07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í C-deild Alþingistíðinda. (3093)

68. mál, háskólakennarar

Halldór Stefánsson:

Hv. flm. viðurkendi í byrjun og endi ræðu sinnar, að frv. þetta er fyrst og fremst launaspursmál og því einfalt mál. — En mjer fanst hv. þm. sanna betur en við, sem mælt höfum á móti frv., að munur er verulegur á störfum dócenta og prófessora og sje því rjett einnig að gera mun á launum þeirra. Er jeg þakklátur honum fyrir það. Hv. þm. sagði að prófessorar hefðu ýmsar skyldur, ónæði og vinnu, fram yfir það, sem dócentarnir hefðu. Er ekki þarna einmitt sú eðlilega ástæða til þess að gera mun á þeirra launum? — Við höfðum haldið því fram áður, sem erum í minni hl., og nú sagði hv. 1. þm. Reykv. það skýrt og greinilega. — Þá sagði sami hv. þm., að enginn greinarmunur væri gerður á þessu í lagadeildinni og taldi líklegt, að það stafaði frá því, að þar hefði ýtinn maður átt hlut að verki þegar lögin voru sett og keyrt þetta í gegn. Þarna kemur einmitt fram það sanna viðhorf málsins. Í lagadeildinni var það á sínum tíma gert með ósanngirni. Mun nú ekki vera hjer um eitthvað svipað að ræða, þegar verið er að koma þessu fram í hinum deildunum? Þessu verður máske komið fram með atkvæðamagni hjer í þinginu, en ekki með rjettum rökum eða sanngirni.