17.05.1929
Efri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í C-deild Alþingistíðinda. (3277)

117. mál, skipun barnakennara og laun

Forseti (GÓ):

Jeg skal ekki segja neitt um það, hve mikil rök hv. 4. landsk. (JBald) getur fært fyrir því, að þetta hafi oft komið fyrir. Þó er það kannske nokkuð annað, að gengið sje linlega eftir hreinum meiri hl. við smábreytingar, heldur en við heil frv., sem hafa mikil útgjöld í för með sjer. Svo vil jeg heldur ekki halda því fram, að mjer geti ekki skjátlast með úrskurði, sem jeg hefi kveðið upp, það getur vel verið eitthvað skakt í þeim, en þó mundi jeg reyna að forsvara þá, ef sjerstaklega væri bent á einhvern þeirra. En jeg hugsa, ef farið er að leita í gerðabókum þingsins til fleiri ára, þá geti fundist fleira, sem ógreitt kann að verða um að samræma. En jeg vík að því aftur, sem hv. þm. Snæf. (HSteins), og reyndar hv. 4. landsk. (JBald) líka, hafa sagt á móti þessari atkv.greiðslu, að ef þeir vilja greiða atkv. um þetta mál, þá vil jeg láta það sama ganga yfir hitt málið. En ef deildarmenn, þótt ekki sje nema einn, hafa á móti því að greiða atkvæði um þetta, þá mun jeg ekki fara fram á það við hv. deild, að hún greiði atkvæði um hitt, en kveða þá upp úrskurð í báðum þessum málum. En jeg vil óska þess, að þeir, sem ekki hafa greitt atkvæði í þessu máli, það var hv. þm. Ak. (EF), hv. þm. Snæf. (HSteins), hv. 2. landsk. (IHB) og hv. 4. landsk (JBald) vildu nú gefa mjer upp ástæður sínar betur, því ef til vill hefi jeg ekki gengið nógu ríkt eftir því, hvaða ástæður þeir höfðu til þess að vilja ekki greiða atkvæði.