08.04.1929
Neðri deild: 39. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í C-deild Alþingistíðinda. (3221)

113. mál, ábúðarlög

Hákon Kristófersson:

Þegar jeg sá frv. þetta og hafði lesið dálítið í því, duttu mjer í hug orð góðskáldsins, sem sagði: „Það varðar mestu til allra orða, að undirstaðan rjett sje fundin, því við hana heill og gengi, heildin er að mestu bundin.“

Það er nú fjarri mjer að vilja kasta rýrð á n. þá, sem hefir undirbúið þetta mál, enda þótt jeg geti ekki verið henni sammála í öllum atriðum. Jeg viðurkenni þvert á móti, að hún hefir lagt mikla vinnu í undirbúning málsins og dettur ekki í hug annað en að hún hafi gert allar till. sínar eftir bestu sannfæringu, enda þótt svo virðist, sem hún hafi frekar bundið sig við eina hlið málsins heldur en að athuga það frá ýmsum hliðum.

Eins og hv. 1. þm. S.-M. benti á, er það ekki samkv. þingsköpum að fara inn á umr. um einstakar gr. frv. við 1. umr., en þó getur staðið svo á, að ekki verði hjá því komist, og svo stendur einmitt á í þessu tilfelli. Vænti jeg því, að hæstv. forseti taki ekki hart á mjer, þó að jeg við þessa umr. fylgi ekki þingsköpunum til hins ítrasta.

Hv. flm. frv. þessa sagði, að allir mþnm. stæðu sem einn maður um frv. þetta. Hvort svo er, skal jeg ekkert um segja, enda skiftir það engu máli í mínum augum, hvort það eru einn eða fleiri, sem standa að frv. Það hefir sína galla jafnt fyrir það.

Í 1. gr. er það meðal annars tekið fram, að ekki megi byggja neina jörð neina trygging sje fyrir, að hæfileg áhöfn verði á henni. Þessi ákvæði eru að mínu áliti alveg fráleit, eins og svo mörg önnur í frv. Bæði er það, að í mörgum tilfellum er ekki gott að segja um, hvað er hæfileg áhöfn, enda oft og einatt svo ástatt, að efnalítill maður óskar að fá jörð til ábúðar, en hefir ekki strax nægilega áhöfn á hana, en að nokkrum tíma liðnum getur hún orðið fullsetin. Þessi ákvæði n. virðast líka koma í bága við þá hugmynd hennar, að best væri, að leigupeningurinn yrði tekinn af jörðunum, því vitanlega er leigupeningurinn einn þáttur í því, að strax sje nægileg áhöfn á jörðunum.

Þá kemst n. að þeirri niðurstöðu, að rjett sje að leggja jarðaeigendum þá skyldu á herðar, að leggja til íbúðarhús fyrir fólk á jarðir sínar, og einnig fyrir búpening ábúanda. Jeg er sammála um fyrra skilyrðið, að jarðeigandi sje skyldur til að leggja til sæmilega baðstofu, sem sje nægileg fyrir þann fólksfjölda, sem þarf til að nytja jörðina. En hið síðara, að hann leggi til hús yfir áhöfn á jörðina, finst mjer ekki ná nokkurri átt. Það er líka jafnan hreyfanlegt. Einn ábúandi getur haft þörf fyrir þau peningshús, sem annar hefir ekki, og þá er ilt að skylda jarðeiganda til að byggja peningshús, sem ábúandi þarf ef til vill ekki að nota.

Þá sagði hv. flm., að ábúendur hefðu orðið að halda við jarðarhúsum, án þess þeir hefðu haft nokkra trygging fyrir, að þeir fengju það greitt aftur, t. d. þegar þeir færu frá jörðunum. Jeg skil ekki, hvað jafnágætir og greinagóðir menn eins og mþnm., sem að frv. standa, geta fullyrt um þetta langt aftur í tímann. Jeg veit ekki til, að orðið hafi ágreiningur út af þessum hlutum á síðari tímum milli jarðeiganda og ábúanda, svo framarlega sem ekki hafa verið bygð óþarflega dýr húsakynni. En það getur altaf komið ábúandi á jörð, sem sjer fært að byggja meiri og dýrari hús fyrir fjenað sinn en hægt er að komast af með, svo að sæmilegt sje.

Hv. flm. sagði ennfremur, að eigendur jarða ættu ekki aðeins að byggja upp húsin á jörðum sínum, heldur halda þeim við líka. Þetta er algert nýmæli. Þess vegna var það ekki að ófyrirsynju sagt af hv. 1. þm. S.-M., að þetta frv. þyrfti að athugast vel í n. og reyna að laga á því mestu gallana, en alls ekki verða að lögum á þessu þingi. Þetta álit hv. 1. þm. S.-M. get jeg algerlega fallist á, því brýna nauðsyn ber til, að svo verði að lokum gengið frá lögum þessum, að ekki þurfi strax að breyta þeim.

En hvað meina hv. flm. með því, ef ekkert álag á að fylgja jörðum? Þeir geta ef til vill skýrt það nánar, hvort það á að felast í afgjaldinu. (JörB: Já). En svo er annað ákvæði í frv., um að takmarka rjett jarðeigenda til að ákveða afgjald af jörðum sínum. Ef þetta frv. verður samþ., þá virðist það útilokað, að fullgildir verði taldir samningar, sem þó eru gerðir með góðu samkomulagi milli jarðeigenda og ábúenda. Það má vel vera, að núverandi ábúðarlöggjöf frá 1884 hafi ýmsa galla, en ef á að breyta henni, þá verður það að gerast með meiri sanngirni en lagt er til í þessu frv.

Hv. flm. sagði, að það hefði verið forn venja og lögum samkvæm, að jarðeigendur ljetu hús fylgja jörðum sínum til ábúenda; jeg hefi ekki, eins og hann, grenslast eftir þessu í gömlum lögum, og þetta er sjálfsagt rjett hjá honum. En hvernig voru húsin, sem fylgdu jörðunum? Baðstofuskrifli, sem menn nú á dögum mundu ekki líta við og gætu ekki notað. Jeg er því vel kunnugur, að húsakynni eru nú ekkert lík því, sem gömlu bæjarhúsin voru frá jarðeigendum á fyrri árum; því að þau voru gólflaus, loftlaus og gluggalaus. Nú eru þó baðstofur venjulega með lofti og sæmilegum gluggum, og fleiri breyt. hafa orðið í þessum efnum, sem jeg álít sjálfsagðar og sem mikið hafa bætt úr ástandinu. Eftir því sem jeg veit best, þá held jeg, að húsabætur sjeu minstar á jörðum ríkissjóðs. Það er að vísu ilt, að svo skuli vera, en þetta get jeg sannað með rökum, ef krafist verður. Jeg geri ráð fyrir, að þetta ólag sje aðallega að kenna umboðsmönnum opinberra jarðeigna, t. d. hreppstjórum þar sem þeir hafa jarðaumráð, og umboðsmönnum, sem sjerstaklega hafa verið skipaðir yfir þessar jarðir.

Hv. flm. benti á, að ábúð leiguliða væri svo ótrygg, að þeir gætu ekki ráðist í byggingar nje aðrar umbætur á ábýlisjörðum sínum. Jeg er honum sammála um það, að svo kunni að vera í mörgum tilfellum, enda þótt jeg þekki ekki til þess, og álit, að n. hafi farið helst til of skamt í þessu efni. Það ætti svo að vera, að eigi aðeins ekkja ábúanda, heldur og niðjar þeirra hefðu ábúðarrjettinn trygðan.

Hv. flm. sagði, að byggingar væru jafnan ljelegri á leigujörðum heldur en á jörðum, sem væru í sjálfsábúð. Það má vera, að svo sje, og við það má að nokkru leyti miða kröfurnar, en þó ekki að fullu; sumstaðar eru sjálfseignarjarðir algerlega yfirbygðar af dýrum húsum. Það geta þeir leyft sjer, sem hafa mikil efni eða í lánstraust, og þarf ekki langt að leita til að sanna það.

Hv. flm. talaði um, að frv. gerði ráð fyrir, að þó að jarðnæði væri leigt ábúanda til lífstíðar, þá væri landsdrotni heimilt að taka jörð sína úr ábúð handa sjálfum sjer, barni sínu eða fósturbarni til eignar og ábúðar. Jeg álít varhugavert að taka jörð af ábúanda, þó að eigandi þurfi hennar við. Þó það sje dálítið erfitt að hugsa sjer, að hann geti ekki tekið jörð sína sjálfur til ábúðar, þá er engu síður hart að vísa þeim manni burt, sem vel hefir setið ábýli sitt. — Jeg hefi komist svo langt að eignast nokkrar jarðir, og þó að jeg sje ekki talinn sjerstaklega jafnaðarsinnaður, þá datt mjer ekki í hug að taka þær úr ábúð, enda þótt jeg þyrfti á þeim að halda sjálfur.

N. leggur til í frv., að kúgildin verði tekin af jörðum, og er þar um mikla breyt. að ræða. Hv. flm. sagði, að þau myndu ekki vera föst á jörðunum. Jeg vil ekki væna n. um ósannindi, en það er mjer kunnugt um, að á Vestfjörðum fylgja þau jörðum yfirleitt öllum. Þó að á örfáum jörðum hafi það hlunnindi verið tekin undan og afgjaldið hækkað, til þess að græða sem mest á leigunni, þá eru það algerlega undantekningar frá reglunni. Leiguliðum eru það oft mikil þægindi að fá kúgildi til afnota við byrjun búskapar.

Hv. flm. sagði, að leigan af þessum búfjenaði hefði komist upp undir 20%, og taldi það óhæfilegt. Sagði hann, að n. hefði viljað reisa skorður við þessu og binda leiguna við 6%. Í sambandi við þetta vil jeg benda á það, að hjer er ekki sanngjarnt að miða við peningavexti, því fjenaður gefur af sjer miklu meiri arð en nokkrir peningar. Þar af leiðandi verður að miða við það verðmæti, sem felst í hverju kúgildi, þegar miðað er við arð af því. Það er ekki einsdæmi, að menn hafi á sömu árum og þegar leigan fór hæst, fengið leigðan fjenað hjá öðrum með sama leigumála. Hafi leigumálinn verið sanngjarn á fyrri öldum, þ. e. 2 fjórðungar af smjöri eftir hvert kúgildi, þá er hann það enn. (BÁ: Hann hefir aldrei verið sanngjarn). Hv. þm. Mýr. hefir ekki við neitt mat að styðjast í því efni og getur ekkert um það sannað. Eða hvers vegna hafa menn sótst eftir því að fá kúgildin, sem fylgdu jörðunum? (BÁ: Af neyð). Nei, alls ekki. Jeg hefi sjálfur tekið kúgildi. Að vísu skal jeg viðurkenna, að jeg hefði heldur viljað eiga fjenaðinn; en sá, sem ekki getur keypt búfjeð, verður að fá það að láni. (BÁ: Neyðast til þess). Þá má með sama rétti segja, að alt, sem maður tekur að láni, sje gert af neyð. En þó geta lánin oft orðið til mestu blessunar. (BÁ: Ekki svona dýr). Hvað dýrleikann snertir, þá verður leigan að miðast við það, sem leigupeningurinn gefur af sjer á hverjum tíma, eins og jeg hefi þegar bent á. Og ef ekki getur orðið samkomulag um leigumálann, þá er ætlast til samkv. frv., að úttektarmenn skeri úr. Jeg veit ekki dæmi til þess, að ekki hafi orðið samkomulag um þetta milli aðila, og tel því ígrip löggjafarvaldsins óþörf hvað þetta snertir. Hv. flm. sagði, að á mörgum jörðum væri enginn kúgildafjöldi ákveðinn. Það má vel vera rjett, en til þess þekki jeg ekki. Jeg veit, að á mörgum jörðum er fastákveðinn kúgildafjöldi, sem ekki má hreyfa við, og sala á þeim er útilokuð, þó að eigendur vildu láta þau af hendi. Hv. flm. sagði, að eigendum þeirra væri vorkunnarlaust að sætta sig við almenna bankavexti í leigu eftir þau; það eftirgjald er orðið svo alment í viðskiftum hjer á landi. — Það má vel vera, að þetta geti gengið, en agnúar munu á því verða, eins og jeg hefi tekið fram. Jeg skil annars ekkert í því, að mþn. skyldi telja sjer skylt að hrófla við núgildandi byggingarbrjefum og leggja til, að þau fjellu úr gildi innan ákveðins tíma. (JörB: Það er ekki rjett frá skýrt). Það er fram tekið í frv. sjálfu, að þau eiga að missa gildi sitt, og hv. flm. benti sjálfur á þá gr., sem um það fjallar. Það mun vera rjett, að afgjald jarða er látið vera án íhlutunar löggjafarvaldsins, enda verður löggjafarvaldið að álíta sjer óheimilt að grípa inn á svið samningamála milli einstaklinga En samkv. frv. þessu á þeim ekki að vera heimilt að semja vinsamlega sín á milli um mál, er varða ábúð jarða, án íhlutunar löggjafarvaldsins.

Hv. flm. sagði, að leiguliði gæti neitað að taka við jörð, án þess að afgjaldið væri metið og verðlagt. Það má segja, að alt mögulegt getur átt sem vera ber. Jeg held, að hún hafi helst til mikið bundið sig við sjerstök dæmi þess, að landeigendur hafi misnotað umráðarjett sinn og farið illa með jarðirnar og leiguliða. En ef svo er, verð jeg að telja það mjög illa farið að láta slíkt koma fram í löggjöf, sem á að gilda fyrir alt landið um lengri tíma eða skemri.

Sömuleiðis get jeg tekið undir með hv. 1. þm. S.-M., að slíkt stórmál sem þetta megi ekki afgr. án nákvæmrar rannsóknar og yfirvegunar. Það verður að ganga svo frá því, að eigi þurfi altaf að vera að breyta, því slíkt kemur því bagalegar, sem á þessari löggjöf þarf að halda árlega. Því held jeg, að best færi á því, að frv. væri athugað í n., en að svo stöddu legði Alþingi eigi síðustu hönd á það. Jeg þykist mega treysta því, að það sje svo mikill minni hl. jarðeigenda, sem n. byggir skilning sinn á, og hefir gert þessar sjerstöku varúðarráðstafanir gegn rangsleitni þeirra gegn ábúendum, að ekki sje ástæða til að lögleiða slíkar ráðstafanir einungis af þeim ástæðum. Auk þess ber og á það að líta, að eftir þessu frv. er eignarrjetturinn ef til vill óskertur, en umráðarjettur landeiganda er svo stórlega skertur, að tæplega virðist öllu lengra mega ganga. Og mjer er næst að halda, að frv. gangi í ekki óverulegum atriðum mjög nærri eignarrjettinum. Jeg hefi að vísu enn ekki getað borið frv. þetta saman við stjskr. okkar og gengið úr skugga um, að hve miklu leyti það brýtur í bága við hana, en til þess mun gefast tækifæri síðar. T. d. eru samkv. frv. friðsamlegir samningar, sem engum ágreiningi hafa valdið, gerðir ónýtir eða ómerkir og stofnað til skriffinsku og óþarfa kostnaðar þess í stað.

Hv. flm., sem sjaldan skortir rök fyrir sínu máli, færði nú engin óyggjandi rök fyrir þessum stórfeldu breyt. sem í frv. felast, og þeim stórfeldu afleiðingum sem óhjákvæmilega hlytu að leiða af frv., ef það yrði að lögum. Jeg hafði satt að segja búist við meiri rökum úr þessari átt. Jeg vil aðeins benda á eitt smáatriði sem dæmi. Getur hv. flm. bent á nokkurt dæmi þess, að óhagræði hafi orðið að því, að byggingarbrjef hafa ekki verið þinglesin? Jeg efast um það. En ef svo væri, þá kæmi slíkt óhagræði niður á landsdrotni. Ef hann vanrækir að gefa leiguliða byggingarbrjef, þá er leiguliði ekki skyldur að greiða hærra afgjald en honum gott þykir, nema landeigandi sanni, að öðruvísi hafi verið ákveðið.

Jeg vona, að hv. n. skilji það, að þetta er algerlega kalalaust af minni hálfu, en jeg tel illa farið, að slíkir heiðursmenn sem hjer eiga hlut að máli, skuli hafa viltst út á þessa viðsjálu götu gjörræðisins. Og þótt enginn þeirra eigi jarðir, sem jeg veit ekkert um, þá hefði jeg vænst þess af þeim, að þeir hefðu tekið eitthvert tillit til hagsmuna þeirra, sem jarðir eiga, en ekki þrælbundið sig svo við hagsmuni annars aðilans, leiguliðanna, að engin sanngirni komist að. Jeg mun þó greiða atkv. með málinu til n., bæði vegna þess, að hjer er um stórmál að ræða, og ekki síður vegna þeirra heiðurs- og sómamanna, sem að frv. standa og sem jeg vil gjarnan sýna alla kurteisi. Ef það á fyrir. frv. að liggja að ná endanlegu- samþykki. Alþ., þá vil jeg fastlega krefjast þess, að sniðnir sjeu af því stórfeldustu agnúarnir, en helst hefði jeg kosið, að það yrði strádrepið þegar í stað, einkum með tilliti til þeirra megingalla í öllum verulegustu atriðunum, sem jeg hefi nú lítillega bent á og sem jeg mun fá betra tækifæri til síðar.