24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í C-deild Alþingistíðinda. (3321)

120. mál, refarækt

Pjetur Ottesen:

Háttv. þm. N.-Ísf. sagði, að jeg vildi hnekkja þeim mönnum, sem að refabúunum standa. Það má til sanns vegar færa, að það sje til hnekkis refabúunum, að þurfa að kaupa refina í samkepni við Norðmenn, í stað þess að skamta verðið sjálf, en það, sem fyrir mjer og fleirum vakir, er, að við viljum láta þá samkepni, sem nú er í þessum efnum, njóta sín, á meðan þeir eru ekki fleiri, sem geta notað sjer það verð, sem fáanlegt er á erlendum markaði.

Hvað því viðvíkur, að Norðmenn sviki þessa vöru og selji hana undir fölsku nafni, get jeg vísað til þess, sem þegar hefir verið sýnt fram á, að þeir geta gert þetta eftir sem áður, þrátt fyrir ákvæði frv.