06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í C-deild Alþingistíðinda. (3332)

120. mál, refarækt

Frsm. (Einar Jónsson):

* Ræðuhandrit óyfirlesið. Þegar frv. þetta um refarækt var afgreitt frá 2. umr., gerði jeg mjer vonir um, að umræðum um málið væri lokið í deildinni. En því mun ekki vera að fagna, þar sem nú eru komnar fram brtt. á þskj. 460, sem gerbreyta frv. Jeg býst nú við, að hv. þdm. hafi veitt því eftirtekt, hvaða breytingu till. þessar gera á frv., en eigi að síður vil jeg fara um þær nokkrum orðum. Og er þá fyrst, að fyrsti liður brtt. á þskj. 460 fer fram á, að 1. gr. frv. falli burt, en hún hljóðar svo: „Öll refabú skulu vera háð dýralækniseftirliti, en þar skal refabú talið, sem refir eru aldir árlangt, hvort sem færri eru eða fleiri.“ Er því með brtt. þessari farið fram á, að frv. verði stytt, bæði að efni og orðfæri. önnur gr. frv. á svo að vera óhögguð, að öðru leyti en því, að hún verður 1. gr. Þá fer 3. liður brtt. fram á, að 3.–4. gr. frv. verði feldar burtu, en í þeirra stað komi ný grein svohljóðandi: „Nú eru refir fluttir úr landi lifandi, og skal þá fylgja hverri sendingu vottorð dýralæknis um heilbrigði dýranna.“ En í 3. gr. frv. stendur: „Eigi má flytja út refi, nema frá refabúum, sem starfað hafa árlangt (12 mánuði) að minsta kosti, og þó því aðeins, að engin næm sýki hali gengið á búinu síðastliðið ár. Vottorð frá dýralækni um heilbrigði dýranna skal fylgja hverri sendingu.“ Þá vill flm. brtt. líka láta nema í burtu ákvæði 4. gr. frv., sem fjallar um sektir fyrir brot gegn lögum þessum. Fjórði liður brtt. á þskj. 460 er tilfærsla á greinum, og því engin efnisbreyting. Af hálfu landbn. hefi jeg það að segja, að hún finnur ekki ástæðu til að taka brtt. þessar til greina, og leggur því til, að þær verði feldar, en frv. samþykt óbreytt, eins og það liggur fyrir á þskj. 421, því að það er álit nefndarinnar, að á þann hátt geti það orðið að liði, en annars ekki. Legg jeg því til, fyrir hönd nefndarinnar, að frv. verði samþ. óbreytt.