05.04.1929
Neðri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg er satt að segja hræddur um, að rekstrarlánastarfsemin í sveitunum bíði tjón við það, ef lánin til landbúnaðar og bátaútvegs eiga að vera algerlega aðgreind. Í þessu landbúnaðarplássi þar vestra, t. d. við Ísafjarðardjúp, sem þó sannarlega stendur ekki að baki landbúnaðarplássum annarsstaðar, er meginþorri hreppa þannig settur, að bændur stunda jöfnum höndum landbúnað og smábátaútgerð og þurfa því lán til beggja þessara atvinnuvega jafnt. Bændur eru þannig tvískiftir í atvinnurekstri sínum, og þá er það vitanlegt, að erfitt verður að halda aðgreindum lánum þeim, sem þessir menn taka, svo að ekki fari einn skildingur af því, sem til landbúnaðarstarfseminnar er tekið, til útvegsins. Þar sem hjer er um að ræða smábáta og litla mótorbáta, er áhættan sjerlega lítil. Hinsvegar er öllum vitanlegt, að mjög mikið af þeim miklu landbúnaðarframkvæmdum, sem orðið hafa í Norður-Ísafjarðarsýslu og við Ísafjarðardjúp sjerstaklega, er þannig til komið, að mennirnir hafa í mörgum tilfellum aflað sjer þeirra peninga á sjávarútvegi og lagt þá í landbúnaðinn, og það tel jeg ekki nema sjálfsagt, að þeir menn, sem þannig starfa, geti fengið rekstrarlán til sjávarútvegs jafnt og landbúnaðar, því að þar styður hvor annan, landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn.