02.04.1929
Neðri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í C-deild Alþingistíðinda. (3165)

96. mál, lyfjaverslun

Jón A. Jónsson:

Mjer finst, að með frv. þessu sje skotið yfir markið hjá hv. flm., því eins og kunnugt er, gefur heilbrigðisstjórnin út gjaldskrár fyrir lyfjabúðirnar og getur því ráðið verði lyfjanna. Með þessu fyrirkomulagi, sem stungið er upp á í frv., er verið að koma lyfjaversluninni inn á nýtt svið, sem mjer finst að geti orðið til þess, að erfiðara verði að fá góðar lyfjabúðir, því að það er vitanlegt, að til þess að reka lyfjaverslun þarf mikið fje, þar sem t. d. að liggja verður með lyf, sem kannske eru ekki notuð nema einu sinni á fleiri árum, en verða eigi að síður að vera fyrir hendi. Bindst á þann hátt oft mikið fje hjá lyfsölunum, og með því fyrirkomulagi, sem frv. gerir ráð fyrir, væri ekki um neinar smáfjárhæðir að ræða, sem fastar yrðu í þessari verslun umfram það, sem nú er, þar sem lyfjabúðum mundi fjölga stórlega. Menn hafa einskonar hjátrú á gróða þessarar verslunar, þó að nú hafi fengist reynsla fyrir því, að það er ekki gróðavegur að reka lyfjabúðir þar, sem fáment er. Þannig hefir t. d. reynslan orðið á Eyrarbakka, Sauðárkróki og jafnvel í Stykkishólmi nú í seinni tíð. Þá mundi og þurfa margfalt fleira fólk við þessa verslun, ef búðum fjölgaði svo stórlega, sem hjer er ráð fyrir gert. Um stórgróða af þessari verslun hefir því ekki verið að tala, nema ef vera kynni hjer í Reykjavík meðan lyfjabúðin var aðeins ein. En um það getur ekki verið að ræða lengur þar sem lyfjabúðirnar eru nú orðnar fjórar í bænum. Mun því hjer eftir ekki vera að vænta meira en sæmilegrar afkomu fyrir þær. Jeg held því, að það sje ekki rjetta leiðin til þess að gera lyfin ódýrari en þau eru nú, sem frv. þetta ætlast til að verði farin.

Á þinginu 1921 var hækkaður mjög tollur af vínanda þeim, sem notaður er til lyfja. Þessi hækkun mun nema alt að 100 þús. kr. á ári. Þar sem meiri hluti verðs flestra lyfja er vínandi, þá má nærri geta, að lyfin hafa hækkað stórlega við þennan tollauka og finst mjer rjett að byrja lækkun lyfjanna með því að fella tollaukann niður.