18.03.1929
Neðri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í C-deild Alþingistíðinda. (3078)

67. mál, lýðskóli með skylduvinnu nemenda

Hannes Jónsson:

Jeg vil taka undir það með hv. 1. þm. Skagf., að jeg lít svo á, að í frv. felist að nokkru leyti sú stefna, að nauðsynlegt sje að veita sýslufjelögunum heimild til að koma á þegnskylduvinnu. í Vestur-Húnavatnssýslu, eins og svo mörgum öðrum hjeruðum landsins, bíða ótal mörg verkefni eftir fjármagni til framkvæmda: Brýr og vegir, símar og hverskonar samgöngubætur; alt er þetta á byrjunarstigi. En augu almennings eru farin að opnast fyrir því, að nauðsyn beri til frekari framkvæmda á þessu sviði en verið hefir. Það sem stendur í vegi, er fjárskortur, og því er það, að margra hugir stefna nú til þegnskylduvinnunnar þessum málum til framdráttar. Mjer hefir t. d. nýlega borist erindi frá tveimur mjög merkum bændum í mínu hjeraði, þar sem þetta er gert sjerstaklega að umræðuefni.

Jeg álít, að frv. þetta, ef að lögum verður, geti orðið góður prófsteinn á gildi þegnskylduvinnunnar í þjónustu framfaramála sveitanna. Og þó að jeg telji ýms ákvæði í frv., sem vita að skólanum sjálfum og starfssviði hans, öðruvísi en þau ættu að vera, þá mun jeg samt greiða því atkv., af þeim ástæðum, sem jeg nú hefi nefnt.