10.04.1929
Neðri deild: 41. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í C-deild Alþingistíðinda. (3289)

119. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Þetta mál þarf ekki langrar framsögu við. í grg. frv. er tekið fram, hversvegna það er flutt. Það hefir allvíða komið fram, að yfirskattanefndir hafa misskilið tekju- og eignarskattslögin. Tel jeg rjett, að í slíkum tilfellum felli stjórnarráðið úrskurð um vafaatriði, án þess að komi til kasta dómstólanna, enda er svo til ætlast í lögunum. Frv. ákveður skýrt um þetta, og vona jeg að hv. deild vísi málinu til 2. umr. og fjárhagsnefndar og hleypi því sem fyrst gegnum deildina.