05.04.1929
Neðri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mjer virðist nú draga mjög til sátta í þessu máli, og er það vel farið. Og hvort sem atkvgr. fer fram nú eða ekki, geri jeg ráð fyrir, að tækifæri gefist til að ráðgast við hv. landbn. um frekara samkomulag.

Hv. þm. Borgf. þykir það óhæfilegur dráttur, ef lánsstofnun fyrir bátaútveginn kæmi ekki fyr en á næsta þingi og vill bæta úr því með því að opna útveginum aðgang að Landbúnaðarbankanum. En jeg get ekki fallist á að rugla saman reitum á þann hátt. (PO: Hæstv. ráðh. hefir lýst yfir því, að sjávarbændur eigi að vera með). Þetta er rangt hjá hv. þm. Jeg hefi enga beina yfirlýsingu gefið um það. Jeg vil, að bændurnir hafi sinn banka alveg út af fyrir sig, af því að lán til landbúnaðar eru annars eðlis en lán til annars atvinnurekstrar.

Það lá í orðum hv. þm. áðan, að ræktun í landinu væri yfirleitt framkvæmd fyrir aflafeng úr sjónum. (PO: Ræktunin við kauptúnin, sagði jeg). Já, hann segir það núna, þessi hv. þm., en jeg held að hann sjái best þann hluta landbúnaðarins, sem er við sjóinn, í kringum kauptúnin.

Hv. 2. þm. Rang. er því meðmæltur, að öll fasteignalánastarfsemi sje undir einni stjórn. Þetta atriði má vel koma til athugunar. Um það verður að ráðgast við stjórn Landsbankans, og hann heyrir ekki undir mína stjórnardeild. Jeg álít, að það gæti fullkomlega komið til athugunar að fela Landbúnaðarbankanum frekari fasteignalánastarfsemi.