17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í C-deild Alþingistíðinda. (3186)

98. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg og hv. 1. þm. S.-M. leggjum til, að framlag ríkissjóðs verði ekki meira en 1/3 af kostnaði þeim, er af verki þessu leiðir, og það er í samræmi við skoðun mína og annara hv. þm. í svipuðum málum, sem á undan hafa farið, eins og t. d. frv. til laga um hafnargerð á Skagaströnd. Jeg álít, að nægilega langt hafi verið gengið með framlag af hálfu ríkissjóðs til hafna undanfarin ár, en þá hefir framlag ríkissjóðs vanalega verið ¼ og mest 1/3 kostnaðar. Við viljum því, að framlagið verði 1/3, og að ríkissjóður sje ekki ábyrgur fyrir meiru. Varhugavert að brjóta þá meginreglu, sem áður hefir verið fylgt um langt skeið, enda ekkert fram komið, sem rjettlætir það.