24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í C-deild Alþingistíðinda. (3318)

120. mál, refarækt

Halldór Stefánsson:

Jeg hefi minni ástæðu til að tala vegna þess, að hv. þm. Borgf. hefir nú skýrt svo rækilega hugsun okkar flm. brtt. á þskj. 377. Vildi jeg því víkja orðum mínum til hæstv. atvmrh., ef hann má nema mál mitt, um eitt atriði í frv., er snertir vörslu refa. Orðalag frv. er þar nokkuð alment og gefur til kynna, að fleira geti talist fullkomin varsla en tryggar girðingar. Álítur hæstv. ráðh., að eyjar geti talist fullkomin varsla fyrir refi? Eins og jeg hefi áður bent á, þá álít jeg þær engan veginn fulltrygga vörslu, og langar því til að heyra, hvernig hæstv. stj., sem ætlað er að setja reglugerð um þetta, lítur á það atriði.

Hv. þm. Barð. kom fram með fyrirspurn til okkar flm. brtt. á þskj. 377 um, hvort till. okkar ætti að vera til hægðarauka fyrir Norðmenn. Því er fljótsvarað, að við höfðum þá ekki sjerstaklega í huga. Tilgangur okkar er sá, að við vildum ekki útiloka samkepni um verðið á refunum, og vildum ekki gefa refabúunum, sem nú eru, í hendur fult einræði um verðið og refaeldið, heldur væri fleirum veitt aðstaða til þess. (BSt: Hvar er það bannað í frv. að ala refi?) Jeg vil leyfa mjer að benda á reynsluna frá síðastl. ári um verðið á refa-yrðlingum. Á Austurlandi voru boðnar 70 kr. fyrir mórauða yrðlinga áður en nokkur samkepni kom þar til greina; en eftir að samkepnin kom til, var boðið í þá 230 krónur eða meira. (LH: Voru það Norðmenn, sem hækkuðu verðið?). Samkepnin var á milli refaræktarfjel. íslenska og Norðmanna.

Hv. þm. Borgf. gerði ljósa grein fyrir því, að í frv. eru engar skorður reistar gegn því, að refirnir geti orðið ranglega flokkaðir á erlendum markaði. Fyrst leyft er að flytja þá út, þá geta hinir erlendu kaupendur gert við þá það, sem þeim sýnist, og í frv. er ekkert ákvæði því til varnar.

Jeg hefi svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, því fremur sem þm. Borgf. hefir líka skýrt þau atriði, sem till. okkar byggist á.