13.03.1929
Efri deild: 21. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í C-deild Alþingistíðinda. (3396)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Flm. (Ingvar Pálmason):

Frv., sama efnis og þetta, lá fyrir síðasta þingi, en varð þá eigi útrætt. Jeg lít svo á, að frv. þetta sje aðeins einn liður þeirra ráðstafana, sem nauðsynlegar eru til að halda uppi landhelgivörnum hjer við land. Á því er allmikið orð gert, eða hefir verið a. m. k., að íslenskir togarar muni fremja talsvert af landhelgibrotum í íslenskri landhelgi, þótt eigi verði uppvíst. Mun það meðfram vera bygt á því, að slík lögbrot voru alltíð fyrir nokkrum árum síðan. Af viðtali við skipstjóra á erlendum togurum má oft ráða, að þeir eru þeirrar skoðunar, að eftirlit sje miklu minna með íslenskum togurum en erlendum. Jafnvel þótt ganga megi út frá, að ummæli erlendu skipstjóranna um þetta efni sjeu ekki á fullum rökum bygð, þá eru þau samt álitshnekkir fyrir íslenska löggæslu. Jeg lít svo á, að sjálfsagt sje að gera alt, sem unt er til að kveða niður slíkan orðróm. Og frá því sjónarmiði á þetta frv. fullkominn rjett á sjer. Það er ekki rjett að skoða frv. sem árás á innlendan botnvörpuútveg. Tilgangur þess er þvert á móti sá, að vernda hann fyrir hættulegu ámæli.

Því ber ekki að neita, að frv. þetta mætti talsverðum andmælum frá útgerðarmönnum á þingi í fyrra. En jeg held, að þau andmæli hafi verið að nokkru leyti á misskilningi bygð. En jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi nú gefist tími til að gera sjer grein fyrir, hvað hjer er farið fram á í raun og veru. Og jeg þykist viss um, að það muni, þegar frv. nú hefir hlotið rækilega meðferð þingsins og ef til vill einhverjar breytingar, geta leitt af sjer mikið gott, ef að lögum yrði.

Jeg legg til, að frv. verði nú að lokinni þessari umr. vísað til nefndar, til frekari meðferðar. En auðvitað geta hv. þdm. þegar gert við það þær athugasemdir, sem þeim þykir þurfa á þessu stigi málsins. Tel jeg að frv. eigi að ganga til hv. sjútvn., því sú nefnd mun hafa haft það til meðferðar í fyrra í hv. neðri deild. Mun jeg svo eigi fjölyrða frekar um það að sinni, nema sjerstakt tilefni gefist.