09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

95. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Magnús Torfason:

Jeg hafði nú ekki búist við því, að hv. þm. Vestm. þyrfti að setja langar tölur á þessa fyrirvararæðu mína, einkum þar sem jeg endaði hana með því, að jeg myndi greiða frv. atkv. mitt.

Hv. þm. var að brýna mig með því, að jeg hefði áður verið á móti því að afhenda Vestmannaeyjabæ jörðina til eignar. En að því er það mál snertir, þá er það nokkuð, sem ekkert kemur þessu málefni við; til þess geta verið ýmsar aðrar ástæður, og þar á meðal blátt áfram sú, að jeg er alls ekki viss um það, að Vestmannaeyingar sjeu menn til að hagnýta sjer jörðina á rjettan hátt. Það er einhver hinn mesti vandi að stjórna lóðamálum bæjanna, og mjer virðist langt frá því, að menn sjeu komnir á þann rekspöl, sem æskilegur sje, með að hagnýta sjer lóðarrjettindi, eins og dæmin sýna hjer í bæ, þar sem ekki er hægt að byggja sjer örlítinn kofa, nema að kaupa sjer lóð fyrir fleiri þús. kr. undir húsið.

Jeg sagði aldrei, að jeg teldi ríkissjóði óskylt að láta fje til mannvirkja innan hafnarinnar, en jeg sagði, að jeg teldi ríkissjóði ekki eins skylt að gera það eins og að hjálpa til að bæta sjálfan hafnargarðinn, og við það ætla jeg að standa, án þess að jeg finni ástæðu til að færa fleiri sjerstök rök fyrir því og tefja tíma hv. deildar á þann hátt.