24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í C-deild Alþingistíðinda. (3319)

120. mál, refarækt

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) beindi til mín fyrirspurn út af einu atriði frv.; jeg ætla ekki að snúa mjer að því að svo stöddu, en vík að öðru í sambandi við þetta mál. — Það er enginn vafi á því, að þetta er mjög þýðingarmikið mál, og snertir hagsmuni manna víða um land, og þess vegna er nauðsynlegt að það fái næga athugun og undirbúning. Mjer finst þetta mál vera flutt af of mikilli fljótfærni hjer á Alþingi. Hv. landbn. flytur fyrst frv. á þskj. 294, síðar kemur hún svo með brtt. á þskj. 363, sem umsteypa hennar eigin frv.; og svo eru tvær aðrar brtt. við frv. — Þetta ber vott um, að málið hafi ekki verið nægilega athugað áður en það var lagt fyrir þingið.

Þegar um jafn þýðingarmikið mál er að ræða fyrir landbúnaðinn, mál, sem snertir fjölda manna í landinu, og þegar milliþinganefnd situr á rökstólum í landbúnaðarmálum, þá vil jeg beina því til hv. landbn. að athuga það milli annarar og þriðju umræðu, hvort ekki sje rjett að vísa þessu máli til milliþingan. til athugunar og undirbúnings undir næsta þing.