08.04.1929
Neðri deild: 39. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í C-deild Alþingistíðinda. (3222)

113. mál, ábúðarlög

Halldór Stefánsson:

Þegar jeg kvaddi mjer hljóðs áðan, vissi jeg ekki, hvort aðrir myndu verða til að gera aths. eða ábendingar við frv. það, sem hjer liggur fyrir. Nú er minni ástæða til að gera ítarlegar aths., þar sem aðrir hafa talað og bent á marga helstu agnúa frv. Þó vil jeg ekki taka undir alt það, sem fundið hefir verið að frv. Auk þess er málið svo seint fram komið, en hinsvegar svo yfirgripsmikið og mikilvægt mál, að litlar líkur eru til þess, að tími vinnist til að afgr. það á þessu þingi, enda vafasamt að flýta því svo mjög. Jeg mun því eigi fara ítarlega út í einstök efnisatriði frv. En jeg vil benda hv. þdm. á það, að þar sem í frv. felast margar og stórfeldar breytingar á núverandi ábúðarlöggjöf, þá má síst kasta til þess höndunum, heldur verður málið að athugast sem best og gaumgæfilegast.

Meðal þeirra breyt., sem jeg tel mikilvægastar, tel jeg þær tvær, að bannað er að byggja jarðir nema til lífstíðar, og að landeiganda er gert að skyldu að eiga öll hús á jörðinni. Jeg er þessu fylgjandi í aðalatriðum, en þó þykir mjer helst til langt gengið að ætla jarðeigendum að eiga öll peningshús á jörðum. Það geta verið mjög mismunandi mikil peningshús, sem hinir einstöku ábúendur þykjast þurfa, og getur slíkt komið óþægilega við jarðeiganda, og virðist mjer einsætt, að setja verði einhverjar takmarkanir á skyldu jarðeiganda til að eiga hús á jörðum sínum.

Jeg ætla þá að minnast lítillega á ýms atriði, sem mjer virðist mjög geta orkað tvímælis.

Það er þá fyrst það, að bannað er að byggja jarðir, nema ábúandi hafi hæfilega áhöfn. Þetta ákvæði er miður heppilegt að því leyti, að það getur í mörgum tilfellum orðið til þess, að jarðir byggist ekki. Efalaust hefir það þó ekki verið ætlun n. Það getur hæglega hent, að margur vilji fá jörð til ábúðar, en hafi ekki það, sem metið verður hæfileg áhöfn, og þá má ekki byggja jörðina eftir ákvæðum frv. Það verður þó að teljast betra, að jörð komist í ábúð, þó áhöfn sje lítil, en að hún fari í eyði. Hitt væri hóti nær, að orða gr. á þá leið, að ávalt skyldi „leitast við“ að byggja jörð með hæfilegri áhöfn.

Ennfremur er svo ákveðið í frv., að ef jarðeigandi getur ekki bygt jörð, þá skuli hann bjóða sveitarstjórn hana, og ef hún þiggur það, þá hafi hún heimild til þess að skifta jörðinni niður í smábýli, en landeiganda gert að skyldu að byggja upp á smábýlunum. Þetta getur verið gott, ef landeigandi er fær um þetta fjárhagslega, en ef hann er það nú ekki, — hvað þá? Að vísu gæti hann á stundum fengið stuðning til þess úr byggingar- og landnámssjóði, en ef t. d. ekkert ræktað land fylgir býlinu, þá getur hann ekkert fje fengið til þess, eins og lög standa til nú.

Þá er enn eitt, að vísu lítilsvert, atriði, sem jeg verð að telja mjög hæpið. Það er kveðið svo á, að þinglýsa að þetta sje meðal þeirra ákvæða, sem n. vill bæta úr, og felli því þetta niður síðar.

Þá þykja mjer ákvæði 33. gr. nokkuð óákveðin. Þar er svo ákveðið, að þegar landsdrottinn samkv. skyldu sinni byggir upp jarðarhús á leigujörð, þá skuli leiguliði vinna að því með skylduliði sínu, eins og hann getur afkastað fram yfir brýn heimilisstörf. En hver á nú að meta þessa hluti? Ætli þetta framlag verði ekki stundum nokkuð takmarkað? Og ef leiguliði getur ekkert, á þá verkið að vera ógert, eða á það að leggjast á herðar eiganda sem aðrar skyldur? Þegar litið er til gr., þá lítur svo út, að það sje jarðeigandi, sem á að gera verkið. Jeg bið velvirðingar á því, ef þetta er rangt ályktað. En mjer finst alt benda til, að svo sje ekki. Jeg hygg, að fæstir leiguliðar þættust geta mist mikla vinnu frá nauðsynlegum heimilisstörfum. (JörB: Á leiguliði að meta það einn?). Nei, það á nú líklega að hlaupa með það til úttektarmannanna, sem alt vald er gefið samkv. þessu frv., bæði um það sem annað. Hjer sem annarsstaðar er auðsæilega verið að þrengja rjetti jarðeiganda, og er farið þar svo langt sem n. hefir sjeð sjer fært að fara. Og það svo hamramlega, að ótækt verður, ef frv. er lögfest, að eiga jarðir í leiguábúð, eins og hv. 1. þm. S.-M. líka tók fram.

Þá held jeg, að ákvæði 42. gr. frv. geri það torvelt, að ágóði verði að þeim jarðabótum, sem þar er gert ráð fyrir. Svo þau ákvæði 43. gr., þar sem ákveðið er, að hinar ýmsu kröfur, sem umgetur í 41., 42., 15. og 16. gr. frv., skuli hafa forgangsrjett í bú landsdrottins. Hjer er um sama ósamræmið að ræða og jeg gat um áðan viðvíkjandi hækkun eftirgjalds, miðað við tilkostnað landsdrottins.

Þá kemur 44. gr., um kaupskyldu á leigujörðum. Sjá ekki allir, hve ákvæði hennar eru óhæfileg? Er frelsi manna nokkurstaðar takmarkað svo á öðrum sviðum? Ef svo er ekki, hvers vegna telur n. sjer þá sæmilegt að koma fram með slíkar takmarkanir, sem lýsa sjer í gr. og jeg hefi bent á?

Þá kemur 45. gr., sem gerir ráð fyrir úttekt á jörðum. Er ekkert um það að segja í sjálfu sjer. En vegna þess að jeg hefi ekki átt kost á því tímans vegna, að ath. þetta frv. til hlítar, þá vil jeg spyrja hv. flm., hvort meiningin sje, að taka þurfi út jarðir, ef báðir aðilar verða sammála um viðskifti sín öll. Má vera, að þetta standi í frv., en jeg hefi ekki sjeð það. Mjer finst rjett, ef báðir aðilar koma sjer saman, að það verði látið jafngilda úttekt. Jeg býst nú frekar við því, að þetta sje meining n., en þori þó ekki að fullyrða það.

Þá gerir 47. gr. ráð fyrir því, að úttektarmenn sjeu skipaðir til 12 ára. Mjer finst það óhæfilega langur tími, ef þeir ekki vilja það sjálfir. Mjer hefði þótt rjettara að hafa gamla ákvæðið áfram og sje ekki, að neitt hefði verið á móti því að taka það upp í nýju lögin. Þetta er að vísu eins og svo margt annað í þessu frv. En það verður hver að gera það upp við sjálfan sig, hvort leggja skuli þetta svo langan tíma á herðar manna, sem fá ljelegt kaup fyrir starfa sinn.

Það er máske vegna ónægrar ath. á frv., að mjer hefir skilist svo, að jarðeigandi eigi ekkert álag að fá við úttekt leigujarða. En í 50. gr. er þó gert ráð fyrir því, að álag megi taka fjárnámi í eigum fráfaranda handa viðtakanda. En fái hann ekki þetta álag, er landeiganda skylt að greiða það. Þetta er víst í samræmi við aðrar kvaðir, sem á hann eru lagðar!

Jeg man ekki fyrir víst, hver ákvæði gilda nú um greiðslu á kostnaði við yfirúttekt. En mig minnir, að hún sje miðuð við þá breyt., sem yfirúttekt gerir um álagsupphæð. Og það er vitanlega rjett, að miða skifting kostnaðar við það. Frv. þetta gerir ráð fyrir, að ef engu er breytt, þá á yfirúttektarbeiðandi að greiða allan kostnaðinn. En svo kemur það, að ef einhverju er breytt, þótt ekki sje nema 1 kr., þá eiga aðiljar að greiða að hálfu hvor samkv. 45. gr. Þetta þykir mjer ekki rjettlátt.

Þá kveður 11. kafli frv. svo á, að „þegar lög þessi öðlast gildi, þá skal um fardagaleyti næsta ár á eftir fara fram úttekt á öllum leigujörðum landsins“ o. s. frv. — Jeg skil nú ekki, hver meiningin er með því að fara að stofna til þvílíks allsherjarkostnaðar, hvort sem leiguliðaskifti verða eða ekki. Jeg get ekki skilið, hvað n. meinar með þessu. Nú geta leiguliðar krafist úttektar á húsum samkv. frv., hvenær sem er, ef þeir telja þau óhæf, svo að ekki þarf allsherjarúttekt vegna þeirra. En þar sem ekki er um slíkt að ræða, sje jeg enga nauðsyn á, að úttekt fari fram. Í sömu gr. stendur líka: „Álag greiðir leiguliði á jarðarhús eftir mati úttektarmanna.“ Á að skilja þetta svo, að leiguliði eigi að greiða álag eftir mati? (JörB: Já). Já, segir hv. flm., og það var honum líkt að svara þessu undandráttarlaust. En fyrst svo er, hvað á þá sú álagsgreiðsla að þýða? Ef leiguliði er kyr á jörðinni, til hvers á hann þá að greiða álagið? Til sjálfs sín, eða hvað? Jeg hefi ekki heyrt þess fyr getið, að álag sje greitt fyr en við fráför leiguliða.

Samkv. 54. gr. á landsdrottinn að hafa gert upp öll jarðarhús, áður en skoðunargerð úttektarmanna fer fram fimta hvert ár. Ef þetta er vanrækt, þá liggur sú hegning við, að leiguliði getur flutt af jörðinni fyrirvaralaust og án þess að bæta landsdrottni nokkuð fyrir. Hvernig ber nú að skilja þetta? Á að skilja það svo, að leiguliði eigi ekki að greiða afgjaldið? Menn greiða þó venjulega jarðarafgjöld eftir á. Jeg vona að mjer missýnist, — eða er hv. 1. þm. Árn. að hrista höfuðið? Hann veit þó sennilega, að landsskuldir eru ávalt greiddar eftir á, enda leiðir það af eðlilegheitum, að menn þurfi ekki að greiða fyrir landsnytjar fyr en þeir hafa notað þær.

Jeg hljóp yfir þau ákvæði 37. gr„ að engan viðarreka megi undanskilja leiguliðanotum, sem áður hafi fylgt jörðu. Á n. hjer við þann viðarreka, sem hingað til hefir tilheyrt leiguafnotum? Ef sá er skilningur n., eins og vera ber, þá get jeg algerlega fallist á hann. En ef svo er ekki, þá er hjer um alvarlega skerðing eignarrjettarins að ræða. Það virðist næsta hart að gengið, að landeigandi skuli ekki eiga reka, sem er yfir 6–7 álnir t. d., úr því hann á að viðhalda húsum öllum á jörðinni. Jeg skil annars ekki, hvað leiguliði á að gera við reka, þar sem hann má ekki byggja hús á jörðinni.

Jeg verð að segja hv. 1. þm. S.-M., að jeg er honum sammála um, að n. leggi eigi þann skilning í þessi mál sjer stað samkv. þessu frv. Ennfremur sagði hv. flm., að við mat á afgjaldi mætti ekki taka tillit til þess, hvað jörðin hefði kostað. Þetta getur í ýmsum tilfellum valdið hinum mesta órjetti.

Þá er meðal annars ætlast til þess í frv., að byggingarbrjef skuli ávalt vera þinglesin, og án þess hafa þau ekki fult gildi. Þetta væri gott og ekkert við því að segja, ef n. veit til þess, að það hafi valdið óhagræði og árekstrum, að byggingarbrjef hafi ekki verið þinglesin. Annars er það hin mesta óhæfa að valda einstaklingum slíkum kostnaði, að jeg nú ekki tali um hina ónauðsynlegu aukningu á skriffinnsku. Eða hver á að borga þinggjaldið?

Hin nýju ákvæði í frv. um þá vanrækslu landsdrottins, að gefa eigi út byggingarbrjef til leiguliða, eru ekki betri en í gömlu lögunum, því að þá á að leggja alt á vald úttektarmanna.

Þegar breytt er lögum eins og þessum, um ábúðarskilmála, þá verða menn að vera sannfærðir um, að breyt. sjeu til batnaðar; en um þær breyt., sem hjer er um að ræða, má segja, að ef þær eru ekki til hins verra, þá eru þær að minsta kosti óþarfar. Þeim fylgir aukin skriffinska yfirleitt í landinu, og óþarfa kostnaður við þinglýsingar skjala o. fl. Jeg vona, að hv. n., sem fær frv. til meðferðar, sjái sjer að minsta kosti fært að fella úr frv. ákvæðið um þinglestur byggingarbrjefa.

Um ákvæði 11. gr. frv., er skylda landsdrottin til þess að láta peningshús fylgja leigujörðum sínum, hefi jeg áður talað. Mig furðar á því, ef hv. landbn. kemst ekki að sömu niðurstöðu og jeg um það atriði, að óhæfilegt sje að ætlast til þess, að landsdrottinn byggi peningshús yfir fjenað, sem hann á ekki. Jeg veit ekki, hvað mþn. hefir haft í huga til samanburðar í þessu efni, nema ef það eru skólabúin á Hvanneyri og Hólum, þar sem ríkið hefir bygt yfir búpening, sem það á ekki sjálft. Jeg skil ekki, að það sje svo eftirbreytnisvert að skylda eigendur jarða til að fullnægja slíkum kvöðum; þær keyra svo úr hófi, að því er kostnað snertir.

Það eru dálítið undarleg ákvæði, sem felast í 12. gr. frv., að tala um, að aldrei skuli meta álag á jarðarhús og að landsdrottinn beri alla fyrningu; en þó er leiguliði skyldur að halda húsum við þannig, að ekki fyrnist um skör fram fyrir handvömm.

Eru ekki ákvæði þessara gr. í talsverðu ósamræmi hvert við annað? Samkv. frv. virðist álagsskylda ábúenda eiga að falla niður eða yfirfærast á eigendur jarðanna, en þó er sagt, að leiguliði sje skyldur að viðhalda húsum, svo að þau fyrnist ekki um skör fram. En hvað er að fyrnast um skör fram? Í þessu efni er ekki breytt til hins betra.

Þá er í 13. gr. frv. gert ráð fyrir, að úttektarmenn sjeu skyldugir til að fara um allan hreppinn og taka út öll hús á leigujörðum 5. hvert ár. En hver á að borga þeim fyrir það? Um það eru engin ákvæði í frv. Mjer þætti vænt um, ef hv. flm. vildi benda mjer á þá aðila, sem eiga að kosta úttektina. Jeg bíð eftir svari.

En þessi ákvæði eru óþörf og óhafandi í alla staði, hvort heldur sem ætlast er til, að eigandi jarðar eða ábúandi greiði þennan kostnað. Hjer er að nauðsynjalausu gripið inn í samninga og samkomulag manna, sem löggjafarvaldið varðar ekkert um. Mjer er sem jeg sjái ánægjusvipinn á úttektarmönnum yfir þeirri kaupgreiðslu, sem þeir fá fyrir þetta rölt um hreppinn 5. hvert ár, sem er alveg þýðingarlaust.

Ef úttektarmenn vanrækja skyldu sína, eiga þeir að sæta óþægindum og sektum. Sekt þeirra á að vera í því fólgin, að þeir bæti landsdrotni fyrir þann skaða, sem hann kann að verða fyrir vegna vanrækslu þeirra og eftirlitsleysis. En hverjum dettur í hug, að hægt sje að meta það, hvort landsdrottinn skaðist af þessari vanrækslu? Jeg held það sje mjög örðugt að meta það, sjerstaklega þegar þess er gætt, að úttekt á að fara fram þó engin ábúandaskifti verði. Þessi ákvæði eru því alger endileysa. Þá er skv. 16. gr. leiguliða heimilt að byggja jarðarhús, ef landeigandi vill ekki gera það sjálfur. En hann er skyldur til að borga leiguliða kostnaðinn, sem aftur á að greiða eiganda 5% vexti af kostnaðinum. Nú er ekki víst, að eigandi jarðarinnar geti greitt þetta úr eigin vasa, því vel getur hann verið fátækur maður. Verður hann þá að taka lán til þess, og greiða máske 7–8% af því láni, en hefir ekki kröfu til meira en 5%. Auk þess verður hann að bera eðlilega fyrningu á mannvirkjunum. Hann fær því aldrei að fullu þann höfuðstól, sem í þeim liggur.

Þá bætir 17. gr. einni skyldunni enn við landsdrottin. Með þeirri gr. eru þeir skyldaðir til að hafa hús á leigujörðum sínum trygð gegn eldsvoða. Ef nú eigandi á að vera skyldur til að byggja, er þá ekki sama um það, hvort hann hefir húsin trygð eða ekki? Jeg get nú fallist á það, að öruggara sje að hafa húsin trygð. En mjer þykir ekki rjett að hafa skyldutryggingu á öðrum en bæjarhúsum og húsum, sem jörð eiga að fylgja. En það er ekki nema eftir allri stefnu frv., þótt jarðeigendum sje lögð þessi kvöð á herðar.

Þá er 22. gr. Jeg tel ákvæði hennar algerlega óþörf. Mjer finst algerlega óþarfi að skifta sjer af kúgildum. Um það getur ávalt verið samkomulag milli aðilja. Veit jeg ekki til, að neinn ágreiningur hafi um það orðið, að minsta kosti ekki þar sem jeg þekki til.

Þá vill n. samkv. 26. gr. hafa eindaga á jarðarafgjöldum í fardögum. Jeg er hissa á því, að hún vill breyta eindaga á kúgildaleigu, sem hefir verið á haustin. Mjer finst þetta óþarfi og hygg, að það geti valdið óþægindum. (PO: Landsskuld af landssjóðsjörðum á nú að greiðast um nýár). Jeg þakka hv. þm. Borgf. fyrir að minna mig á þetta. Því má þó ekki gleyma, að afgjald af þeim jörðum er venjulega borgað í peningum.

Þá finst mjer það vera slettirekuskapur að skylda jarðeiganda að hafa umboðsmann til að taka móti jarðarafgjöldum, ef hann býr fjær jörð sinni en 30 km. Um þetta hefir aldrei orðið neinn ágreiningur. Og það, sem reynst hefir vel í eldri löggjöfinni, finst mjer gjarnan megi standa óbreytt.

Þá furðar mig á ákvæði 29. gr. 5. lið, að leiguliði fyrirgeri rjetti sínum til ábúðar, ef hann kaupir ekki ábýlisjörð sína eftir matsverði. Jeg er hissa á því, að sömu hv. þm., sem svo vel vilja tryggja rjett leiguliða með þessu frv., skuli ekki kveinka sjer við að leggja þetta til. Jeg býst nú samt við, skuli byggingarbrjefum jarða. Jeg hefi nú leitað að ástæðum n. fyrir þessu ákvæði, og mjer finst satt að segja þær ástæður fremur veigalitlar. Það er aðeins sagt, að þetta sje orðin venja um flest skjöl, en sú venja hlýtur þó að vera bygð á einhverri nauðsyn, en hver sú nauðsyn er, í þessu tilfelli, er mjer ekki vel ljóst. Mjer skilst, að þinglýsingar sjeu gerðar eingöngu vegna þriðja aðila, þ. e. ef þriðji aðili getur átt hagsmuna að gæta. Það getur verið nauðsynlegt að þinglýsa skjökun, sem að einhverju leyti snerta hag þriðja manns, eða óviðkomandi aðila. Þegar um byggingarbrjef er að ræða, kemur slík aðild ekki til greina. Þetta er þess vegna eintóm skriffinska og óþarfi, eins og hv. þm. Barð. tók fram.

Þá kem jeg að því atriðinu, sem jeg tel einna athugaverðast, en sem jeg verð að játa, að jeg hefi enn ekki getað kynt mjer til hlítar. Þetta atriði er viðhaldsskylda landeiganda á húsum jarðarinnar. Jeg hygg þetta ákvæði óhagstætt fyrir bæði jarðeiganda og ábúanda. Ef ábúandi hefir enga viðhaldsskyldu á húsum jarðinnar, getur það sýnilega leitt til meira tómlætis og hirðuleysis um viðhald en ella. Í þessum efnum veltur meira á hirðusemi og góðri umgengni, sjerstaklega þegar um torfhús er að ræða, heldur en beinum fjárframlögum. Ef viðhaldsskyldan hvílir á landeiganda, verður hann að fá það greitt með hærri landsskuld, og til þess að tryggja sig gegn hugsanlegu hirðuleysi eða vanrækslu ábúanda, verður hann að áætla hækkun landskuldarinnar fyrir þessu sem ríflegast, a. m. k. hærra en viðhaldið þyrfti að kosta hirðusaman ábúanda. Þetta er algert nýmæli í ábúðarlöggjöfinni og orkar mjög tvímælis.

Þá kemur enn eitt atriði, sem að vísu er ekki nýmæli, og það er, að ábúanda er óheimilt að láta landsnytjar af hendi, nema í skiftum fyrir aðrar. Þetta er mjög hæpið ákvæði. Má vera, að fyr á tímum hafi þetta verið fyllilega rjettmætt, en nú hagar öðruvísi til; nú er auðveldara að halda við ræktun, þótt látnar sjeu burt nytjar, þar sem nú er kostur á tilbúnum áburði. Jeg vil benda á það, að frumbýlingi, sem á lítinn bústofn, getur oft verið mikil stoð og styrkur í því að geta látið burtu landsnytjar, ef ekki telst spilla landinu, t. d. slægjur eða því líkt. Jeg get ekki talið það varhugavert, þótt ábúandi láti burt landsnytjar, ef hann að öðru leyti heldur jörðinni í rækt. Það gæti verið mikilsvert atriði fyrir frumbýling, til þess að koma sjer upp hæfilegum bústofni og efla fjárhagsafkomu sína. Jeg vil þó ekki með þessu draga úr skyldu ábúanda til þess að halda jörð í fullri rækt, en jeg lít svo á, að hann geti með góðu móti látið af hendi ýmsar landsnytjar, án þess að ræktun landsins sje hnekt hið minsta.

Jeg mun svo ekki minnast frekar á einstök atriði frv., nje fara í sparðatíning. Jeg hefi aðeins bent á þessi atriði til athugunar þeirri n., sem fær mál þetta til meðferðar. Hitt má engum dyljast, að hjer er um svo yfirgripsmiklar og róttækar breyt. að ræða á núverandi ábúðarlöggjöf, að með engu móti má rasa um ráð fram. Jeg vil því enda mál mitt með þeim tilmælum, að málið fái glögga og gaumgæfilega athugun, áður en gengið er til endanlegrar úrlausnar.