15.03.1929
Neðri deild: 23. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í C-deild Alþingistíðinda. (3132)

70. mál, innflutningstollur af niðursoðinni mjólk

Jóhann Jósefsson:

Það var um misskilning að ræða hjá hv. þm. Borgf., er hann sagði, að ekki gæti verið um annað að ræða en óþjóðrækni, þegar menn fylgja ekki slíkum verndartollum sem þessum. Jeg ætla ekki að fara að metast um það við hann, hvor okkar sje þjóðræknari, en andstaða mín gegn þessu frv. sprettur ekki af neinu þvílíku.

Það eitt er víst, að ef hin innlenda framleiðsla stendur ekki að baki hinni erlendu, hvað verð og vörugæði snertir, þá kaupa menn hana frekar. Jeg hefi nú sjálfur haft þá aðstöðu, að geta sýnt það í verkinu, hvorri vörunni jeg hampaði heldur, útlendri eða innlendri að öðru jöfnu og gæti sannað hv. þm. það ef svo bæri undir.

Hv. þm. mintist á það, að í útlöndum væru menn hvattir með auglýsingum og öðru til að kaupa innlenda framleiðslu, en hjer ætli alt af göflum að ganga, ef einhverju þvílíku sje hreyft. Jeg vil benda á, að það er alveg rjett hjá hv. þm., að í útlöndum er gert mikið til þess að vekja eftirtekt á innlendum framleiðsluvörum og hvetja menn til að nota þær. En við verðum að gæta að því, að þetta er aðeins gert með auglýsingum og slíku, en ekki beitt neinni þvingun, eins og tilætlunin er með þessu frv. Hjer er farið fram á alt aðra aðferð en að auglýsa vöruna og hvetja fólk til að nota hana. Hjer er farið fram á, að með skattþvingun sje fólki þrýst til að nota framleiðsluvöru, sem alls ekki er búin að ná fullkomnum gæðum. Við verðum að játa, að þessi framleiðsla er enn á byrjunarstigi. Hv. þm. áleit, að jeg hefði gert lítið úr verksmiðjunni. Það er alls ekki rjett. Þó að fyrirtækið sje efnilegt, er ekki hægt að segja, að það sje annað en vísir. Hv. þm. Mýr. (BÁ) benti á, hve gífurlega mikið væri flutt inn af mjólk, svo að allir sjá, að Mjöll væri mjög risavaxið fyrirtæki, þegar það væri komið á það stig, að geta fullnægt mjólkurþörf landsbúa.

Jeg get fullvissað hv. þm. um það, að þó að honum takist í bili að þröngva neytendum með lögum til að kaupa innlenda dósamjólk, þá er útkoman ávalt sú, að í þessu efni verður velli aðeins haldið á þeim grundvelli, að varan sje samkepnisfær um verð og vörugæði við útlenda framleiðslu. Það er sterkasti þátturinn til þess að afla vörunni markaðs. Jeg hefi bent hv. þm. Mýr. á þá framleiðsluvöru, sem á þann hátt hefir náð markaði, smjörlíkið. Það hefir að mestu leyti útrýmt útlendu smjörlíki. Og það er opin leið til að gera það sama í mjólkuriðnaðinum. Það er trú mín, enda hefi jeg fengið í reynslu í því efni, að eigi menn kost á að fá innl. vöru jafngóða og jafndýra samskonar vöru erlendri, þá taka menn heldur innlendu vöruna.