15.03.1929
Neðri deild: 23. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1564 í C-deild Alþingistíðinda. (3128)

70. mál, innflutningstollur af niðursoðinni mjólk

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg er ekki meðmæltur þessu frv. og get í flestu tekið undir með hv. þm. Vestm. Yfirleitt mun óhætt að segja það, að verndartollar sjeu ekki til góðs, og þessi virðist vera fáum til hagnaðar. Jeg hefi í dag spurst fyrir um það, hvaða verð sje hjer á útlendri dósamjólk og komist að raun um, að hún mun yfirleitt vera seld hjer á 70 aura dósin. Mjallarmjólk kostar aftur á móti 45 aura dósin af eldri framleiðslu, en 65 aura sú yngri. Af eldri framleiðslunni hefir ekki tekist að selja nema lítið eitt, þrátt fyrir þennan mikla verðmun, og má af því marka, að hún sje ekki álitin eins góð og sú erlenda. Og þó 5 aura verðmunur sje nú á þeirri nýrri innlendu dósamjólk og þeirri erlendu, þá virðist ekki svo sem þeir, er best þekkja til, geri sjer vonir um, að hún geti rutt burtu af markaðinum þeirri erlendu. Þetta bendir aftur til þess, að sú íslenska mjólk sje ekki nógu góð til þess að geta kept við þá erlendu.

Tilgangurinn með þessu frv. er sá, að gera útlendu vöruna svo mikið dýrari, að hún verði síður keypt, enda þótt hún sje betri. Mun tollur þessi leiða af sjer ca. 10 aura verðhækkun á dós, og verður það að teljast allmikil hækkun. Beinn tollur verður samkv. frv. 6½ eyrir, en þar við bætist ýmislegur kostnaður, svo óhætt er að gera ráð fyrir, að dósin yrði seld á 80 aura í smásölu. Yrði þá 15 aura verðmunur á erl. dósamjólk og þeirri innlendu. Þetta, að leggja svona mikið á erlendu mjólkina, get jeg ekki fallist á. Mjer þykir með því of mikið lagt í sölurnar til þess að hjálpa „Mjöll“, því ef hún getur framleitt álíka góða vöru, þá hefir hún svo miklu betri aðstöðu, að hún ætti að geta útrýmt þeirri erlendu af markaðinum án slíkrar hjálpar, sem hjer er farið fram á.

Annars furðar mig ekkert á því, þó slíkt kvabb heyrist. Þetta kemur næstum því á hverju þingi í einhverri mynd. En alt slíkt er mjög varhugavert, því vanalega hefir það farið svo hjá þeim þjóðum, er rjett hafa fram litla fingurinn í slíkum málum, að þær hafa orðið að gefa alla hendina. Því ef einum atvinnuveginum er hjálpað með verndartolli, þá koma allir hinir á eftir og heimta að fá að vera með í dansinum. En þó jeg sje nú ákveðinn í því að vera á móti frv., þá hefi jeg svo sem ekkert við það að athuga, þó það fari í nefnd. Því betur sem málið er athugað, þess varhugaverðara mun mönnum finnast það.

Mjer þykir rjett að geta þess, að 3. gr. frv. met jeg ekki mikils. Er það bæði vegna þess, er hv. þm. Vestm. gat um, og svo af því, að þó atvmrh. sje með henni veitt heimild til þess að setja hámarksverð á innlenda dósamjólk, þá er honum það alls ekki skylt. Og þó hann notaði sjer heimildina, þá gæti hann tekið skipun sína aftur, hvenær sem honum þóknaðist. Enda hygg jeg, að ekki mundi líða á löngu áður en innlendir mjólkurframleiðendur heimtuðu það, til þess að geta notið verðhækkunarinnar til fulls. Þessi verðtollur mundi líklega nema ca. 50 þús. kr. á ári og er það enginn smáræðis skattur fyrir neytendurna á annari eins nauðsynjavöru eins og mjólk.