08.04.1929
Neðri deild: 39. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í C-deild Alþingistíðinda. (3226)

113. mál, ábúðarlög

Magnús Jónsson:

Það er ekki nema eðlilegt, að jeg, sem hvorki er jarðeigandi eða leiguliði á jörð, tefji lítið umr. um þetta mál. Þó vil jeg minnast á örfá atriði, vegna þess að mjer virðist svo, sem hjer sje á ferð allverulegt stefnumál. Vil jeg fyrst víkja að því, sem jeg skaut til hv. flm. í dag, um skilning á 1. gr. frv., þar sem segir svo: „Hver maður, sem jörð á og hefir ekki fasta ábúð á sjálfur, skal selja hana öðrum á leigu og ávalt þannig, að hæfileg áhöfn sje á jörðunni... “. Þetta ákvæði skýrði hv. flm. þannig, að það ætti að vera til þess að koma í veg fyrir, að menn tækju jarðir á leigu án þess að hafa á þeim nægilegan bústofn til þess að geta nytjað jarðirnar. Jeg þykist nú vita, að ákvæði þetta beri að skilja á þennan veg. En eftir orðalagi gr. er ekki hægt að fá annað út úr henni en að jarðir skuli altaf leigja með hæfilegri áhöfn. Og þar sem mþn. í landbúnaðarmálum hefir yfirleitt verið mjög stórvirk í öllum breyt., var ekki fjarri mjer að halda, að skilja bæri gr. eftir orðanna hljóðan. Jeg vil nú spyrja hv. flm., hvernig hann hugsi sjer, að hægt sje að sjá um, að altaf sje hæfileg áhöfn á jörðunum, þar sem annarstaðar í frv. eru ákvæði um, að leigja skuli jarðirnar til lífstíðar og afskifti og umráð jarðeiganda yfirleitt gerð sem allra minst. Mjer virðist, að það muni geta orðið erfitt að sjá um þetta. Annars býst jeg við, að breyta þurfi orðalagi frv. víðar en á þessum stað, ef það á að verða annað en dauður bókstafur.

En það, sem knúði mig til að taka til máls, er hið sama og hv. 1. þm. S.- M. og hv. þm. Barð. töldu sig hafa við það að athuga, að svo stórkostlega væri þrengt að kostum þeirra, sem jarðir eiga, að ókleift yrði fyrir menn að eiga jarðir, sem þeir ekki byggju á sjálfir, með því meðal annars að setja það í lög, að leiguliði geti neytt landsdrottinn sinn til þess að kaupa hús og önnur mannvirki, sem hann gerir á ábýlisjörð sinni, hvenær sem er. Með þessu er jarðeigendum sköpuð svo mikil áhætta, að varla er hægt að búast við, að menn vilji hætta eignum sínum í það að kaupa jarðir. Líka er það dálítið hart að heimila sveitarstjórnum að skifta jörðum, ef þeim þykir þess þörf. Geta þær þannig t. d. látið skifta stórum höfuðbólum, sem eigendunum væri mjög sárt um. En slíkt væri óneitanlega mjög hart, og þegar svo þar við bætist, að leiguliðarnir á jarðahlutunum geta látið byggja þar hús o. fl. mannvirki, og skipað eigendunum að skyldur á herðar. Til þess að frv. nái tilgangi sínum verður einnig að fyrirbyggja það, að jarðir lendi í braski. Tel jeg vel farið, að n. hefir verið þetta ljóst. Jarðabrask er orðið talsvert nú þegar og til mikils tjóns. Þetta hefir n. einnig verið ljóst. Jeg vil leyfa mjer að lesa upp ummæli n. um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir svo á bls. 40–41:

„Það er því miður enn margt manna í þessu landi, sem á jarðir og er að sækjast eftir að eignast þær, en lætur sig litlu eða engu varða afkomu íslensks landbúnaðar eða hvernig með jarðirnar fer, ef þeir aðeins hagnast á jarðapranginu. Slíkum mönnum eiga ekki að haldast uppi slík búnaðarspjöll.“

Þetta er alveg rjett. Jarðeignirnar í landinu, sem eru undirstaða atvinnu helmings þjóðarinnar, eiga ekki að verða braskvara, eins og sígarettur og silkisokkar. Er það góðra gjalda vert, að n. hefir sjeð þetta. En því miður finst mjer ósamkvæmni gæta hjá n., þar sem svo er ákveðið í 35. gr., að ef „aðstaða til búskapar á jörðu breytist, án þess að það sje af völdum náttúrunnar eða fyrir tilverknað leiguliða eða landsdrottins“, þá „getur hvor aðili fyrir sig krafist endurskoðunar á leigumála jarðarinnar.“

Í þessu ákvæði felst, að viðurkent er af flm., að ef t. d. nýr vegur er lagður, þannig að jörð njóti góðs af, eða ef þorp byggist í námunda við hana, að gróði af þessum ástæðum skuli ganga til landeiganda. Mig furðar á því, að n., sem segist vilja fyrirbyggja jarðabrask, skuli á þennan hátt gefa mönnum undir fótinn, með því að gera þeim fært að græða á því að kaupa upp heilar spildur, sem líklegt er að hækki í verði án þeirra eigin tilverknaðar. Að flm. hefir þó verið þetta ljóst, er auðsætt af aths. við 35. gr., á bls. 47 í frv. Þar segir svo: „Þannig getur t. d. aðstaða til búskapar á jörð í grend við kauptún, sem er að stækka, orðið miklum mun betri en ráð var fyrir gert, þegar hún var bygð, og leigumáli jarðarinnar því í ósamræmi við notagildi hennar.“

Jeg verð að líta svo á, að landeigendum beri ekki sá verðauki, sem sprottinn er af þessum ástæðum, og furðar á, að n. skyldi láta þennan möguleika opinn. Það hlýtur að örva jarðabraskið.

Þessar hugleiðingar mínar um málið hafa allar verið almenns eðlis, og vil jeg enn bæta því við þær, að enn virðist mjer alt á huldu um það, hver framtíðarúrlausn verði heppilegust á rekstri íslensks landbúnaðar. Þykir mjer og sennilegt, að það fari eftir hjeruðum og landsháttum. Nefndin virðist hallast að þeirri skoðun, að heppilegast sje að sjálfseignarbændur sjeu sem flestir og býlin sem smæst. Jeg tel þó alveg víst, að sumstaðar borgi sig betur að búa stórt, svo að hægt sje að nota hinar fullkomnustu vjelar við búreksturinn, sem einstökum smábændum er ókleift að eignast. Flestum þeirra yrði ofvaxið að stækka svo bú sín, að þau stæðu straum af slíkum kostnaði. Þar verður ekki hjá því sneitt, að fjáraflamenn leggi undir sig margar jarðir, fáir stórbændur komi í stað margra smábænda, sem þá verða búlausir og gerast hjú stórbændanna. Ekki verður komist hjá stórrekstri, ef sýnt er, að hann borgi sig betur en smábúskapur. Og því hljóta jafnvel þeir, sem eru andstæðir því, að ríkið eigi jarðirnar, að vera því fylgjandi, að athugað verði, hvernig samlögum og samtökum í búskapnum verði best fyrir komið. Þetta verður stj. að athuga vel, ef búnaðarbankinn kemst á stofn. Og ef það sannast, sem jeg tel líklegt, að betur borgi sig víða að reka búskap í stórum stíl en smáum, verður löggjafarvaldið að athuga möguleika til fjelagsbúskapar á þeim stöðum, ef ekki á eins að fara í sveitum og við sjóinn, að stórrekstur einstakra manna, sem kaupa vinnu fjölda eignaleysingja, verði hið ríkjandi fyrirkomulag.

Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að um svo miklar breyt. væri að ræða á núg. lögum eftir frv., að fullkomin bylting væri á ferðinni í þessu efni. Menn getur nú greint á um, hvaða breyt. skuli teljast bylting, en eins og jeg hefi þegar sagt, tel jeg talsverðar umbætur felast í frv. og álít rjett ábúenda betur trygðan en áður.

Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) var, að því er mjer skildist — hann leiðrjettir ef jeg fer rangt með —, að bera þessi lög saman við húsaleigulögin, er um skeið giltu hjer í Reykjavík. Hann hjelt því fram, að húsaleigulögin hefðu orðið til að draga úr byggingum og húsnæði, og að þetta frv. væri hliðstætt. Þetta er auðvitað fjarstæða. Ef dæmið væri rjett hjá honum, þá ættu þessi lög að minka jarðnæðið. En jarðnæðið er til í landinu eftir sem áður. Hjer er um það eitt að ræða, hversu skuli tryggja rjett ábúenda til þessa jarðnæðis, og um það efni tel jeg, að frv. sje í meginatriðum til mikilla bóta frá því, sem nú er.