11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í C-deild Alþingistíðinda. (3237)

114. mál, síldarnætur

Flm. (Ólafur Thors):

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með frv. þetta eftir ósk ýmsra útgerðarmanna, og felast rökin fyrir því í grg. þess. Jeg hefi átt tal um frv. við sjútvn., einkum við form. nefndarinnar, hv. 1. þm. S.-M., og hv. þm. Vestm., og hefir okkur komið saman um, að lög þau, sem hjer er farið fram á að afnema, sjeu mjög þýðingarlítil, en geti þó að sumu leyti verið skaðleg, og sje því rjett að nema þau úr gildi. Að umr. lokinni óska jeg málinu vísað til 2. umr. og sjútvn.