16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1725 í C-deild Alþingistíðinda. (3267)

117. mál, skipun barnakennara og laun

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er komið frá hv. Nd., og var flutt þar af fræðslumálastjóra, hv. þm. V.-Ísf. Það hefir legið hjer fyrir fjhn., og hún hefir orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. Eins og frv. ber með sjer, er með því gerð sú breyting á launum farkennara í sveitum, að árslaun þeirra hækka úr 300 kr. upp í 500 kr., og eru einnig gerðar ráðstafanir um það í frv., hvernig þessi hækkun greiðist úr ríkissjóði. Ástæðurnar fyrir frv. eru færðar fram í grg. af hv. flm., og n. gat fyrir sitt leyti fallist á þær.

Það er viðurkent, að frá byrjun hafi gætt nokkurs misrjettis um niðurjöfnun kostnaðar við barnafræðslu í sveitum og kaupstöðum, því að hlutfallsgreiðsla ríkissjóðs til sveitanna er minni heldur en til kaupstaðanna. Úr þessu misrjetti er bætt með frv., en það er þó ekki aðalatriðið. Aðalatriði málsins er eiginlega það, að miklir erfiðleikar hafa verið á því fyrir sveitirnar að fá sæmilega barnakennara fyrir þau laun, sem þeim eru nú ákveðin. Víða hefir farið svo, að sveitarsjóðirnir hafa orðið að leggja á sig meiri og minni útgjöld til þess að fá kennara, og sumstaðar hefir það ekki dugað, því að margar sveitir geta alls ekki fengið mann með kennaraskólaprófi til þess að annast kensluna hjá sjer. Fræðslumálastjóri er oft beðinn að útvega menn á þessa staði, en þegar það tekst ekki, þá verður að veita undanþágur og taka einhverja aðra menn, sem ekki fullnægja skilyrðunum. Það gefur að skilja, að það er ekki leyfilegt að gera ákvæði fræðslulaganna þannig að engu og láta ef til vill kunnáttulausa eða kunnáttulitla menn annast barnafræðsluna í sveitunum. Það er nauðsynlegt, að hún fari ekki í handaskolum, og sjálfsagt að bæta úr henni eftir bestu getu.

Það er ekki hægt að segja með neinni vissu, hversu mikil útgjöld þetta mundi hafa í för með sjer fyrir ríkissjóð. Jeg skal játa, að n. hafði hvorki tíma nje tækifæri til þess að rannsaka þetta. Hún getur ekkert sagt um það með neinni vissu, hve miklu þetta muni nema, því að málið barst henni svo seint, að hún vildi ekki tefja það um skör fram, svo að það dagaði ekki uppi. Hv. flm. gerir ráð fyrir því í grg. frv., að þetta muni nema 20–25 þús. kr. árlega, en hinsvegar taldi minni hl. í hv. Nd. að það mundi verða kringum 35 þús. kr. Jeg skal ekki leggja neinn dóm á, hvort muni vera rjettara, en jeg hygg, að hv. flm. sje þessum málum manna kunnugastur og hafi farið nærri því rjetta. Þó kann að vera, að hann hafi ekki tekið dýrtíðaruppbótina þarna með, og getur þá verið, að upphæðin sje nokkru hærri heldur en hann gerir ráð fyrir. Mjer virðist því ekki ósanngjarnt að fara bil beggja og gera ráð fyrir, að þetta muni kosta ríkið 30 þús. kr. árlega, því að jeg er ekki ugglaus um, að minni hl. n. í hv. Nd. hafi áætlað þetta heldur hátt. Mjer virðist upphæðin ekki vera mikil og eftir atvikum sanngjarnt að veita hana, því að þegar athugað er, hversu miklu er varið til barnafræðslu í sveitum og kaupstöðum, þá kemur í ljós, að sveitirnar bera skarðan hlut frá borði.

Jeg geri ráð fyrir, að málið sje nægilega upplýst, og ætla því ekki að barnafræðslan aldrei komist í viðunandi horf, síst í sveitum landsins. Slík launaviðbót, sem hjer er farið fram á, getur því orðið mjög til þess að halda fólki kyrru í sveitunum, og sjerstaklega því fólki, sem verulegt lið er að, sem sje þeim mönnum, sem líklegir eru til þess að halda uppi andlegri menningu sveitanna. Vinir sveitanna hjer á þingi tala oft um, að stöðva þurfi hinn sterka straum úr sveitunum til kaupstaðanna. Hjer gefst þeim tækifæri til þess að sýna, hver alvara liggur að baki. Jeg hefi talað við fjölda manna um þetta mál, og eru allir á eitt sáttir um það, að hjer sje um að ræða stórt spor til viðreisnar sveitunum. Jeg vil biðja hv. þdm. að gefa þeirri hlið málsins gaum.