07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í C-deild Alþingistíðinda. (3148)

82. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. þm. N.-Ísf. lauk máli sínu á þá leið, að jeg mundi hafa verið síðasti kennarinn á Ísafirði, sem beitt hefði líkamlegum refsingum við börn. Mjer er engin launung á því, að jeg hefi einstöku sinnum í minni kennaratíð neyðst til að rjetta snoppung að böldnum drengjum, enda var slíkt algengt við þann skóla þá. Hitt er uppspuni einn, hv. þm. einum samboðinn, að jeg hafi gengið lengra í því en ýmsir aðrir. Um það geta meðal annars börn hv. þm. borið. Jeg hefi líka sannfærst um það með árunum, að það er betra að nota ekki slíkar aðferðir til aga. Þó að mjer sje ljóst, að snoppungur getur gert sitt gagn, undir vissum kringumstæðum, þá er hitt víst, að líkamlegar refsingar gera yfirleitt langtum meira ógagn en gagn. Þess vegna á að banna þær. Ef einn kennari beitir þeim, er erfitt fyrir aðra að komast hjá því, við sama skóla og sömu börn. — Hv. þm. er velkomið að búa til um mig óhróðursögur, ef honum er hugfróun í því og hann heldur sig með því geta leitt huga manna frá umræðuefninu hjer, sem jeg veit að honum er mjög illa við — af skiljanlegum ástæðum.

Það er nú svo með suma menn, eins og t. d. hv. 2. þm. G.-K. og hv. þm. N.-Ísf., að þeir virðast sjá drauga um hábjartan dag. Það er ekki hægt að bera hjer fram í hv. deild nokkurt mál, er viðkemur togurum og veiðum þeirra, án þess að þessir tveir þm. þykist óðara sjá hæstv. dómsmrh. ganga hjer ljósum logum. (ÓTh: Er þá hæstv. dómsmrh. draugur? — JAJ: Eru þetta ekki illmæli um hæstv. dómsmrh.?) Það er öllum vitanlegt, að þessir tveir hv. þm. virðast óttast hæstv. dómsmrh. eins og myrkfælin mannrola draug. Þarf ekki annað en horfa í andlit þeirra, er ráðh. minnist á fortíð þeirra; þeir vita að hann þekkir óhuggulega vel syndaregistur þeirra — og auma bletti.

Annars er rjett að drepa lítils háttar á, hvaða viðtökur hv. 2. þm. G.-K. og nokkrir flokksmenn hans veita öllum þeim till., sem bornar eru fram í því skyni að gera landhelgisgæsluna gagnsmeiri en hún er nú, eða hefir verið. Hver einasta viðleitni einstakra þm. í þessu efni er tekin sem persónuleg áreitni við þá. Svona er sálarástandið og öllu snúið öfugt. Þetta mætti að vísu skýra á einn veg og út frá því draga þá ályktun, að þessir hv. þm. sem jafnframt eru mjög við togaraútgerð riðnir, álíti að um leið og eitthvað sje gert til þess að herða á landhelgisvörnunum, þá sje verið að taka spón úr aski útgerðarmanna. Þó vil jeg ekki fullyrða að mótspyrna þessara manna gegn aukinni landhelgisgæslu sje af slíkum toga spunnin, en það, hvernig þeir haga orðum sínum í hvert sinn, sem á þessi mál er minst, gæti gefið tilefni til að ætla, að eiginhagsmunir spiluðu undir að meira eða minna leyti.

Hv. þm. N.-Ísf. tók svo til orða, að það væri hart gagnvart íslenskum útgerðarmönnum, sem bannað hefðu skipstjórum sínum að brjóta landhelgislögin, að fyrir óhlýðni skipstjóranna yrðu þeir, auk sekta, að þola bótalaust að skipið væri kyrsett í höfn í 10 daga. Og hv. 2. þm. G.-K. tók í sama streng, honum þótti þetta líka ákaflega hart og ósanngjarnt gagnvart útgerðarmönnum. Það lítur ekki út fyrir, að þeim finnist jafn hart og ósanngjarnt við smábátaeigendur að láta togarana skafa mið þeirra og eyðileggja veiðarfæri. Þeir sjá betur hörkuna við landhelgisbrjótana. Jeg játa að jeg hefi enga vorkunn með þeim skipstjórum, sem gera sjer leik að því að brjóta landhelgislögin, nje þeim útgerðarmönnum, sem halda slíka lögbrjóta í þjónustu sinni árum saman. Það mundi þegar talsvert bæta landhelgisvarnirnar, ef útgerðarmenn hefðu það fyrir reglu, að víkja hverjum þeim skipstjóra tafarlaust frá, sem bryti landhelgina. Og það er blettur á þeim, að þeir skuli ekki gera það. Alt rop þeirra manna um bættar og auknar landhelgisvarnir er ekkert annað en látalæti og yfirskin, meðan þeir sýna ekki þann manndóm að gera þetta. Þeim stendur þá á sama, hvernig um landhelgisvarnir fer og munda láta sjer líka, þó að engin gæsla væri höfð.

Báðir þessir þm., hv. 2. þm. G.-K. og hv. þm. N.-Ísf., fundu ástæðu til að kvarta fyrir hönd hásetanna á togurum. Þeir sögðu, að það væri hart gagnvart hásetunum, að kyrsetja skip, því að þá töpuðu þeir atvinnu sinni þann tíma. Það er óvanalegt að heyra slíka umhyggju fyrir togarahásetum frá þessum mönnum og ekki nema ánægjulegt, ef hugur fylgir þar máli — sem jeg tel efasamt mjög. Það er auðvelt að bæta úr þessu og tryggja það, að hásetar tapi ekki neinu með því að setja í frv. ákv. um, að hásetum skuli greitt fult kaup á meðan skipið er kyrsett.

Hv. þm. N.-Ísf. upplýsti það, að þeirri venju væri víðast fylgt að selja veiðarfæri samtímis og aflann og hafði hv. 2. þm. G.-K. svipaða sögu að segja. Liggur í augum uppi, hvað það þýðir. Það þýðir ekki annað en það, að skipin kaupa aftur veiðarfærin, enda sagði hv. 2. þm. G.-K. að það væri rjett hjá mjer, að það væri algengt, að sökudólgarnir færu strax á veiðar og dóminum væri fullnægt, og þarf því ekki að deila um að svo sje.

Hinsvegar segir hv. þm. N.-Ísf., að það sje venja t. d. á Ísafirði, að selja veiðarfæri að viku liðinni. En jeg hygg hann misminni þetta og að ekki liði altaf vika á milli, en þetta skiftir ekki miklu máli. Honum má vera kunnugt um þetta vegna veiðarfærakaupa sinna.

Mjer virtist hv. þm. N.-Ísf. harma það mjög, að menn fyrir vestan, sem keypt höfðu upptæk veiðarfæri fyrir 3000 kr. með það fyrir augum að selja þau útlendingum með hagnaði, hefðu tapað á þeirri verslun. Vonandi hefir þetta ekki hent hann.

Sami hv. þm. sagði, að það, að selja ekki útlendum skipum veiðarfæri, væri sama og að gera veiðarfærin verðlaus, því að íslensk skip gætu ekki notað þau, nema hlerana eina. Það er nú líklega mikið til í þessu, en hv. 2. þm. G.-K. upplýsti um það, að venjulega væri það svo, lítið verð, sem fengist fyrir veiðarfærin, að það mundi enga fjárhagslega þýðingu hafa. Er því engin ástæða til að setja það fyrir sig.

Þá upplýsti hv. þm. N.-Ísf., að venjulega væri það svo í framkvæmd landhelgislaganna, að aldrei væru öll veiðarfæri skipsins gerð upptæk, heldur aðeins þau, sem notuð væru á meðan brotið var framið, en skipin ættu oftast nægilega mikil veiðarfæri til þess að stunda veiðar áfram. Jeg veit ekki með vissu, hvort þetta er rjett, en sje svo, þá er hjer eflaust gengið á svig við lögin, því að hvergi er á það minst í lögunum, að nokkur hluti veiðarfæranna skuli vera undanskilinn. Samkv. 1. skilst mjer, að öll veiðarfæri skipsins skuli gera upptæk, en annars er fullkomin ástæða til að athuga, hvað rjett er í þessu.

Hv. 2. þm. G.-K. vildi efast um, að það væri rjett hjá mjer, að tilgangur landhelgislaganna væri hvorttveggja í senn: að láta skipin sæta vitum, sektum, og hægja þeim um tíma frá veiðum. Ef tilgangurinn hefði verið sá einn með lögunum, að láta skipin sæta fjársektum og fá sem mestar bætur í Landhelgissjóð, þá var einfaldast að hafa sektirnar hærri og sleppa veiðarfærunum, því að eins og áður er sagt, nemur andvirði þeirra litlum upphæðum. Með því að gera veiðarfærin upptæk og selja þau ekki strax, er skipunum bægt frá veiðum, eða a. m. k. tafið fyrir þeim, hefir það og tvímælalaust verið tilætlunin, er lögin voru sett.

Þá var svo að heyra á hv. 2. þm. G.-K., að ákvæði frv. væri fyrir honum viðkvæmt utanríkismál. En jeg held, að frv. þetta sje það ekki fremur en lögin nú. Hjer er aðeins um stigmun að ræða, engan efnismun. Annars má segja um öll lög, sem að einhverju leyti snerta hagsmuni erlendra manna, að þau sjeu utanríkismál. Hjer er ekki um annað að ræða en að herða á ákvæðum í gildandi lögum, svo að tilgangi þeirra verði betur náð.

Þá hjelt sami hv. þm. því fram, að ef lögin ættu að ná tilgangi sínum, þá kæmi refsingin harðara niður á erlendum skipum en íslenskum, af því að þau þyrftu að sigla út eftir veiðarfærum. Íslensku skipin yrðu kyrsett í 10 daga, og svipaðan tíma hjelt jeg það mundi taka fyrir erlend skip að sigla t. d. til Englands eftir nýjum veiðarfærum. En það má vel vera, að þetta sje of skammur tími og gæti jeg því til samkomulags gengið inn á að lengja kyrsetningu hinna íslensku sökudólga. Við eigum ekki að hika við að beita lögunum til þess að verja landhelgina. Tilgangur laganna er að venja menn af því að brjóta landhelgina, og jeg er ekkert feiminn við að beita ströngum refsiákvæðum í því skyni. Aðeins verður eitt og sama að ganga yfir innlenda sem erlenda sökudólga.

Hv. 2. þm. G. K. sagði, að erlendir sökudólgar mundu koma með krók á móti bragði og mundu hafa veiðarfæri liggjandi hjá vinum sínum og löndum í öðrum skipum. Jeg býst við, að það geti hugsast, að þeir reyni þetta, enda er ekki unt að smíða lög, sem ekki er hægt að brjóta, en með frv. er þó a. m. k. girt fyrir það, að þeir fái veiðarfærin fyrir lægra verð en þau kosta og þeim ósóma útrýmt, að íslenskir menn gerist erindrekar og verndarar hagsmuna erlendra veiðiþjófa í von um nokkurra aura eða króna umboðsgróða. Svo má altaf búast við, að það taki nokkurn tíma að bregða sjer t. d. vestur á Hala og hitta togara, sem svo er vel staddur að hafa aflögu veiðarfæri.

Báðir þessir hv. þm. (ÓTh og JAJ) voru innilega sammála um eitt, og það var það, að frv. þetta væri vanhugsað, óþarft í alla staði og næði ekki tilgangi sínum á neinn hátt. Jeg hefi ekkert um þau ummæli annað að segja en það, að jeg kann þeim vel. Æfinlega þegar bent hefir verið á ráð til gagnlegra breytinga á landhelgisgæslunni, hafa viðtökurnar í þessum herbúðum verið á þessa sömu lund. Reynslan hefir sýnt mjer, að þeim er ekkert áhugamál, að landhelgisgæslan komi að fullum notum, þeir fjandskapast jafnan á móti því, sem reynt er að gera til þess að smábátarnir geti haft veiðarfæri sin í friði og stundað atvinnu sína óáreittir af veiðiþjófum í landhelginni. Það er segin saga, að þessir tveir hv. þm. rísa altaf öndverðir gegn hverri einustu tillögu, sem borin er fram til að bæta landhelgisgæsluna og sjá um, að hún komi betur að haldi. Mjer er því ánægja að mótmælum þeirra. Þau eru viðurkenning þess, að frv. þetta er spor í rjetta átt og verður til mikils gagns, ef það nær samþykki þingsins.