3057)

65. mál, myntlög

Sigurður Eggerz:

Jeg vona, þar sem jeg hefi átt í orðakasti við svo marga, að hæstv. forseti verði ekki strangur við mig, þó athugasemd mín verði í lengra lagi.

Mjer datt í hug, þegar hv. þm. V.- Ísf. (ÁÁ) var að tala, hvort ekki mundi líta öðruvísi út í heiminum, ef hann hefði talað fyr. Hv. þm. bannfærði hækkunarmennina. En flestir voru þeir nú samt hækkunarmenn í sínu landi, sem hann sótti ráðin til í utanförinni. Þeir rjeðu til að gera það hjer, sem þeir rjeðu frá að gera í sínu eigin landi. Eftir dómi hv. þm. voru þeir því vitrir er þeir rjeðu oss, en skelþunnir er þeir gáfu ráðin heima hjá sjer.

Annars skal jeg fara fljótt yfir sögu og drepa aðeins á höfuðatriðin, get jeg og að miklu leyti vísað til þess, er jeg hefi sagt áður. Skal jeg þá fyrst víkja að hv. flm., þm. V.-Ísf. Jeg sagði í gær, að svo framarlega sem ekki væru gerðar sjerstakar ráðstafanir til þess að halda krónunni fastri, væri ekki víst að það tækist. Því ef t. d. svo mörg pund bærust að Landsbankanum, að hann þyrði ekki að kaupa fleiri, mundi það verða til þess, að pundin fjellu, en krónan hækkaði. Hv. þm. sagði, að við þessu væru þegar gerðar ráðstafanir og það ætti þm. Dal. að vita. Átti hann þar við það, er fyrv. fjmrh., Jón Þorláksson, ábyrgðist Landsbankanum, að hann skyldi ekki hafa halla af því, þó hann keypti svo og svo mikið af erlendum gjaldeyri. En fyrir þessari ábyrgð var engin heimild. Meira að segja vissi gengisnefndin ekkert um þetta. Það var aðeins milli Landsbankans og ríkisstjórnarinnar. Og til sönnunar því, að jeg fari hjer með rjett mál, skal jeg geta þess, að jeg átti áðan tal við fyrv. fjmrh., Jón Þorláksson, og leyfði hann mjer að hafa þetta eftir sjer.

Mjer er sem jeg sjái framan í útgerðarmenn, ef ætti að fara að beita þá þeim nauðungarráðstöfunum, að taka af þeim gjaldeyrinn fyrir ákveðið verð. Hræddur er jeg um, að það yrði ekki eintóm gleði kringum þá stjórn. Það yrði ekki tómur sigursöngur, sem henni væri sunginn. (ÓTh: Það er þó betra að afhenda pundið fyrir 22 en 20). Það veit nú enginn, hvað verðið á gjaldeyrinum yrði, þegar búið væri að taka hann einokunartökum. En hitt veit jeg, að útgerðarmenn langar ekki til þess að láta taka af sjer gjaldeyrinn. Og því slæ jeg föstu, að ekki er nein heimild til í lögum fyrir ríkisstjórnina til þess að verja fje til þess að standa á bak við Landsbankann, ef hann þarf að kaupa mikið af pundum, nema heimildin felist í þeirri almennu ábyrgð, sem ríkissjóður hefir á Landsbankanum.

Þá verð jeg að minnast lítið eitt á þær ávítur, er jeg sætti frá hv. 2. þm. Árn. (MT). Hann var að áfellast mig fyrir það, að jeg sagði, að það væri gott að rifja upp fyrir sjer þær almennu þingræðisreglur, er gilda hjá nágrannaþjóðum vorum. Meðal annars það, að þegar stjórn á mál, sem hún leggur jafnmikla áherslu á og hæstv. landsstjórn leggur á þetta, þá er það gullvæg regla, að fái hún það ekki samþykt, þá er tvent fyrir hendi. Annaðhvort að stjórnin fari frá eða rjúfi þingið og spyrji þjóðina. Það voru þessi ummæli mín, sem hv. þm. vítti. En má jeg spyrja? Er það árás á stjórnina þó henni sje bent á, að fara þær leiðir, er allar þingræðisstjórnir telja sjer skylt að fara undir slíkum kringumstæðum? Jeg mótmæli því harðlega. Það er beinlínis skylda mín sem þm. Og það er því meiri ástæða fyrir stjórnina að fara þessa leið, þar sem því verður ekki neitað, að ef frv. kemst ekki gegnum þingið, verður litið svo á erlendis, — eftir að því hefir verið lýst yfir að stýfa skuli, — að stjórnin vilja stýfa en geti það ekki, eða með öðrum orðum, að hækkunarstefnan sje ráðandi í landinu. Og þá kemur freistingin fyrir „gengisspekulantana“, og þá getur svo farið, að krónan þjóti alt í einu upp í gullgildi, en það gæti orðið of mikil áreynsla fyrir atvinnuvegi þjóðarinnar. Ef því stjórninni er alvara í þessu máli, þá verður hún að fara þessa leið, er jeg hefi bent á. Jeg get þess vegna ekki skilið, að nokkur beri svo litla virðingu fyrir þingræðisreglum, að hann álíti það árás, þó hæstv. stjórn sje bent á að fara þessa leið.

Þar sem hv. 2. þm. Árn. er nú ekki viðstaddur, skal jeg fara fljótt og vægilega yfir það sem hann sagði annað. Það kom fram í ræðu hans, að það mundi auðvitað valda bönkunum bæði tapi og erfiðleikum að hækka krónuna. Þetta er vitanlega nokkuð rjett, því það sem er erfitt fyrir atvinnuvegina, er og erfitt fyrir bankana.

Út af því, er hv. þm. sagði um reikninga Íslandsbanka, í þá átt, að þeir væru svo óglöggir, að ekki væri gott að átta sig á þeim, skal jeg aðeins geta þess, að þeir eru eins og reikningar annara banka, og búnir til eptir ágætum fyrirmyndum. Jeg vildi ennfremur staðfesta það, sem jeg hefi áður sagt, en hv. þm. hefir borið á móti, því að hann sagði, að ekkert væri búið að draga inn af seðlum, en eins og jeg sagði, hefir bankinn þegar dregið inn 3 milj. kr., en í rauninni er það þó meira, því að af 12 milj. kr., sem úti stóðu, eru nú aðeins 5 milj. kr. eftir. Það hefir verið mikið talað um erfiðleika bankanna í sambandi við gengishækkunina, og hefi jeg einnig fallist á þá. En hinu má þó eigi gleyma, að banki, sem hefir lán hjá útlandinu, þarf færri íslenskar krónur til að greiða þau, ef krónan stígur. T. d. ef Íslandsbanki ætti að greiða ensk lán með kr. í 47 gullaurum í stað kr. í fullu gullgildi, sjest, að hann þarf helmingi fleiri smákrónur en gullkrónur. Hitt er satt, að krónan má ekki hækka mjög ört, því að þá aukast örðugleikar bæði fyrir bankana og atvinnuvegina, enda þótti mjer hækkun hennar altof hraðfara. Jeg hefi skilið hv. þm. V.-Ísf. svo, að þótt gullverð okkar krónu sje nú ákveðið í lögum, þá skuldbindi það okkur ekki, svo að við getum breytt því hvenær sem er, en ef ákvæðin í gömlu lögunum hafa enga þýðingu, þá hafa hin, sem til verða búin, heldur enga þýðingu. Yfirleitt er það ljóst, að ef gullþyngd krónunnar verður breytt eftir því, hvernig pappírskrónan hringlar til, þá er ekki að ræða um neina stöðvun í peningamálunum. En þær sveiflur aftur, sem skapast á verði gullsins, og hafa síðan áhrif í gegnum það á krónuna, ráðum við ekkert við. Það eru stórþjóðirnar aðallega, sem þar grípa inn í, og nú er það Ameríka, sem mestu ræður.

Jeg held því fram, og er sannfærður um það, að það skiftir meira máli, hvað þjóðir, sem hafa átt við svipaða erfiðleika að stríða, hafa gert, heldur en álit sjerfræðinga og ráðleggingar þeirra. Af hverju hafa Norðurlandaþjóðirnar ekki farið að orðum Cassels, sem rökstyður kenningar sínar svona vel? Af því að hinir „praktisku“ menn trúðu ekki á „teoriur“ Cassels; þeir lögðu meira upp úr reynslunni. Hv. þm. las upp niðrandi ummæli um krónuhækkunina, sem komið höfðu fram í þinginu norska, og gat þess, að Mowinkel hefði verið forsrh. þegar hækkunin varð. En hver er það nú? Það er einmitt þessi sami maður, og það eitt er víst, að hann myndi ekki sitja ennþá í þeirri stöðu, ef þjóðin væri óánægð með gerðir hans í þessu máli. Hvaða norski maður er það, sem nú er verið að vitna í hjer? Hann heitir Rygg, og hann barðist með hnúum og hnefum fyrir hækkun norsku krónunnar. Þess vegna væri það dálítið einkennilegt, ef hann rjeði okkur til að stýfa, enda gerir hann það ekki, eins og þegar er komið fram. Hann gengur út frá því, að stýfing sje ákveðin, og byggir það á ummælum forsrh., og með það fyrir augum svarar hann þeim fyrirspurnum, er til hans voru sendar. Þegar spurt er, hvort óttast þurfi, að þetta muni hnekkja áliti landsins, þá segir hann, að hann eigi „bágt með að trúa því, að þetta valdi nokkrum álitsspjöllum til lengdar“, en eftir þessum ummælum hans að dæma, virðist hann þó álíta, að stýfing hafi álitsspjöll í för með sjer, að minsta kosti í bili.

Hv. 2. þm. Árn. gerði nokkrar aths. við orð mín, en þær voru bygðar á misskilningi. Jeg álít, að ef skuldari getur ekki staðið í skilum, þá sje ekkert eðlilegra en að hann leiti samkomulags, og fái t. d. 25% eftir gefið. Á því geta báðir aðiljar grætt. En ef maðurinn gerir slíka samninga og á nóg fje í sparisjóðsbók, þá er það sviksamlegt. Eins er það með þjóðir, sem hafa möguleika á því, að hækka. Eina afsökunin, sem getur komið þar til greina, er, að annað sje ekki hægt, eins og t. d. hjá Frökkum. Vjer eigum að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að hækka krónuna, en ef vjer ekki getum, þá verðum vjer að beygja oss fyrir nauðsyninni. En trú mín er sú, að Ísland eigi nóg fje til að leysa þessa þraut, í sparisjóði framtíðarinnar.

Þá ætla jeg að snúa mjer að lofsöng hv. þm. V.-Ísf. um að yfirgefa gullkrónuna. Jeg get viðurkent, að hann heldur vel á málinu, en jeg hygg, að allir þeir, sem á hlýða og hafa næmt eyra, heyri falska tóna. (LH: Það heyrir enginn maður). Jeg held, að trúarofsi hafi gripið hv. þm. V.-Sk., sem jeg annars met svo mikils, og því má vera, að hann greini ekki tónana.

Sökum þess, hversu tíminn er naumur, verð jeg að geyma margt það, er jeg vildi sagt hafa, til næstu umr., t. d. hefði jeg gjarnan viljað segja nokkur orð við hv. fjmrh., og þakka honum þau ummæli hans, að hann bæri hag bankans fyrir brjósti, og er það að vísu rjett, að stjórnin hefir það sem af er verið bankanum velviljuð.

Vegna hækkunar þeirrar, sem orðin er, greiðir nú bankinn 4 miljónum færri íslenskar krónur upp í ensku lánin en hann ella hefði þurft að gera.

Jeg legg enn áherslu á það, að jafnframt og jeg er hlyntur hækkuninni, vil jeg ekki, að hún sje of ör. Þetta hefi jeg oft sýnt áður að er vilji minn.

Hv. forseti vill ekki leyfa mjer að hafa aths. mína lengri, og það er nú varla von, og því verð jeg að láta hjer staðar numið.