07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í C-deild Alþingistíðinda. (3092)

68. mál, háskólakennarar

Magnús Jónsson:

** Jeg verð að segja það, að jeg fylgdist ekki vel með því hvað hv. þm. V.-Húnv. átti við í ræðu sinni. Mjer virtist hann tala eins og hjer væri um eitthvert afskaplegt háskólabákn að ræða með mörgum prófessorum og dócentum. Hv. þm. talaði eins og hjer væri um eitthvert stórt og vandasamt mál að ræða. En því fer fjarri, að svo sje. Hjer er í rauninni um mjög einfalt mál að ræða.

Þegar háskólinn hjer var settur á stofn, þá voru þrjú kennaraembætti ákveðin við hverja deild hans. Og til þess að spara fje, var ákveðið, að eitt þessara þriggja embætta skyldi nefnt dócentsembætti. Þetta var eingöngu gert til sparnaðar, því annars var námsgreinunum skift jafnt á milli þeirra þriggja manna, en máske hefir verið gert ráð fyrir því, að einn þeirra væri jafnan yngstur, og þá afsakanlegra að láta hann fá lægri laun. Þannig var það í þremur deildunum. En í lagadeildinni voru strax ákveðnir 3 prófessorar, og mun það hafa stafað frá ýtnum manni sem keyrði það í gegn. Nú fer jeg alls ekki fram á það, að stofnað verði þriðja prófessorsembættið við þessar deildir, heldur aðeins, að eftir 6 ára starf sjeu dócentarnir gerðir jafnir að launum við prófessorana og þá líka nefndir því nafni. Prófessorastarfinu fylgir talsverð aukavinna. Þeir verða stundum að koma fram fyrir deildarinnar hönd, vera deildarforsetar og starfa í háskólaráði. Mjer skildist helst á ræðu hv. þm. V.-Húnv. að hann hjeldi, að prófessorsnafnbótin væri einhver sjerstök fríðindi. En það er nú eitthvað annað. Því fylgir einmitt aukavinna og svo vitanlega rjettur til hærri launa eftir því sem árin líða. Menn verða ekki prófessorar við það að hækka í launum, eins og mjer fanst hv. þm. halda, heldur er það þvert á móti, að menn hækka í launum við það að verða prófessorar. Það er að sínu leyti eins og það, að sólin kemur ekki upp af því að birtir, heldur birtir af því að sólin kemur upp.

Hv. þm. V.-Húnv. fanst eðlilegra að hækka bara laun dócentanna. En það er eðlilegt, að prófessorar hafi hærri laun en dócentar. Eftir frv. verða þeir búnir að starfa að kenslu í 6 ár áður en þeir verða próf. og á þeim 6 árum hafa þeir fengið reynslu í starfi sínu. Það tryggir það, að þeir verði æfðir í starfinu. Og þá fyrst eiga þeir líka að fá hærri laun. Hækkun á launum dócentanna mundi skapa ósamræmi, því laun þeirra eru nú í samræmi við laun annara embættismanna. En hitt er eðlilegt, þegar þeir hafa starfað 6 ár og fengið prófessorsnafnbót, að laun þeirra sjeu þá í samræmi við laun annara prófessora. Þetta er alveg í samræmi við það, sem er í mentaskólanum. Þar byrja menn sem adjunktar og hækka svo eftir vissan árafjölda í það, að verða yfirkennarar, í stað þess að þurfa að bíða eftir því, að yfirkennaraembætti losni. Yfirkennararnir þar geta því verið misjafnlega margir, stundum t. d. 2, stundum 5.

Eins verða mismunandi margir prófessorar við Háskólann. Jeg vona að menn sjái, að í stað þess að hækka laun dócentanna og setja þá þar með í sjerstakan launaflokk, þá sje rjettara, að þeir eftir vissan tíma verði prófessorar og taki þar með við þeim auknu skyldum, sem því fylgja. — Það er í raun og veru rjett, að þetta er aðeins launaspursmál. Jeg fyrir mitt leyti hefði helst kosið að vera dócent alla æfi, ef ekki hefði verið launanna vegna. Síðan jeg varð prófessor hefi jeg orðið að starfa í háskólaráði og get orðið háskólarektor þegar vera vill. — Þessu fylgja ómök, sem jeg gjarnan hefði viljað vera laus við, þótt hitt sje ekki nema sanngjarnt að gera öllum jafn hátt undir höfði, sem þessi embætti stunda. En eftir nafnbótinni sækist enginn, enda er hún útlend að nafni og nafnið fremur leiðinlegt. — Og fyrir mig er það í raun og veru hreinasta neyð, sem í mörg ár hefi heitið Magnús Jónsson dócent. Það er hreint ekki svo þægilegt að skifta þannig um nafn, sem við mann er fest. Hv. þm. V.-Húnv. hitti einmitt naglann á höfuðið þegar hann sagði, að þetta væri launaspursmál. Það er það og ekkert annað.

**Ræðuhandrit óyfirlesið.