07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í C-deild Alþingistíðinda. (3147)

82. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg verð að taka undir með hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), að frv. þetta er hvorttveggja í senn: vanhugsað og bygt á fullkominni vanþekkingu.

Það er vitanlegt, að allir togarar geta haft í hverja veiðiför svo og svo mikið af veiðarfærum og þurfa því aldrei að hætta veiðum, þó að veiðarfæri sjeu gerð upptæk. Venjan er sú, að þau ein veiðarfæri eru dæmd upptæk, er brotið var framið með. Jeg hefi oft sjeð, að við þeim veiðarfærum, sem geymd eru í lest eða undir hvalbak, er alls ekki hreyft. Að sett er bann við því að selja sökudólg veiðarfæri, mun því alls ekki hafa neinar verulegar tafir í för með sjer fyrir þessa togara, nema um leið sje hert á þeirri venju, sem nú er um upptöku veiðarfæra.

Það hefir aldrei verið vani fyrir vestan að selja upptæk veiðarfæri fyr en viku eftir að dómur er fallinn, en skipin fara strax út á veiðar. Þess eru líka mörg dæmi, að erlend skip vilja alls ekki líta við því að kaupa aftur upptæk veiðarfæri. Í vetur var togari sektaður fyrir vestan, en nokkrir menn slógu sjer saman og keyptu veiðarfærin á 2000 kr. í von um að græða á kaupunum, en togarinn vildi ekki líta við veiðarfærunum fyrir það verð, hvað þá meira.

Það var rjettilega tekið fram af hv. 2. þm. G.-K., að veiðarfæri erlendra botnvörpuskipa eru oftast ónothæf á íslenskum skipum. Það getur að vísu stundum komið fyrir, að hægt sje að nota hlerana, en vörpuna ekki. Við notum gildari víra, eða um 3 þuml., en á erl. skipum munu þeir vanalega vera 2½ þuml.

Annars má setja skorður við því, að dæmdur togari geti þegar lagt út í veiðiför með sömu veiðarfærum og gerð voru upptæk. Það mætti gera á þann hátt, að dómsmálaráðherra fyrirskipaði að selja ekki veiðarfærin fyr en hálfum mánuði eftir dómsuppsögn.

Hv. flm. (HG) sagði, að á Ísafirði hefði það komið fyrir, að togari hefði, tveim dögum eftir að dómurinn var uppkveðinn, lagt út á veiðar með sömu veiðarfærum. En þetta eru ósannindi. Togarinn fór strax á veiðar eftir dómsuppsögn, en veiðarfærin voru ekki seld fyr en að viku liðinni, og allan þann tíma var togarinn á veiðum. Hitt er venja hjer í Reykjavík, undir handarjaðri dómsmálaráðherrans, að veiðarfæri eru seld samtímis og aflinn og stundum jafnvel á undan aflanum.

Ákvæðið gegn íslensku skipunum þykir mjer hart og þó einkum gagnvart útgerðarmönnum þegar svo stendur á, að þeir leggja fyrir skipstjóra áð fiska ekki í landhelgi, þá skuli samt, auk sekta, skipað svo fyrir, að kyrsetja skipið í 10 daga. Sjá allir, hvílíkt tjón það getur orðið fyrir útgerðarfjelagið. En þetta ákvæði er eigi að síður hart gagnvart skipverjum, sem oftast eða ávalt eru saklausir. Þeir mundu afskráðir þann tíma, sem skipið er kyrsett, en óvíst um atvinnu á meðan þeim til handa.

Annars hugsa jeg, að frv. þetta sje fram borið til árjettingar sögu, sem hv. flm. gaf fram hæstv. dómsmrh. til varnar undir eldhúsdagsumr., og ef til vill líka í sambandi við aðra sögu, er ekki var notuð fyr en síðar: að skip fjelags þess, er jeg veiti forstöðu, hafi misnotað loftskeytatæki sín, en það hefir reynst ósatt, eins og fleira úr „Skutuls“- herbúðunum. Hv. þm. hefir sjálfsagt sárnað, að blað hans á Ísafirði hefir verið sektað fyrir ósannindi og ummæli þess dæmd dauð og ómerk.

Frv. sem hjer er næst á eftir til umr. (bann gegn líkamlegum refsingum), hefi jeg skilið svo, að flutt væri til afsökunar á kensluaðferð hv. þm., en nú er svo komið, að það mun reynast sem vopn á sjálfan flm., því að hv. þm. Ísaf. (HG) mun hafa verið einna síðastur barnakennara fyrir vestan, sem beitti líkamlegum refsingum, svo að nokkru nam. Blátt auga og bólgin kinn hefir ekki sjest á skólabörnum vestra síðan hann ljet af kenslustörfum.