08.04.1929
Neðri deild: 39. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í C-deild Alþingistíðinda. (3219)

113. mál, ábúðarlög

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg get að mestu leyti að þessu sinni skírskotað til þeirrar grg., sem fylgir þessu frv. Eins og hún ber með sjer, þá er þetta frv. ásamt grg. þess samið af milliþinganefnd í landbúnaðarmálum.

Á síðastliðnu hausti kom n. hjer saman og starfaði um alllangan tíma að þessu máli ásamt fleirum. Við nefndarmenn gerðum þá ráð fyrir að hittast laust eftir áramót, en sakir óhappa og ýmsra orsaka fórst það fyrir, að við gætum unnið hjer saman eftir áramót. — Einn nefndarmaðurinn, Þórarinn hreppstj. Jónsson á Hjaltabakka, var forfallaður, sökum veikinda á heimili sínu, frá því fyrir jól og hingað til. — Þetta frv. er þó ekki smíði okkar tveggja, er flytjum það, heldur er það samið af okkur þremur. Höfum við flutt það óbreytt frá orði til orðs eins og við gengum frá því í n. í haust. Upphaflega var það ætlun okkar að lagfæra ýms smávægileg atriði í því, en þar sem við komum ekki allir saman, þótti okkur rjettara að flytja það alveg óbreytt eins og við gengum frá því. En þó við hefðum gert það, mundi það ekki hafa skift miklu, því að aðalefni frv. hefði verið í öllum aðalatriðum alveg það sama fyrir því.

Um grg. frv. er það að segja, að meðnm. okkar hefir að miklu leyti sjeð hana, en ef eitthvað er áfátt við hana, verður það að skrifast á reikning okkar flm., því að við gátum ekki borið okkur fullkomlega saman um öll atriði grg. Þá tel jeg mjer og skylt að geta þess f. h. mþn., að samvinnan innan hennar hefir verið hin besta bæði í þessum málum og öðru, og hefir þar verið hið fylsta samkomulag, bæði nú við undirbúning þessara mála og í fyrra um þau mál, er n. hafði þá til meðferðar.

Jeg býst nú við, að hv. þdm. hafi kynt sjer nokkuð þetta frv. og grg. þá, er því fylgir. Er í henni gerð grein fyrir helstu breyt. þeim, er felast í þessu frv., frá því er áður gilti. Mun jeg því að mestu leyti skírskota til grg. og fara lítið út í þær breyt., er við leggjum til, að gerðar verði á núgildandi ábúðarlöggjöf. Þykist jeg vita, að hv. þdm. sjái á því, er þar er ritað, að gert er ráð fyrir allmiklum breyt. Þó vil jeg fara örfáum orðum um þau helstu atriði, er við leggjum til að verði breytt, og þau, er við álitum skifta mestu máli.

Það er þá fyrst það, að við ætlumst til og leggjum áherslu á , að jarðareigandi leggi til hús hæði fyrir fólk og áhöfn, og annist auk þess viðhald þeirra. — Eins og kunnugt er, er það mjög óákveðið, hvaða hús og hve mikil fylgja jörðu hverri. Sumstaðar eru þau mjög ljeleg, sumstaðar lítil og sumstaðar ef til vill engin. Um viðhaldið er það svo, að það verður ábúandi að annast að öllu leyti, og hefir orsök þess stundum orðið sú, að hann hefir orðið að byggja upp hús næstum því að öllu leyti á jörðu þeirri, er hann hefir tekið við. Hafa svo þessir ábúendur enga tryggingu haft fyrir nokkru endurgjaldi fyrir þessi verk sín, ef þeir yrðu að fara frá jörðinni. Jeg get nú búist við, að við fljótlegt yfirlit kunni mönnum að vaxa í augum kostnaður sá, er jarðeigendur hljóta af þessu fyrst í stað, er þeir eru skyldaðir til þess að byggja húsin og annast viðhald þeirra. En þessi ákvæði hafa þó staðið í löggjöf vorri frá því að fyrst voru sett lög um þessi efni, t. d. Grágás og Jónsbók. Samkv. þeim voru jarðeigendur skyldaðir til þess að leggja til næg hús og annast viðhald þeirra. Þessi ákvæði giltu svo í raun og veru alt til þess, er ábúðarlögin frá 1884 voru samþykt. Reyndar hafði þetta þó breyst nokkuð áður, þó lagabókstafurinn stæði, því að þegar konungur varð hjer jarðeigandi, kom hann — á ólöglegan hátt þó af sjer þeirri skyldu, að hafa næg hús og annast viðhald þeirra. — Gerði hann þetta með tilskipun frá 29. nóv. 1622. En þegar hann hafði riðið á vaðið, komu aðrir jarðeigendur smátt og smátt á eftir.

Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur til þess að sjá, hvert ófremdarástand þetta skapaði í ísl. landbúnaði. Landbúnaðarsagan sýnir það ljóslega. Jarðeigendur munu í fyrstu hafa haldið, að þetta yrði þeim til hagnaðar. En það sýndi sig brátt, að reyndin varð alt önnur. Það sýndi sig, að er leiguliðar áttu að fara að annast þetta, varð það mörgum um megn, og gerðu þeir því oftast það allra minsta, er þeir gátu. Þetta varð og til þess, að ræktun jarðanna hnignaði, Afgjaldið lækkaði, eftir því sem ástandið versnaði, og mun óhætt að segja, að sparnaður sá, er jarðeigendur ætluðu sjer af þessu fyrirkomulagi, varð þeim beinlínis til fjárhagslegs tjóns.

Þegar Alþingi tók þetta mál til meðferðar 1845 — það hafði það síðan til meðferðar til 1884 —, þá mun það hafa vakað fyrir mönnum að hverfa aftur til hinnar fornu löggjafar um þetta efni, því ekki verður annað sjeð á umr., og samkv. till. mþn., er þá starfaði, áttu jarðareigendur að leggja til öll hús. En á síðustu stundu er þessum ákvæðum breytt í þá átt, að ekki þurfi að fylgja leigujörð önnur hús en þau, er tíðkast hafi í hverri sveit. Þessi ákvæði urðu svo þess valdandi, að ekki var gengið frekar eftir því, að hús fylgdu leigujörðum og að jarðareigandi annaðist viðhald þeirra. Hygg jeg, að flestir, er hafa kynt sjer búnaðarástandið í landinu, geti skilið, hvaða verkanir þetta hefir haft.

Eins og sjest á grg., hefir mþn. safnað skýrslum um ástand leigujarða og jarða í sjálfsábúð, til þess að fá sem best yfirlit yfir þetta. Bera þær skýrslur með sjer, að byggingar eru ljelegri og ræktun lakari á leigujörðunum heldur en hinum. Er orsökin vitanlega sú, að leigjendur vilja hliðra sjer sem mest hjá því að leggja í kostnað á jörðunum. Má og vera, að byggingarmátinn, og þá sjerstaklega hvað tímann snertir, hvað jarðirnar eru bygðar til fárra ára, eigi sinn þátt í því, þar sem jarðeigendur geta hagað því eftir eigin geðþótta, til hvað langs tíma og með hvaða skilyrðum jarðirnar eru bygðar. Enda mun það vera svo, að allur fjöldi jarða er aðeins bygður til fárra ára. Af þessu leiðir, að meðan mönnum er ekki trygður betri rjettur hvað ábúðina snertir, er varla að búast við því, að þeir sjeu fúsir til að leggja í mikinn kostnað hvað umbætur á húsum snertir, eða jafnvel ræktun. Þetta er mjög svo eðlilegt, ef ábúðin varir ekki nema stutta stund og hvorki ábúendur sjálfir nje afkomendur þeirra hafa nokkurn varanlegan rjett til að njóta umbótanna.

Í framhaldi af þessum till. okkar, að færa bygginga- og viðhaldsskylduna yfir á jarðareiganda, er sú till. n., að breytt verði byggingarmátanum og að bygt verði til lífstíðar. Það var jafnvel ofarlega á baugi í n. að ganga lengra en að láta ábúanda og konu hans njóta lífstíðarábúðar. Kom það og til orða, að láta niðjana njóta góðs af því líka, eða lögfesta erfðaábúð. Jeg fyrir mitt leyti var mjög fús til þess, því að jeg tel þá best sjeð fyrir góðri ábúð á jörðum, að ábúandi viti, að hann verður ekki aðeins aðnjótandi verka sinna, heldur og niðjar hans. Þetta er svo inngróið mannlegu eðli, að menn sjeu fúsari til umbóta, ef þeir mega ætla, að niðjar þeirra njóti verkanna. Það er jafnvel svo, að það er ábúanda meiri hvöt heldur en þó hann búist við að njóta þeirra sjálfur. Samt lagði mþn. ekki til, að svo langt yrði gengið, en mjer kæmi það eigi á óvart, þó þess yrði skamt að bíða, að þessum málum yrði álitið best borgið með erfðaábúð.

Ein undantekning er þó frá þessari lífsábúðarreglu, og hún er sú, að ef landsdrottinn þarf hana handa sjálfum sjer, barni sínu eða fósturbarni, getur hann bygt ábúanda út af jörðinni. Slíkt er mjög eðlilegt og ekkert við því að segja. Við höfum reynt að ganga svo frá, að ekki sje hægt að hafa þetta fyrir yfirskinsástæðu, með því að kveða svo á, að ef það kemur í ljós, að ábúandi notar jarðnæðið hvorki handa sjálfum sjer nje barni eða fósturbarni, heldur hleypir einhverjum öðrum á jörðina, þá hefir sá, er út var bygt, rjett til þess að krefjast, að hann fái jarðnæðið aftur og auk þess fullar bætur þess tjóns, er hann hefir beðið af þessu.

Þá er eitt atriði enn, sem að vísu skiftir nokkru minna máli en þau, er áður eru nefnd, en sem er þó þess eðlis, að ástæða mun vera til að breyta frá því, er gilt hefir hingað til. Á jeg þar við kúgildin. Í raun og veru er engin föst regla til um það, hve mikill leigupeningur skal fylgja hverri leigujörð. Sumum fylgir ekkert, og þeim jörðum, er kúgildi fylgja, er ekkert ákveðið um það, hve mikil þau skuli vera. Upphaflega var þetta sett til þess að jarðareigendur gætu á þennan hátt ávaxtað fjármuni sína, og stafar frá þeim tímum, er menn gátu eigi ávaxtað lausafje sitt. Þeir, sem þá voru auðugir að fje, urðu þá annaðhvort að setja það í jarðeignir eða að kaupa búpening, er þeir svo seldu á leigu. Leigan af þessu fje mun strax hafa verið nokkuð há (10%), en þó var hún lægri að hundraðstölu þá en nú. Um nokkurra ára skeið hefir hún verið frá 16–20%. Upphaflega hvíldi endurnýjun kúgildanna á landsdrotni, en síðar breyttist þetta leiguliðum til óhagræðis. Fyrst á þann hátt, að leigan hækkaði, og svo urðu þeir að ábyrgjast fyrningu og viðhald kúgildanna.

N. vill nú ekki láta banna það, að kúgildi fylgi, en vill láta mönnum frjálst að semja um það; en ef það er gert, þá er ákveðið hámarksgjald fyrir þau. Er það till. n., að það verði 6% af verði þeirra eftir verðlagsskrá. Hygg jeg, að það mætti teljast sæmilegt gjald. Vitaskuld skerðir þetta ákvæði nokkuð hagsmuni þeirra, er selt hafa á leigu, en jeg sje ekki ástæðu til þess að horfa svo mjög í það. Álíti jarðeigandi, að það sje gengið of nærri sjer, stendur honum opið að selja kúgildin, og getur þá ávaxtað fje sitt á annan hátt, í bönkum eða öðrum peningastofnunum. Jeg get því ekki sjeð, að þetta geti á nokkurn hátt talist ósanngjarnt gagnvart jarðeigendum. (HK: Þeir geta ekki selt þau). Það er misskilningur hjá hv. þm. Barð. Þeir geta a. m. k. altaf selt þau að ábúðartímanum loknum, og fáist samþykki leiguliða, geta þeir selt þau strax, og þykir mjer líklegra, að sú mundi oftast verða raunin á. Býst jeg við, að margur yrði feginn að losna við þau. (MJ: En hvað er um ákv. 1. gr.?) Jeg skal minnast á það síðar. Jeg vil biðja hv. þm. að minna mig á það síðar, ef jeg ætla að gleyma því.

Út frá því, er áður hefir verið drepið á, býst jeg ef til vill við, að hv. þdm. kunni að líta svo á, að jarðeigendum verði ekki ljett um að koma jörðum sínum í peninga, eftir að búið er að byggja jarðir með þeim skilyrðum, er gert er ráð fyrir í frv. En við höfum gert ráð fyrir því, að ef eigandi jarðar kysi að selja hana, þá stæði honum opin leið til þess, eða að losa hana úr ábúð, því samkv. 44. gr. getur landsdrottinn boðið leiguliða ábýlisjörð sína til kaups, en með fasteignamatsverði, að viðbættu virðingarverði umbóta á jörðinni, sem landsdrottinn á frá síðasta fasteignamati, með 3 ára greiðslufresti og bankavöxtum. Neiti leiguliði að kaupa, skal hann hafa fyrirgert ábúðarrjetti sínum.

Jeg geri ráð fyrir, áð fasteignamatsverð fari að nálgast hið sanna verðmæti jarðanna, og verð því að líta svo á, að jarðeigandi sje eigi neinu harðræði beittur, þó að hann verði, ef hann vill selja, að sætta sig við það, þó að verð jarðarinnar fari ekki fram úr fasteignamati. En þau viðurlög fylgja, að ef leiguliði vill ekki kaupa, hefur hann fyrirgert ábúðarrjetti sínum. Stendur þá jarðeiganda eftir það opin leið til þess að selja hverjum sem hann vill. Það hefur verið svo hingað til, að afgjald af jörðum hefur verið látið íhlutunarlaust af hálfu löggjafarinnar, og svo má heita að verði enn, enda þótt frv. þetta verði að lögum. Þó er í 34.–36. gr. frv. gert ráð fyrir, að slíkt geti átt sjer stað. Fyrst og fremst ef jarðir verða fyrir skemdum af völdum náttúrunnar, sem leiguliða verður ekki sök á gefin, og í öðru lagi ef leigumáli jarðar þykir óhæfilega hár, t. d. hærri en alment gerist í sveit þeirri eða hjeraði á líkum jörðum. Undir slíkum kringumstæðum er gert ráð fyrir í frv. þessu, að breyt. geti orðið á afgjaldi jarða, og er þá gert ráð fyrir, að fram fari mat á afgjaldinu, af þar til kvöddum mönnum, sem svo jafnframt ákveði, hvert afgjaldið skuli vera. Hvernig þessu mati skuli fyrir komið, geta hv. þdm. kynt sjer með því að lesa áðurnefndar greinar frv. Er svo til ætlast, að báðir aðilar, leigjandi og eigandi, skuli skyldir að hlíta gerðinni. Jeg þykist nú mega ætla, að samkv. þessum till. mþn. sje það fyllilega trygt, að hvorki jarðeigandi eða ábúandi verði fyrir ósanngjarnri meðferð hvað þetta snertir. En án slíks dóms um þessi mál, þá býst jeg við, að ilt muni að tryggja það, að jarðaafgjöld verði altaf hæfilega sett. Þessi ákvæði virtust n. því alveg nauðsynleg, og ekki síst til þess að hafa hemil á því, að menn geti braskað með jarðnæði og sett það í svo og svo hátt verð, eins og oft hefir viljað eiga sjer stað. Matsmönnunum er nefnilega alveg óskylt að líta á það, hvað jarðnæðið hefir kostað leigusala, heldur ber þeim að hafa til hliðsjónar við matið, hvað aðrar líkar jarðir eru leigðar í hjeraðinu. Til þess því að koma í veg fyrir jarðnæðisbraskið, er nauðsynlegt, að slíkt ákvæði sem þetta komist inn í ábúðarlöggjöfina, því að það hefir altaf sýnt sig, og ekki síst nú á seinni árum, að menn seilast eftir að ná í jarðir til afnota, ekki til þess að stunda á þeim búskap, heldur með það fyrir augum, að flytja burtu nytjar þeirra og selja þær þar, sem mest er hægt að fá fyrir þær. Slík skemdarverk landbúnaðinum til handa er nauðsynlegt að fyrirbyggja. Hvort mþn. hefir tekist að benda á bestu leiðina í þessum efnum, á tíminn eftir að leiða í ljós, ef frv. verður að lögum. En því treystum við þó altaf, að bendingar okkar geti orðið mikil hjálp til þess að koma í veg fyrir þessar háskalegu „spekúlationir“.

Þá kem jeg að því atriðinu, sem hv. 1. þm. Reykv. spurðist fyrir um áðan, hvað sje hæfileg áhöfn á jörð. Fyrirfram er vitanlega ekki hægt að setja neina algilda reglu um þetta atriði. Það fer eftir ástandi jarðarinnar á hverjum tíma, hve mikil áhöfn á hana getur talist hæfileg. Þegar því um það á að dæma, hvort jörð sje hæfilega setin, verður að meta kosti hennar og gera sjer ljóst, hve miklu hún getur framfleytt, og þá jafnframt að hafa til hliðsjónar aðrar líkar jarðir í hjeraðinu. Þetta getur verið erfitt verk fyrir þá, sem ókunnugir eru, en fyrir þá, sem vel þekkja til búskapar og eru kunnugir í hjeraðinu, á slíkt mat að vera mjög auðvelt. Annars má það vel vera, að þetta ákvæði þyki nokkuð losaralegt og æskilegt væri að hafa það í fastari skorðum. Annars var það tilgangur n. með þessu, að byggingarmátinn á jörðinni væri ætíð þannig, að hann væri ekki neinn hemill á hve áhöfn ábúanda væri mikil. Að ábúandi gæti vegna byggingarskilmálanna fullkomlega notið sín. En þetta má orða betur. Er því sjálfsagt að athuga þetta, því að þetta ákvæði á að verða trygging fyrir því, að menn geti ekki flutt nytjar jarðanna í burtu og annað þess háttar. Og að þess sje full þörf, munu þeir ekki efa, sem þekkja, hvernig fer um jarðir þær, sem liggja næst kaupstöðunum, þar sem jarðargróðinn er allur fluttur burt. Með slíkri rányrkju er líka gjaldþoli þeirra sveitarfjelaga, sem fyrir þessu verða, alveg ofboðið. Ber því hin mesta nauðsyn til að tryggja þau gegn slíkum aðförum.

Hvað snertir ákvæði frv. um úttekt á leigujörðum, þá eru þau í líku sniði og lagaákvæði þau, sem nú gilda um þau efni. Það er aðeins rækilegar um það búið, hvernig skipun úttektarmanna fer fram, og þeim er jafnvel lagt ríkara á herðar en áður að gæta vel starfa síns. N. vildi sem sje ganga sem best frá því, að eigendum jarðanna væri fengin full trygging fyrir því, að farið væri sem best með jarðir þeirra. Og slíkt verður að telja alveg nauðsynlegt.

Jeg vænti nú, að hv. dm. geti orðið mþn. sammála um, að hjer sje um gott og gagnlegt mál að ræða, mál, sem Alþ. beri að taka vel, og ráða til lykta á þann veg, að landbúnaðinum og þjóðinni í heild megi verða það til sem mestrar farsældar og heilla í bráð og lengd.