27.03.1929
Neðri deild: 33. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í C-deild Alþingistíðinda. (3064)

65. mál, myntlög

Magnús Guðmundsson:

Mjer finst umr. þessar vera orðnar nokkuð langar, og skal jeg því vera stuttorður.

Í fyrri ræðu minni ljet jeg í ljós undrun mína yfir því, hve lítið væri rekið á eftir þessu máli og hve seint frv. hefði komið fram. Jeg hefi ekki fengið skýringu á því, hver ástæðan er. Mjer virðist það ekki afsakanlegt, að leggja ekki fulla áherslu á að fá málið leyst. Það getur orðið hættulegt að hafa það lengi óleyst. Altaf getur hallæri komið fyrir, og þá gæti krónan lækkað, meðan hún er ekki innleysanleg. Ef mikill og óhagstæður munur verður á innflutningi og útflutningi um nokkur ár, þá getur krónan farið niður. Það er því nauðsynlegt að leysa málið fljótt, leysa það í samræmi við vilja meiri hluta þings. Og jeg er alls ekki viss um, að meiri hl. sje mótfallinn frv. — Mjer er það ljóst, að hver dagur, sem líður, hjálpar til að hindra hækkun; en það má þó ekki eingöngu blína á það. Það verður einnig að taka tillit til þess, að krónan getur lækkað. Hv. flm. bjóst við því, að þingmenn yfirleitt mundu ef til vill ragir við að hjálpa andstæðingastjórn til að leysa málið. Jeg er ekkert ragur við það. Jeg álít það skyldu þingmanna að hjálpa til að leysa þau mál, er nauðsyn er á að leysa. Og ef þeir hafa ekki í gegn vilja sinn, þá er það skylda þeirra að taka hið næst besta ef eitthvað er í húfi.

Þá get jeg ómögulega orðið sammála hv. flm. um það, að stýfing og festing sje það sama. Það er áreiðanlegt, að við höfum löggilta krónu; það er stýfing ef við minkum hana. En það er festing, að ákveða seðilpeningunum það verð, sem þeir ganga í nú.

Það getur verið rjett að færa umr. yfir á það svið, hvort það er rjettlátt eða ranglátt að stýfa. En það veldur ranglæti, hvort heldur gert verður, stýft eða hækkað. Því verður að meta, hvar ranglætið verður meira. Hjá því verður hvort sem er aldrei komist að fullu. En þetta er ekki það, sem aðallega vakir fyrir mjer, heldur hitt, að við erum skyldir til að gera ráðstafanir til að krónan falli ekki aftur.

Jeg tók ekki eftir að hv. flm. svaraði því, sem jeg spurði hann um, hvað hann ætlaðist til að gert yrði til þess að gera bankana færa um að standast misæri. Um það er ekkert upplýst, nema það sem í grg. stendur, að amerísku lánsheimildinni verði haldið opinni. Í frv. sjálfu er ekki orð um þetta. Jeg vona að hv. flm. telji fulla ástæðu til að upplýsa þetta frekar, t. d. hvort víst sje, að þessi lánsheimild standi áfram og þá með hvaða kjörum.

Jeg hefi gripið hjer fáein orð úr ræðu hv. þm. Ísaf. í gær. Hann var að tala um ástæðuna til þess, að Íslandsbanki varð að hætta yfirfærslum. Hann sagði, að það væri af því, að lánstraust hans erlendis hefði verið þrotið. En af hverju þraut lánstraust hans? Það var af því, hve mikill munur var á verðmæti innfluttrar vöru og útfluttrar. Bankinn var kominn í 10. milj. kr. skuld erlendis fyrir þessar sakir. Hefði hann haft enn meira lánstraust, þá hefði þetta getað slarkað lengur. En enginn banki getur til lengdar staðist slíkt. Það verður að finna önnur ráð til að jafna slíkan halla.

Það er gaman að heyra hinar mismunandi kenningar um hækkunina. Sumir vilja hækka krónuna í einu lagi, aðrir kjósa hægfara hækkun. Það hefir verið fundið að því, að hækkunin árið 1925 hafi verið of ör. Um það má deila, en á hitt vildi jeg henda, að hún hefði orðið enn örari, ef ekki hefði verið tekið í taumana. Krónan hefði að líkindum farið alla leið upp í gullgildi. En stjórnin tók í taumana. Það er sannleikurinn í málinu, og geta menn svo dæmt um þær aðgerðir, eftir því sem þeir hafa vilja til.

Jeg varð hissa hve hv. þm. Ísaf. varð reiður, er jeg greip fram í ræðu hans og benti honum á, að hann færi rangt með það, hvenær krónan hefði komist lægst. Það var í febr.–mars 1924. Mjer skildist hann vilja kenna fyrv. stjórn um lækkunina, en það er rangt. Lækkunin var um garð gengin, er stjórnarskiftin urðu.

Jeg skal svo ekki lengja umr. frekar. 1. umr. mun nú vera búin að standa í alt að vikutíma, og væri því æskilegt, að frv. færi að komast til nefndar.