15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í C-deild Alþingistíðinda. (3303)

120. mál, refarækt

Pjetur Ottesen:

Það er ef til vill nauðsynlegt að setja lagaákvæði um, að refir sjeu aldir í fulltryggum girðingum. En jeg býst við, að ákvæði um þetta sjeu tekin upp í refareglugerðir flestra sýslna, að minsta kosti er svo í Borgarfirði. Það kann að vera, að þetta sje ekki allsstaðar gert, og að þetta sje því nauðsynlegt, enda er jeg ekki á móti því, að lagaákvæði sjeu sett um þetta efni. En það þarf að samrýma þessi ákvæði möguleikunum til að koma yrðlingunum heim í þessar girðingar, en samkvæmt þessu frv., verður ekki hægt að uppfylla lagabókstafinn, hvað þetta snertir. Það eru sjerstaklega ákvæði 3. gr., sem mjer virðist að mjög geti orkað tvímælis. En hv. frsm. mintist ekki einu orði á ákvæði þessarar gr. Þar er svo kveðið á, að eigi megi flytja út refi nema frá þeim refabúum, sem starfað hafa árlangt (12 mánuði) að minsta kosti. Eftir því sem mjer er kunnugt, er ekki um að ræða nema þrjú refabú hjer á landi, er fullnægi þessum skilyrðum, og er þeim því með ákvæðum gr. gefin einkaheimild til að flytja út og selja refi. Síðastliðið vor hækkaði verð á yrðlingum geysilega mikið. Undanfarin ár hafði það verið þetta 40–50 kr., en á síðasta vori steig það upp í 300 kr. Orsökin er sú, að hjer mun hafa verið allhörð samkepni um kaup á yrðlingum á milli Norðmanna og þeirra Íslendinga, er hafa komið sjer upp refabúum. Það er sjálfsagt að stuðla að því, að refarækt geti orðið sem arðvænlegust fyrir landsmenn, en því má ekki gleyma, að ef 2–3 fjelögum er gefið einkaleyfi um sölu yrðlinga, er þeim mörgu mönnum, er grenin vinna og refanna afla, gert mjög rangt, því að þeir verða algerlega háðir vilja þessara fáu manna, sem þá hafa aðstöðu til þess að kaupa yrðlinga til þess að senda þá lifandi út, um það, hvaða verð þeir borga fyrir dýrin.

Jeg vildi benda á þetta og skora á hv. landbn. að taka þetta atriði málsins til athugunar, af því að hún virðist ekki hafa athugað það svo vandlega sem skyldi, og styður það þá skoðun mína, að hv. frsm. n. mintist ekki á það.