02.04.1929
Neðri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í C-deild Alþingistíðinda. (3164)

96. mál, lyfjaverslun

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Jeg hefi ekki mörgu við það að bæta, sem stendur í greinargerð þessa litla frv. Eins og allir kannast við, hefir til þessa verið það skilyrði fyrir að mega reka lyfjaverslun á Íslandi, að leyfishafi hafi verið lyfjafræðingur. Af þessu hefir aftur leitt það, að hinn sami maður hefir orðið að fullnægja þeim tveimur skilyrðum, að hafa þekkingu í lyfjafræði, og ennfremur að hafa fjármagn til þess að koma lyfjabúðinni upp og reka hana. Aðrir en lyfjafræðingar hafa ekki mátt reka lyfjabúðir, þó þeir hefðu lyfjafræðing til að veita henni forstöðu. En aftur á móti hafa lyfjafræðingar ekki getað stofnað og starfrækt lyfjabúðir, nema þeir væru ríkir menn. Hefir því mátt heita svo, að lengi vel væri einokun í þessu efni hjer á landi, og ekki er alllangt síðan að einungis var ein lyfjabúð hjer í Reykjavík og fjórar á öllu landinu. Nú er að vísu orðin töluverð breyting í þessu efni, þannig eru t. d. komnar fjórar lyfjabúðir hjer í Reykjavík, og má eflaust við það una. En þrátt fyrir þá breytingu, sem orðin er í þessum efnum frá því, sem áður var, er samt langt frá því, að lyfjaverslunin sje eins frjáls og hún ætti að geta verið. Að sjálfsögðu verður altaf að gera strangar kröfur til þess, að sá, sem veitir lyfjaversluninni forstöðu, sje lyfjafræðingur, en að hann þurfi endilega að eiga hana sjálfur, sýnist vera óþarfi. Fer frv. þetta því fram á, að öðrum en lyfjafræðingum megi veita leyfi til þess að reka lyfjaverslun hjer á landi, þó með því skilyrði, að leyfishafi hafi fullkominn lyfjafræðing til þess að veita versluninni forstöðu.

Það mun nú tæplega geta orkað tvímælis, að almenningi sje engu síður þörf á því, að geta fengið lyf með vægu verði en aðrar vörur, því að vart munu sjúklingar eiga hægara með að kaupa dýra vöru en þeir, sem heilir eru. Mundi þessi breyting, sem frv. fer fram á, verða til þess að lækka lyfjaverðið.

Samkvæmt frv. þessu er ætlast til að einstökum mönnum, samvinnufjelögum og sveitar- eða bæjarfjelögum, verði veitt leyfi til lyfjaverslunar, og jeg gæti vel hugsað mjer, að það væri til bóta að breyta 1. gr. frv. þannig, að fleiri aðiljar gætu fengið þetta leyfi, eins og t. d. líknarfjelög. Jeg myndi því ekki verða á móti breytingum á frv., sem gengju í þessa átt.

Það eina, sem jeg get hugsað mjer að verði haft á móti því, að koma lyfjaversluninni í þetta form, er það, að menn óttist að minna öryggi verði í því, að forstöðumennirnir verði starfi sínu vaxnir. Til þess að fyrirbyggja slíkan ótta, er ekki nema sjálfsagt að krefjast þeirrar sjerþekkingar, og það mjög stranglega, sem skapar fult öryggi í þessum efnum. Út í þetta er ekki farið í frv., að öðru leyti en því, að ákveðið er, að lyfjafræðingar skuli veita lyfjaverslununum forstöðu. Gæti því verið rjettara að taka nánara fram um próf o. fl. Og ef þær kröfur eru gerðar nógu strangar, fæ jeg ekki sjeð, að nein hætta geti stafað af því, þó að forstöðumaðurinn eigi ekki verslunina sjálfur.

Legg jeg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn. að þessari umr. lokinni, og jeg mun að sjálfsögðu taka því vel, þó að nefndin geri á því breytingar, ef aðalefni þess fær að halda sjer.