15.03.1929
Neðri deild: 23. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í C-deild Alþingistíðinda. (3127)

70. mál, innflutningstollur af niðursoðinni mjólk

Jóhann Jósefsson:

Jeg skil varla, að hv. flm. (BA) verði það sár vonbrigði, þótt frv. þessu verði ekki tekið með einróma andakt. Jeg vildi leyfa mjer að koma fram með nokkrar athugasemdir við það, og þó einkum við stefnu þá, er hjer er að láta á sjer bæra.

Fyrirtæki það, er hv. flm. eiga við, er sennilega mjólkurverksmiðjan Mjöll í Borgarnesi. Jeg man ekki betur en að það fyrirtæki hafi þráfaldlega notið stuðnings Alþingis, og er langt frá því, að jeg sje að telja hann eftir. Jeg tel hann mjög rjettmætan, og fjell það víst í minn hlut, meðan jeg átti sæti í hv. Ed., að tala máli fyrirtækisins þar. Það er þess vegna ekki af neinum illvilja til þessa fyrirtækis eða mjólkurframleiðslunnar í landinu, að jeg er á móti þessu frv. En ríkisvaldið hefir hingað til og mun hjer eftir hafa nægar leiðir til þess að ljetta undir með nauðsynlegum fyrirtækjum í landinu og hjálpa þeim, er gerast brautryðjendur, án þess að það þurfi að ganga út á verndartollabrautina, er einkum miðar að því, að gera vöruna dýrari en hún þarf að vera.

Mjer finst það í raun og veru vera eitt af því, er ber þess ljósan vott, hvað íslenska þjóðin er að mörgu leyti lítt þroskuð á sviðum athafnalífs og framleiðslu, að undir eins og menn sýna einhvern lit á innlendri framleiðslu, þá er rokið í það að heimta skatt á sömu erlendu vörutegund, til þess að afla hinni brautargengis. Lít jeg svo á, að þessi verndartollastefna stafi ei hvað síst af þroskaleysi landsmanna í þessum efnum. Og líti maður til nágrannaþjóðar okkar, Breta, sem er eins og risi, samanborið við okkur, hvað alla framleiðslu og iðnað snertir, þá sjáum við, að hún er ein af þeim þjóðum, er fastast hefir staðið gegn öllum verndartollum.

Afleiðingin af því, ef þetta frv. væri samþykt, yrði sú, að verð á niðursoðinni mjólk mundi hækka allverulega. Og fyrir barðinu á þeirri hækkun mundi verða allverulegur hluti þjóðarinnar, nefnilega kaupstaðabúarnir.

Hv. flm. vildi færa rök fyrir því, að hækkun væri útilokuð með heimild þeirri, er atvinnumálaráðherra á að hafa skv. 3. gr. frv., til þess að setja lágmarksverð á mjólk. En þetta er ekki nægilegt eins og hv. flm. og kannaðist við. Það mun óhætt að fullyrða, að fyrst um sinn verði að flytja mikið inn af niðursoðinni mjólk og þó hámarksverð verði sett á innlendu mjólkina mun verð þeirrar útlendu ekkert lækka við það. Mjer þykir það í raun og veru furðulegt, að nokkrum skuli geta dottið í hug, að vilja tolla alla útlenda mjólk, til þess að gera samkepnisfæra litla verksmiðju, sem enn er á frumstigi, og sem alt fram að þessu, þó það sje nú ef til vill farið að lagast, hefir framleitt ljelega vöru. Mjer finst slíkt algerlega ótímabært, enda þótt hv. þm. Mýr. (BÁ) þyki það ekki. Þá vil jeg og benda á það, að Alþingi hefir ávalt verið fúst til þess að hlaupa undir bagga með þessu fyrirtæki og jeg efast ekki um, að það vilji einnig framvegis styðja fjelagið í því að búa til samkepnishæfa vöru.

Jeg kunni illa við þá framsetningu hv. flm., er hann talaði um að íslensk framleiðsla hefði orðið fyrir áleitni, eða áreitni útlendra keppinauta. Samkepnin á að vera frjáls og það getur alls ekki talist áleitni við innlendu mjólkurframleiðsluna, þó niðursoðin mjólk sje flutt til kaupstaða landsins. Slíkt er algerlega nauðsynlegt til þess að bæta úr þeim mjólkurskorti, er ýmsir kaupstaðir eiga við að búa, og sem við kaupstaðabúar þekkjum best.

Hv. flm. (BÁ) sagði, að nú væri svo komið, að til væru tæki til að framleiða næga mjólk í landinu. Það má vera að svo sje, en þó mun fyrst um sinn verða að flytja allmikið inn af mjólk. Svo er og þess að gæta, að tæki þau, er til eru, hefir verksmiðjan átt í mörg ár og getur því vel verið að þau sjeu ekki í svo góðu standi nú, að þau geti talist fullnægjandi. Minsta kosti er engin trygging fyrir því, meðan verksmiðjan getur ekki framleitt svo góða vöru, að hún sje fyllilega sambærileg við þá erlendu. Af þessu er það sýnt, að nauðsynlegt er að flytja allmikið inn af mjólk næstu árin, og er því af þessari ástæðu ótímabært að koma með slíkt frv. og í þetta, enda þótt rjett væri að fara þessa verndartollaleið, sem jeg vil þó alls ekki viðurkenna að sje.

Þá sagði hv., flm., að framleiðslan stæði undir sköttunum og yrði því Alþingi að taka tillit til þess og ljetta undir með framleiðslunni. Þetta er rjett hjá hv. flm., enda hefir Alþingi gert það. En það er rangt að ganga svo langt í þessum efnum, að skattleggja alla þá landsmenn, er þurfa að kaupa niðursoðna mjólk, til þess sjerstaklega að styðja þessa innlendu framleiðslu. Enda er það svo, að þessu fyrirtæki, sem þetta frv. er borið fram til hjálpar, hafa verið veittar svo margar ívilnanir af löggjafans hálfu, að nauðsynjalaust er að skattleggja þessa nauðsynjavöru þess vegna.

Jeg er samþykkur hv. flm. um það, að rjettmætt er að athugað sje í nefnd, hvernig innlend mjólkurframleiðsla verði best studd, því það er sitthvað þó mál sje athugað í nefnd eða hvort samþ. er ákveðið frv. um það sama efni. En jeg treysti því, að nefnd sú, er fær þetta mál til meðferðar, fallist ekki á þá leið í þessu máli, að skattleggja alla niðursoðna mjólk, heldur finni einhverja aðra betri leið til þess að koma innlendri mjólkurniðursuðu í gott horf.