22.04.1929
Neðri deild: 51. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í C-deild Alþingistíðinda. (3292)

119. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg er sammála hv. meðnefndarmönnum mínum um það, að rjett sje að hafa einn yfirdómstól í skattamálum, og þess vegna hefi jeg getað fylgt frv. En fyrirvari minn er í því fólginn, að jeg álít, að það væri unt nú þegar, að ráðast í það, að setja á stofn landsyfirskattanefnd. Því að jeg tel það ekki heppilegt, að úrskurðir um þessi efni byggist á svo pólitískum grundvelli og hlýtur að verða meðan ráðuneytið fer með þessi mál. Hygg jeg betra, að þau væru lögð undir úrskurð þar til kjörinnar nefndar. Annars býst jeg við að komi uppástunga um þetta frá milliþinganefnd þeirri í skattamálum, er nú situr á rökstólum. Jeg vildi því ekki leggja fram sjerstaka till. þess efnis, en get sætt mig við þetta fyrirkomulag fyrst um sinn.